29.01.1964
Efri deild: 39. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., hefur þegar verið samþ. í hv. Nd. Um það var nokkur ágreiningur í þeirri d., en þó ekki um þau meginatriði, sem fela í sér nokkra aðstoð við sjávarútveginn, þ.e.a.s. ekki var um það deilt, að hann þyrfti á aðstoð að halda og að eftir atvikum væri það form, sem hér eru gerðar till. um að hafa þá aðstoð í, eðlilegasta aðferðin, eins og sakir standa. En hitt var af sumum talið, að frv. væri ekki nógu róttækt, að sjávarútvegurinn þyrfti meiri aðstoð en felst í þessu frv.

Út af fyrir sig er vel hægt á það að fallast, að þetta frv er engin fullnaðarlausn á því vandamáli, sem nú er við að etja, og hér er gengið eins skammt í aðstoðinni og talið er hægt. En engu að síður stendur það eftir, að eftir þær kauphækkanir, sem urðu nú í desember, er óhjákvæmilegt að veita sjávarútveginum aðstoð, þó að hitt sé matsatriði, hversu langt eigi í henni að fara, og eins hvort þessi aðferð, sem hér er upp á stungið, stoði til einhverrar frambúðar, þó að hún sé óhjákvæmileg eins og sakir standa, svo sem ég áðan gat um.

Segja má, að ákvæðin í 1. gr., í síðustu mgr. 2. gr. og 3. gr. séu borin fram sem bein afleiðing kauphækkananna, sem urðu í des. Skv. 1. gr. er lagt til, að hraðfrystihúsunum verði á árinu 1964 veitt aðstoð úr ríkissjóði með 43 millj. kr., er verja skuli til framleiðniaukningar og annarra endurbóta í framleiðslu freðfisks, og skal úthluta fénu nánar skv. fyrirmælum sjútvmrh. fyrir milligöngu stofnlánadeildar sjávarútvegsins í samráði við Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands.

Eins og kunnugt er, gengu samningar saman í des. fyrst eftir það, að ríkisstj. hafði heitið að beita sér fyrir því, að hraðfrystihúsin fengju uppbætt með einum eða öðrum hætti þau útgjöld, er þau yrðu fyrir vegna 15% kauphækkunarinnar, og hefur verið talið og er ekki vefengt, að sú fjárhæð muni nema kringum 62 millj. kr. Það er ætlazt til þess, að þau fái 43 millj. með þeim hætti, sem í 1. gr. er ákveðinn. Það hefur raunar verið gagnrýnt af sumum og þó lítið í hv. Nd., að þessi fjárgreiðsla skuli bundin því skilorði, að henni skuli varið til framleiðniaukningar og annarra endurbóta í framleiðslu freðfisks, en þar sem það verður að teljast eðlilegur þáttur heilbrigðs rekstrar, að stöðugar endurbætur eigi sér stað, þá verður það ekki talið ósanngjarnt, úr því að aðstoð ríkisins þarf til að koma, að það hlutist til um, að fénu skuli varið á þann veg, sem í 1. gr. frv. segir.

Hinu hefur verið haldið fram, að þetta væri ófullnægjandi eða a.m.k. þyrfti að aðstoða fleiri greinar fiskframleiðslunnar með svipuðum hætti og þá einnig saltfiskframleiðslu og skreiðarframleiðslu. En eins og á stendur, þá er verð á þessum framleiðsluvörum mun hagstæðara, hækkanir hafa orðið meiri nú að undanförnu heldur en á hraðfrystum fiski, og hefur þess vegna ekki þótt fært að verða við óskum og till. í þá átt.

Hins vegar njóta bæði saltfiskur og skreið þeirra hlunninda, sem felast í 3. gr., þar sem útflutningsgjald er lækkað úr 6% ofan í 4.2% af þeirri framleiðslu, sem talin er í 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. Að vísu er ekki þar um verulegt fé að ræða, má segja, en þó nokkra tilhliðran, svo að þessar greinar framleiðslunnar fá einnig nokkurn létti frá því, sem verið hefur. Ætlazt er til, að af því fé, sem þarna vinnst fyrir framleiðsluna, fari 19 millj. til hraðfrystihúsanna, en hitt í þá framleiðslu, sem ég áðan gat um.

