19.02.1964
Sameinað þing: 43. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í D-deild Alþingistíðinda. (3345)

147. mál, herlið, herflugvélar og hernaðarmannvirki

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. þm., sem var að ljúka máli sinu, hefur borið hér fram fjórar spurningar viðkomandi vörnum landsins. Það, sem um er spurt, er ekki annað en atriði, sem oft og mörgum sinnum áður hefur komið fram opinberlega, og hver og einn, sem hefur augun opin, getur séð svörin við sumum eða flestum spurningunum fyrir framan sig daglega. Engu að síður tel ég sjálfsagt og er mér sönn ánægja að endurtaka hér það, sem sennilega flestir hv. alþm. vita og hafa vitað lengi.

Í fyrsta lagi er spurt, hversu margir bandarískir hermenn séu hér á landi og hvort fækkað hafi verið í herliðinu að undanförnu. Eins og málum nú er skipað, dveljast hér að jafnaði rúmlega 3 þús. varnarliðsmenn. Þessi tala er hins vegar nokkuð breytileg vegna flutninga varnarliðsmanna til og frá varnarstöðvum á Íslandi. Varnarliðsmenn dveljast hér aðeins um takmarkaðan tíma, og breytist því heildartala þeirra lítillega eftir því, hvort þeir, sem taka eiga við varnarstöðvum á Íslandi, koma á undan eða eftir þeim, sem láta af störfum hverju sinni. Að undanförnu hefur engin breyting verið á fjölda bandaríska varnarliðsmanna hér á landi önnur en sú, sem leiðir af þessum tilflutningi:

Í öðru lagi er spurt um, hvaða tegundir flugvéla séu hér staðsettar á vegum Bandaríkjahers og til hvers þær séu ætlaðar. Á Keflavíkurflugvelli eru staðsettar á vegum varnarliðsins herflugvélar, sem eingöngu eru gerðar til varna, flutningavélar til flutninga á varningi og fólki og björgunarflugvélar. Eins og allir þeir, sem í kringum flugvöllinn búa og flugvélagerðir þekkja, vita, er tegund þessara flugvéla, sem hér eru, það eru Lockhead, Consteilation, Neptune, Delta, Douglas DC-3 og DC-4.

Í þriðja lagi er spurt um, hvort flugvélar með kjarnorkuvopn hafi haft aðsetur eða viðdvöl á Íslandi. Þessari spurningu hef ég oft svarað áður, m.a. hér á hv. Alþingi. Hér eru engin kjarnorkuvopn og hafa ekki verið.

Í fjórða lagi er spurt um, hvaða mannvirki á Keflavíkurflugvelli séu eingöngu til hernaðarnota. Mannvirki þau, sem varnarliðið hefur látið gera á Keflavíkurflugvelli samkv. varnarsamningnum frá 1951, svo og mannvirki þau, sem varnarliðið tók við, er það kom hingað, eru til afnota fyrir varnarliðið vegna varna landsins. Af sumum þessara mannvirkja hafa Íslendingar þó einnig afnot, m.a. vegna flugsins.