26.02.1964
Sameinað þing: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í D-deild Alþingistíðinda. (3350)

805. mál, alþýðuskólar

Fyrirspyrjandi (Daníel Ágústínusson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á bskj. 295, svo hljóðandi:

„Hvað líður framkvæmd þál. um óháða alþýðuskóla frá 2. des. 1955?“

Þál. frá 2. des. 1955 hljóðar þannig, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að undirbúa löggjöf um stofnun eins eða fleiri æskulýðsskóla og sérskóla, enda verði landspróf ekki haldið í þeim skólum. Jafnframt verði athugað, hvort ekki er hægt að ná þessu marki með því að breyta einum eða fleiri skólum gagnfræðastigsins í þessa átt. Leitað sé m.a. álits Ungmennafélags Íslands um þetta mál og till. ríkisstj. um það lagðar fyrir næsta reglulegt Alþ.“

Það er komið á níunda ár, síðan till. þessi var samb. hér á hv. Alþ. Hins vegar bólar ekkert á umræddri löggjöf. Á Alþ. 1960 gerði ég sama konar fyrirspurn til hæstv. menntmrh. ásamt hv. þm. Ásgeiri Bjarnasyni. Þá skýrði hæstv. menntmrh. frá því, að þriggja manna nefnd hefði verið skipuð af ráðuneytinu 31. des. 1955 til að athuga mál þetta og gera um það till. til ráðuneytisins. Hann skýrði síðan frá álitsgerð nefndarinnar, sagði enn fremur, að ekki hefði þá verið tímabært að hefjast handa um framkvæmdir, m.a. vegna þess, að þá hefði staðið yfir heildarendurskoðun fræðslulöggjafarinnar, og taldi rétt að bíða eftir henni, áður en ráðizt yrði í að stofna nýjar tegundir skóla. Síðar sagði hæstv. ráðh. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Þessari endurskoðun fræðslulöggjafarinnar er nú nýlokið, og eru till, þeirrar nefndar, sem um það mál fjalla, til athugunar í ráðuneytinu, og mun menntmrn. leggja sérstaka áherzlu á að ljúka þeirri athugun af sinni hálfu í sumar (þ.e. 1960), þannig að það af till. þeirrar nefndar, sem menntmrn. vill gera að sínum, verði komið fyrir Alþ. næsta haust (þ.e. 1960). í því sambandi er einnig eðlilegt, að þetta mál komi til athugunar. Samþykkt skólamálanefndarinnar, sem lauk störfum 17. ágúst 1959, var þannig í máli þessu, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin telur, að breyta þurfi lögum um skólaskyldu og fræðslukerfi í það horf, að hægt sé að styrkja af almannafé skóla, sem ekki eru liðir í hinu samfellda skólakerfi, t.d. lýðháskóla og aðra óháða alþýðuskóla, kvöldskóla. og litur svo á, að æskilegt sé, að hér á landi verði komið upp lýðháskólum með líku sniði og tíðkast á Norðurlöndum.“

Það er viðurkennd staðreynd, að alger eyða sé í skólakerfi Íslendinga, meðan óháðir alþýðuskólar eru ekki stofnaðir. Það má raunar segja, að með fyrstu héraðsskólunum hafi verið myndaður vísir að óháðum alþýðuskólum á Íslandi. En starfsemi þeirra sveigðist fljótlega í farveg skyldulærdóms, og með fræðslulöggjöfinni frá 1946 eru þeir felldir inn í fræðslukerfið og hverfa þá algerlega frá því ætlunarverki, sem sumir þeirra voru upphaflega stofnaðir til.

Forsendur vorir á Norðurlöndum telja lýðháskólana gagnmerkan þátt í skólakerfinu, enda er starfsemi þeirra alls staðar veigamikil, þótt hún muni vera með mestum blóma í Danmörku — landi Grundtvigs og Kristofers Colds. Í hartnær öld hafa nemendur dönsku lýðháskólanna verið afl í menningarlífi þjóðarinnar. Þeir hafa haft mikil áhrif til vakningar, ábyrgðartilfinningar og heilbrigðrar þjóðrækni. Þeir eru jafnframt öflugir í norrænu samstarfi, svo sem Íslendingar mega gjarnan minnast vegna drengilegs stuðnings danskra lýðháskólamanna við málstað Íslands í handrítamálinu. Óháðir alþýðuskólar taka á móti nemendum á ýmsum aldri, sem náð hafa fullum þroska, nemendum frá ýmsum störfum og stéttum þjóðfélagsins, sem vilja leita fræðslu og þekkingar án þess að vera rígbundnir við prófkerfi fræðslulaganna, nemendum, sem vilja efla með sér félagshæfni, þjóðrækni og virðingu fyrir frjálsu menningarlífi á Íslandi. Draumurinn um slíkan skóla hefur áreiðanlega vakað fyrir flm. þáltill. þeirrar, sem samþ. var hér á Alþ. 1955. Ég efast ekki um, að sá velvilji gagnvart máli þessu, sem þá kom fram á Alþ., sé enn fyrir hendi, aðeins ef forusta er tekin fyrir því. Ég tel því mikilvægt að heyra svör hæstv. menntmrh. um það, hvað gert hefur verið í málinu og hvers má vænta um framkvæmdir.