Enn fremur er síðasta mgr. 2. gr., sem segja má að sé bein afleiðing af kauphækkununum í des. Þar er ákveðið, að frá 1. jan. 1964 sé ríkisstj. heimilt að greiða sem svarar 6% viðbót við það ferskfiskverð, sem ákveðið var með úrskurði yfirnefndar verðlagsráðs sjávarútvegsins 20. jan. 1964. Þessu ákvæði var bætt inn í frv. í hv. Nd. Sá úrskurður, sem ákvað fiskverðið, var kveðinn upp, þegar samning þessa frv. var komin á lokastig, og þótti því ekki fært að kveða á um þetta í frv. sjálfu, en hv. fjhn. eða meiri hl. hennar hafði samráð við ríkisstj., og var unnið að málinu og þessi till. borin fram eftir sameiginlegri ákvörðun, ef svo má segja, ríkisstj. og meiri hl. hv. fjhn. Nd.

Þess hefur orðið vart, að nokkur ágreiningur er um lögmæti úrskurðarins, sem kvað á um fiskverðið. Eins og ég sagði í hv. Nd., er auðvitað sízt út á það að setja, sem Alþýðusambandsstjórnin vék að í samþykkt sinni, að lögmæti úrskurðarins verði borið undir dómstóla. Þeir eru sú stofnun í þjóðfélaginu, sem um slíkt á endanlegt úrskurðarvald, og aðrir geta ekki sagt með vissu um skilning laganna. Ég efast hins vegar ekki um sjálfur, að úrskurðurinn var fyllilega lögmætur og kveðinn upp með þeim eina hætti, sem fylgja verður, ef tryggja á, að lögmæt niðurstaða slíks gerðardóms fáist. Sú aðferð, sem fylgt var, er hin sama, sem viðurkennd er í okkar dómskaparétti og engum hefur komið til hugar að bera brigður á. Að mínu viti er því gagnrýni á lögmæti úrskurðarins gersamlega ástæðulaus og byggð á fullkomnum misskilningi, svo að þar stendur mín skoðun gegn skoðun annarra, og eina ráðið til þess að fá endanlega úr því skorið er að sjálfsögðu að bera þetta mál undir dómstóla, ef einhver telur ástæðu til þess.

Hitt er svo allt annað mál, hvort menn telja, að efni úrskurðarins sé sanngjarnt. Því hefur verið fleygt, að oddamaðurinn hafi fylgt þar fyrirmælum ríkisstj. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að lýsa það með öllu rangt. Að sjálfsögðu kom ríkisstj. ekki til hugar að gefa nein slík fyrirmæli né oddamanninum að leita fyrirmælanna og ekki einu sinni leiðbeiningar eða álits ríkisstj. um, hvert fiskverðið skyldi vera. Hann kveður það upp, dómkvaddur maður, eftir sinni eigin beztu samvizku, eftir að hafa aflað sér allra þeirra gagna, sem hann hefur talið sig þurfa á að halda.

Þá er einnig á það að líta, að eftir ákvæðum gildandi laga ber að miða fiskverðið við útflutningsverð vörunnar. Þessi gerðardómur, sem á að ákveða fiskverðið, á að byggja sinn úrskurð á allt öðrum forsendum heldur en t.d. nefndin, sem ákveður landbúnaðarverð. Þar er byggt á því, að bændur hafi sambærilegar tekjur við aðra landsmenn, tilteknar stéttir, sem upp eru taldar. Af hækkandi tekjum þeirra og hækkandi kostnaði við framleiðslu landbúnaðarvara leiðir það, að bændur eiga rétt á hækkandi verðlagi til sín. Um þetta eru ákvæði laganna varðandi ákvörðun fiskverðs gersamlega ólík. Þar er fyrst og fremst byggt á útflutningsverðinu. Það er leiðbeiningin, sem gefin er, og gagnrýnendur þessa úrskurðar oddamannsins hafa ekki sýnt fram á og ekki, að því er ég hef heyrt, einu sinni leitazt við að sýna fram á, að oddamaðurinn hafi í ákvörðun sinni misfarið með eða mismetið útflutningsverðið eða áhrif þess á fiskverðið nú. Þvert á móti hygg ég, að hann hafi með því að ákveða fiskverðið óbreytt frá því, sem var í fyrra, teygt sig eins langt og unnt er útgerðarmönnum og sjómönnum til hags, vegna þess að eftir gildandi lögum hlýtur aukinn tilkostnaður, hvort sem hann er af innlendum rótum eða erlendum rótum, að koma útgerðarmönnum og sjómönnum til kostnaðar.

