11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í D-deild Alþingistíðinda. (3370)

183. mál, stöðvun á fólksflótta úr Vestfjarðakjördæmi

Fyrirspyrjandi (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Við hv. 1. þm. Vestf. höfum leyft okkur að flytja fsp. til hæstv. ríkisstj. á þskj. 343. Hún er í tveimur liðum og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Er lokið áætlun þeirri og tillögugerð til stöðvunar á fólksflótta úr Vestfjarðakjördæmi, sem Alþingi með þál. 19. apríl 1963 skoraði á ríkisstj. að fela Framkvæmdabanka Íslands í samráði við stjórn atvinnubótasjóðs og hlutaðeigandi sýslunefndir og bæjarstjórnir að gera fyrir árslok 1963?

2. Á hvern hátt hefur verið haft samráð við sýslunefndir og bæjarstjórn á Vestfjörðum um hina fyrirhuguðu áætlunar- og tillögugerð?“

Á Alþingi 19. apríl 1963 var samþ. svo hljóðandi till. til þál., með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að fela Framkvæmdabanka Íslands að semja 5 ára framkvæmdaáætlun í samráði við stjórn atvinnubótasjóðs og hlutaðeigandi sýslunefndir og bæjarstjórn til stöðvunar fólksflóttanum úr Vestfjarðakjördæmi. Einkum skal miða áætlunina við það, að framkvæmdirnar verði liður í uppbyggingu þeirra staða, sem fólksfækkunin gerir illkleift að halda í byggð, þótt öll skilyrði séu þar til góðra lífskjara, ef búið væri að þeim á borð við aðra staði. Skal áætluninni lokið fyrir lok þessa árs og hún þá lögð fyrir Alþingi ásamt till. um fjáröflun.“

Nú er liðinn nokkur tími frá því, að framkvæmdaáætlun og till. um fjáröflun átti að vera lokið samkv. þeirri þáltill., sem ég las hér. Okkur .flm. þessarar fsp. er hins vegar ókunnugt um, hvort fyrrnefnd ályktun hefur verið framkvæmd eða ekki, og okkur er einnig ókunnugt um, með hvaða hætti Framkvæmdabankinn kann að hafa haft samráð við sýslunefndir og bæjarstjórn á Vestfjörðum um petta mál. Þess vegna er um þetta spurt hér.

Fólksfækkun hefur orðið ískyggilega mikil á Vestfjörðum á síðari árum. Á s.l. 53 árum, eða frá 1910, hefur fólkinu fækkað þar úr 13386 íbúum í 10583, eða um tæplega 21%. En á 30 árum á þessum tímabili, þ.e. frá 1910—1940, var fækkunin þó ekki nema rúmlega 3%. Hins vegar hefur fólksfækkunin orðið hér um bil 18% frá 1940 til 1963, eða á 23 árum. Á sama tíma sem fólkinu fækkar á Vestfjörðum, eins og ég hef hér sagt, um 21%, fjölgar fólkinu í landinu í heild um 119%. Ef fólksfjölgun hefði orðið á Vestfjörðum eins og varð í landinu í heild, byggju þar nú um 29300 manns, en það eru þar ekki nema um 10600, eins og ég sagði áðan. Að sjálfsögðu er fólksfækkunin mest í sveitum, og í 7 sveitarfélögum voru t.d. fyrir 53 árum 2250 íbúar, en í þessum sömu sveitarfélögum eru nú 329. 85% af þessu fólki er farið burt. Áhrifin af þessum gífurlega fólksflótta ættu öllum að vera augljós, og er ekki þörf á eða tækifæri til að ræða þá hlið málsins nú. En sé hv. Alþ. alvara með að stöðva þá skriðu fólksflóttans, sem um getur í þáltill. frá síðasta þingi og eykur hraðann með hverju missiri sem líður, má engin töf verða á ráðstöfunum til úrbóta, ef nokkur árangur á að nást. En byggðarlög þessa lands eru þjóðinni dýrmætari en svo, að Alþ. megi horfa upp á það, að þau leggist í auðn, án þess að það hafist nokkuð að.