26.02.1964
Sameinað þing: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í D-deild Alþingistíðinda. (3351)

805. mál, alþýðuskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Á Alþ. 1960 bar fyrirspyrjandi ásamt hv. 1. þm. Vesturl., Ásgeiri Bjarnasyni, fram sams konar fsp. og hann hefur nú borið fram. Svaraði ég henni í Sþ. 18. maí 1960. Skýrði ég þá frá því, að í framhaldi af þál., sem samþ. hafði verið 2. des. 1955, hafi menntmrn. 31. des. 1955 falið þeim Helga Elíassyni fræðslumálastjóra, séra Eiríki J. Eiríkssyni, forseta Ungmennafélags Íslands, og Magnúsi Gíslasyni námsstjóra að athuga þetta mál og gera um það till. til ráðuneytisins. Enn fremur gat ég þess, að álitsgerð þeirra hefði borizt ráðuneytinu með bréfi, dags. 9. nóv. 1957, og leggur nefndin til í álitsgerðinni, að stofnaður verði lýðháskóli á einhverjum sögufrægum stað, t.d. Þingvöllum eða nágrenni, og hafi helztu félagasamtök landsins forgöngu um stofnun hans, og benti nefndin á eftirtalda aðila sem stofnendur skólans: Ungmennafélag Íslands, Íþróttasamband Íslands og Alþýðusamband Íslands. Nefndin taldi aðalmarkmið skólans eiga að vera að efla þjóðrækni, íslenzk fræði, félagsþroska og kristilegt siðgæðisuppeldi. Þá gerði nefndin ráð fyrir því, að stofnendur skólans útveguðu fé til þess að greiða a.m.k. 1/4 stofnkostnaðar og önnuðust greiðslu a.m.k. helmings rekstrarkostnaðar. Að öðru leyti átti ríkið að greiða kostnað við stofnun og rekstur skólans.

Ég fyrir mitt leyti hafði þá og hef ekki enn neitt á móti því, að stofnaður sé lýðháskóli hér á landi, t.d. með líku sniði og tíðkast á Norðurlöndum. Skólamálanefndin, sem hafði fengið íslenzka fræðslulöggjöf til endurskoðunar á árinu 1957 og lauk störfum 1959, taldi slíka skóla einnig í sjálfu sér æskilega. Frelsi varðandi kennsluhætti og námsval er æskilegt. Eitt af því, sem finna má að skólakerfi okkar Íslendinga, eins og það er nú, er einmitt, að það er að sumu leyti komið í of fastar skorður. Hitt er svo annað mál, að ég er sammála nefndinni, sem starfaði að þessu máli á árunum 1956 og 1957, um það, að ríkið sjálft á ekki að hafa forgöngu um stofnun slíkra skóla eins og nú stendur, heldur á það að vera verkefni frjálsra félagssamtaka með stuðningi ríkisvaldsins. Þetta var og í rauninni álit eða stefna skólamálanefndarinnar, sem lauk störfum 1959. Þó að margir skólamenn og æskulýðsfrömuðir séu sammála um nauðsyn á starfi slíkra lýðháskóla og ég sé þeim í grundvallaratriðum sammála, ef skólastarfinu er sniðinn líkur stakkur og t.d. á sér stað á Norðurlöndum, þá er ekki þar með sagt, að nægilegur áhugi sé á slíku skólastarfi hjá æskulýðnum sjálfum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þess gætir nokkuð hjá íslenzkum æskulýð, sem nefna mætti skólaþreytu. Skyldunámið tekur yfir 8 ár, og þar á eftir taka við ýmiss konar sérskólar, þar sem stefnt er að ákveðnum prófum, sem yfirleitt veita tiltekin réttindi. Um marga möguleika er að velja í þessum efnum, og sem betur fer er það aðalregla hér á landi, að skólar eru algerlega reknir af hinu opinbera og nám því ókeypis. Þetta veldur því, að reynsla hefur sýnt, að æskufólk virðist fremur tregt að sækja skóla, sem eru með frjálsu sniði og veita ekki tiltekin réttindi, jafnvel þótt skólavist þar sé ókeypis, hvað þá ef hún þarf að kosta eitthvað. Skilyrði fyrir slíkum skólarekstri virðist því vera, að hann hafi að bakhjarli samtök, sem hafa virkan og vakandi áhuga á því, að starfræksla hans heppnist, og hafi innan sinna vébanda æskufólk, sem vill sækja slíka skóla. Þetta virðist hafa verið skoðun nefndarinnar, sem að málinu starfaði 1956 og 1957, þ.e. hún gerði ráð fyrir því, að helztu félagasambönd landsins hefðu forgöngu um stofnun slíks lýðháskóla, svo sem Ungmennafélag Íslands, Íþróttasamband Íslands og Alþýðusamband Íslands. Í þessu grundvallaratriði er ég nefndinni sammála. Ég hef þess vegna ekki talið það hlutverk ríkisvaldsins að hafa forgöngu um stofnun slíks skóla. Ef áhugi væri fyrir stofnun hans hjá þessum félagasamtökum, sem nefnd voru, eða fleirum, þá teldi ég sjálfsagt, að ríkisvaldið tæki til athugunar, hvað það væri fúst að leggja af mörkum til stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar slíks skóla.