Það var rækilega bent á það í umr. hér fyrir áramótin, a.m.k. af mér og ég hygg raunar fleirum, að hækkandi kaupgjald í landi hlyti eftir gildandi lögum að verða til þess, að fiskverðið til sjómanna lækkaði. Ég varpaði aftur á móti fram þeirri spurningu, hvort menn hefðu trú á því, að slík lækkun á fiskverði væri framkvæmanleg, þegar tilkostnaður ykist og aðrar stéttir fengju kauphækkanir. Ég minnist þess ekki, að þessari spurningu fengist þá svarað, en ég rek þetta nú, vegna þess að oddamaðurinn hefur orðið fyrir ómaklegu aðkasti fyrir sinn úrskurð og til þess að gera það alveg ljóst, að í þeirri till., sem samþ. var í Nd. um hækkun á fiskverði, felst síður en svo nokkur ómerking eða vanmat á úrskurði oddamannsins. Það er einungis byggt á þeirri staðreynd, sem fyrir höndum er, að úr því að fiskverðið gat ekki samkvæmt gildandi lögum hækkað, þrátt fyrir aukinn tilkostnað og þrátt fyrir hækkun á kaupi annarra stétta, þá er óumflýjanlegt, að mati ég hygg allra, eftir því sem fram kom í Nd., að gera nú ráðstafanir til, að fiskverðið hækki einnig. Það er sjálfstæð ákvörðun, sem byggir á þeirri staðreynd, sem nú liggur fyrir, en í því felst engan veginn, að þar með sé sagt, að úrskurður oddamannsins sé rangur, því að það er fjarri lagi að mínu viti.

Um það má svo deila, hvort sú greiðsla, sem hér er ráðgerð, sé fullnægjandi. Það var borin fram till. um verulega meiri uppbótargreiðslur í hv. Nd. Hún náði ekki fram að ganga, en mér er nær að ætla, að miðað við allar aðstæður og miðað við þá hjálp, sem hraðfrystihúsunum er veitt, þá sé með svipuðum hætti og sízt óríflegar orðið við þeirri nauðsyn að bæta að nokkru hag útgerðarmanna og sjómanna eins og orðið var við nauðsyn hraðfrystihúsanna.

Um hin ákvæðin í 2. gr. er það að segja, að togurunum hefur verið veitt aðstoð á undanförnum árum, á árinu 1962 einnig, með beinu framlagi úr ríkissjóði, að vísu ekki eins háu og þessu. Á árinu 1962 var skipuð sérstök n. til þess að kanna hag togaranna og gera till. um ráðstafanir þeim til aðstoðar. Skv. þeirri skýrslu, sem ekki verður vefengd og ég hef ekki heldur heyrt gagnrýni á í einstökum atriðum varðandi þessa hlið málsins, þá er það lágmarkstillaga þeirrar n., að miðað við árið 1963 verði togurunum veitt þessi 51 millj. kr. aðstoð. Um ástæðurnar til þessa þarf ekki að fjölyrða. Þær eru öllum augljósar. Togararnir voru sviptir e.t.v. sínum beztu miðum hér við landið með útfærslu fiskveiðilögsögunnar og hafa síðan lengst af mjög átt í vök að verjast, gekk þó skaplega á árunum 1958 og 1959, meðan þeir gátu fiskað á uppgripakarfamiðum út af Nýfundnalandi. Þau mið entust því miður skammt, og önnur hafa ekki fundizt í þeirra stað, og verður að segja, að togaraútgerðin hefur mjög átt í vök að verjast síðan, enda hefur afli farið minnkandi, einnig utan fiskveiðimarkanna, hér við land nú hin síðustu missiri. Þessu til viðbótar kemur, að talið er, að vinnubrögð um borð í togurunum séu óhagkvæm og að sumu leyti úrelt og valdi það útgerðinni verulegum kostnaði. Þessu þarf að reyna að breyta. En langæskilegast er og vonandi, að svo verði, að sú breyting fáist með frjálsu samkomulagi, þannig að bæði útgerðarmenn og sjómenn geti við unað og skipt þeim fjármunum, sem sparast við breytta vinnutilhögun, sín á milli, þannig að báðir hafi gagn af.

