04.03.1964
Sameinað þing: 49. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í D-deild Alþingistíðinda. (3361)

162. mál, Norðurlandsborinn

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv: ráðh. svör hans. Það kom margt gagnlegt fram í hans svörum, og ég tel líka, að það hafi verið mjög til gagns, að hann birti þessa skýrslu frá raforkumálaskrifstofunni, því að ég get fullvissað hæstv. ráðh, og Alþ. um, að það er mjög fylgzt með þessu máli af hálfu almennings á Norðurlandi og áreiðanlega fylgzt vel með því, hvað verður um Norðurlandsborinn og hvar hann verður staðsettur í náinni framtíð og hvaða verkefni honum verða falin. Það er áreiðanlegt, að hvorki ég né aðrir Norðlendingar höfum neitt á móti því, að honum tækist að finna vatn í Vestmannaeyjum. En samt sem áður hljótum við að leggja á það megináherzlu, að Norðurlandsborinn var keyptur til þess að vinna með honum að jarðhitarannsóknum á Norðurlandi, og það þarf því mjög gild rök til stuðnings því, ef hann er fluttur í burtu í aðra landsfjórðunga.

Út af fyrir sig fagna ég því, sem nú er unnið á raforkumálaskrifstofunni varðandi þessi mál, og ég vil þá jafnframt taka undir það, sem sagt hefur verið um nauðsyn á því, að hraðað verði undirbúningsvinnu, sem ekki virðist liggja fyrir, undir allsherjaráætlun um jarðhitaleit á Norðurlandi. Þar er um svo brýnt verkefni að ræða og áreiðanlega um margra ára vinnu að ræða í sambandi við þau mál norðanlands, allt frá Húnavatnssýslum og austur um til Þingeyjarsýslna.

Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þessi svör hans. Þó langar mig til þess aðeins að víkja að einu, hvort ég hafi skilið hann rétt, að líkur séu til þess, að borinn verði fluttur aftur nú að lokinni borun í Vestmannaeyjum, — hvort ég hafi skilið hann rétt, að hann verði væntanlega fluttur aftur norður í land að lokinni borun í Vestmannaeyjum, þ.e.a.s. nú í sumar. Ég vil biðja hæstv. ráðh. að svara því.