Loks er í 3. mgr. 2. gr. gerð till. um það að greiða úr ríkissjóði til fiskileitar í þágu togara allt að 4 millj, kr. umfram þá fjárhæð, sem kann að verða greidd í þessu skyni skv. heimild í fjárl. Fiskileit hefur orðið síldarútveginum hér að ómetanlegu gagn. Hún hefur einnig verið reynd fyrir togarana, en þar ekki enn þá valdið neinum þvílíkum umskiptum eins og hún varð fyrir síldarútveginn. E.t.v. er þetta að nokkru því að kenna, að menn hafa ekki treyst sér til að verja nógu miklu fé í þessu skyni, og er leitazt við að bæta úr því með þeirri auknu fjárveitingu, sem í þessu ákvæði frv. felst.

Það skal skýrt tekið fram, að þau útgjöld, sem leiðir af þremur fyrstu mgr. 2. gr., eiga ekki rætur sínar að rekja til verðhækkana í des., en að öðru leyti má segja, að útgjöld frv. standi í beinu sambandi við þá lausn verkfallanna, sem þá fékkst, og enn fremur leiðir það af þeirri lausn, að hækka verður framlag til alþýðutrygginganna um 27 millj. kr., eins og ráðgert er í sérstöku frv., sem um það hefur verið flutt í hv. Nd., og enn fremur hefur þótt rétt að hætta við lækkun á niðurgreiðslum, sem menn voru að velta fyrir sér, hvort unnt væri að hætta við.

Allt gerir þetta það að verkum, að afla þarf fjár umfram það, sem ríkissjóður hefur þegar yfir að ráða, og skv. frv. upphaflega var ráðgert, að fjárþörfin yrði í kringum 210 millj. kr. Eftir að framlögin til hækkunar fiskverðs bætast við, koma þar rúmar 50 millj. hér um bil, svo að þá verða þetta nokkuð yfir 260 millj. kr., sem afla þarf fjár til að greiða, og eru ákvæði 5. gr. þess efnis að hækka söluskattinn til að tryggja það, að ríkissjóður fái staðið við þessar skuldbindingar. Þetta ákvæði frv. hefur sætt verulegri gagnrýni. Að mínu viti er sú gagnrýni þó ekki sanngjörn né fær staðizt. Alþingi hefur þegar samþ. fjárl. fyrir árið 1964 og að sjálfsögðu áætlað þau eftir því, sem þá þótti eðlilegt og sanngjarnt, og mun það margra manna mál, að þar sé teflt á nokkuð tæpt vað um tekjuöflun, þó að vonandi fái þar allt staðizt, áður en yfir lýkur. Enda er það víst, að á slíkum þenslutímum sem nú eru hér á landi væri það hið mesta óráð að tefla hag ríkissjóðs í hættu og láta hann verða fyrir greiðsluhalla eða tefla mjög í tvísýnu um slíkt. Það væri ekki aðeins hættulegt fyrir fjármál ríkissjóðsins sjálfs, heldur skv. allra skynbærra manna skoðun mjög til þess að auka á verðbólgu, á þá þenslu, sem allir eru a.m.k. öðru hverju sammála um að forðast beri. Enda sjáum við þess dæmi, að í öðrum löndum hefur, þegar svipað hefur staðið á og hér, beinlínis verið lagðir á sérstakir skattar til þess að draga fé úr umferð til að vinna á móti þenslu og verðbólgu og féð lagt til hliðar. Það er engan veginn ætlunin að gera slíkt að þessu sinni af hálfu ríkisstj., en hún telur óverjandi annað en að afla fjár til þeirra útgjalda, sem hún telur óhjákvæmilegt að taka á ríkissjóð.

Þessu máli er það óskylt, þó að nokkur og allríflegur greiðsluafgangur hafi orðið á árinu 1962 og verði sennilega einnig, þó nokkru minni, á árinu 1963. Tekjuafgangurinn 1962 hefur að mestu verið lagður í jöfnunarsjóð lögum skv., og vonandi verður unnt að gera slíkt einnig að nokkru fyrir árið 1963. Ef þetta fé væri nú þegar tekið og því eytt, mundi það verka verðbólguaukandi, verka til þess að auka á þenslu, magna þau vandræði, sem við erum að reyna að berjast gegn með þessu frv. og öðrum hliðstæðum ráðstöfunum. Enda er það, eins og hæstv. fjmrh. glögglega sýndi fram á í Nd., ólíkt skynsamlegra að leggja til hliðar fé á þeim tímum, þegar yfirfljótanleg atvinna er, til þess síðan að geta gripið til þess fjár, ef til hins verra horfir um atvinnu, og geta þá ráðizt í framkvæmdir til að forðast hið mesta böl, sem atvinnuleysið er.

Það hefur einnig glögglega komið fram, að hv. Alþ. hefur í öðru sambandi viðurkennt nauðsyn á nýrri tekjuöflun til nýrra ráðstafana. Um það bil sem fjárl. voru samþ., voru einnig samþ. ný vegalög. Þar með var lagður á nýr skattur til þess til frambúðar að geta aukið og hraðað vegaframkvæmdum í landinu. Það verður ekki skilið samþykki þingsins á þeim viðbótarskatti öðruvísi en svo, að þm. hafi um þær framkvæmdir, er þeir sjálfir höfðu verulegan áhuga fyrir, verið reiðubúnir að leggja á nýja skatta til að tryggja fé í því skyni.

Þá hefur stjórninni einnig verið brugðið um það, að hún væri að koma aftan að verkalýðnum með því að gera nú tillögur um að hækka söluskattinn og að slík hækkun hlyti að leiða til frekari kauphækkana síðar. Af þessu tilefni er rétt, að það sé enn rifjað upp, sem raunar öllum er um kunnugt, að í sambandi við verkfallið var því margyfirlýst bæði hér á Alþ. og við rétta aðila af hálfu ríkisstj., að ef verkfallinu lyki svo, að ríkissjóður yrði að hlaupa undir bagga að einhverju leyti með atvinnuvegum, taka á sig aukin útgjöld, þá yrði það ekki gert nema með hækkun á tekjum ríkissjóðs, og var söluskattur þar beinlínis talfærður, eins og einnig nú nýlega hefur verið rifjað upp af andstæðingum stjórnarinnar, svo að slíkt getur engum komið á óvart. Mér er einnig nær að halda, að þegar kauphækkunin var ákveðin svo mikil sem raun ber vitni, þá hafi verið haft í huga það, sem allir vissu og urðu að gera sér grein fyrir, að ýmsar hækkanir hlaut að leiða af kauphækkuninni og m.a. hækkun á söluskatti, ef ríkið þyrfti að skerast í málið með þeim hætti, sem ég áður drap á.

Menn greinir að sjálfsögðu á um, hverjar séu orsakir þess vanda, sem við okkur blasir nú. Það er hluti af þeim almennu stjórnmálaumr., sem háðar eru daglega í blöðum og á mannfundum og hafa farið fram hvað eftir annað hér á hv. Alþ. í vetur, og skal ég því ekki þreyta menn á því að fara út í þá sálma, en um það eru þó allir sammála, að of mikil þensla sé nú í framkvæmdum hér og hún eigi verulegan þátt í vandanum. Til þess að fá við hana ráðið, læknað meinsemdina, er því höfuðnauðsyn, að dregið verði úr þenslunni, komið í veg fyrir vöxt hennar og reynt að koma á meira jafnvægi en á s.l. ári ríkti. Til þess að ríkið eigi hægara með að beita sér fyrir aðgerðum í þá átt, eru ákvæðin í 6. gr. frv. Það er engan veginn sýnt né öruggt, að þeim ákvæðum þurfi að beita. Þar kemur margt til álita. En vissulega á ríkið hægara með að beita sér gagnvart öðrum um að dregið sé úr framkvæmdum, sem allar, hverjar með sínum hætti, eru nauðsynlegar, þó að nauðsynin sé að vísu misjöfn, ef ríkið af sinni hálfu vill einnig nokkuð fram leggja og ekki einungis krefjast af öðrum. Því hefur verið haldið fram, að þetta ákvæði, heimild til að draga úr eða fresta framkvæmdum, skerti rétt þingsins, bryti á móti réttu þingræði og annað slíkt, en þetta fær suðvitað ekki staðizt. Slíkar heimildir hafa verið í lögum áður og engum umskiptum um þingræði eða úrslitavald Alþingis ráðið, svo að þar er með öllu að ástæðulausu verið að mála Grýlu á vegg.

Ég hef þá gert grein fyrir meginatriðum þessa frv. og tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um það að svo stöddu, en leyfi mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn. Mér er það ljóst, að þessi hv. d. hefur ekki ýkjamikinn tíma til meðferðar málsins, en um meðferðina hafa átt sér stað viðræður á milli flokkanna, svo að ég vonast til þess, að um sjálfa meðferðina verði samkomulag, og því fremur sem mér er kunnugt um, að hv. fjhn. hefur a.m.k, að nokkru haft samvinnu við hv. fjhn. Nd. um meðferð málsins, og ætti það að auðvelda hraða afgreiðslu málsins í þessari hv. deild.