11.03.1964
Sameinað þing: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í D-deild Alþingistíðinda. (3374)

183. mál, stöðvun á fólksflótta úr Vestfjarðakjördæmi

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það stendur nú að vísu öðrum nær en mér að ræða um málefni Vestfjarða sérstaklega en þó fæ ég ekki orða bundizt í sambandi við þetta mál, eftir að skýrsla hefur verið gefin um framkvæmd þál. um 5 ára framkvæmdaáætlun til stöðvunar á fólksflótta úr Vestfjarðakjördæmi. Ég tók nokkurn þátt í umræðum um þetta mál í fyrra, þegar það var lagt fyrir, og átti sömuleiðis sæti í nefnd þeirri, sem fjallaði um málið á síðasta þingi, og það er eiginlega nokkuð í sambandi við það, að mér þykir nú ástæða til þess að taka til máls stuttlega.

Ég hafði orð á því, þegar þessi till. var lögð hér fyrir af tveimur þáv. þm. Vestfjarða, Gísla Jónssyni og Kjartani J. Jóhannssyni, að ég ætla, að mér hefði eiginlega þótt fara betur á því, að flutt væri fram till. til þál. um að gera slíka áætlun til stöðvunar á fólksflótta almennt fyrir þá landshluta, þar sem þessi fólksflótti á sér stað eða hefur átt sér stað. Samt lét ég það koma fram strax við fyrstu umr. þessa máls, að þessa till. mundi ég styðja eigi að síður og það yrði að viðurkenna, að þótt fólksflóttinn væri víða eða um það að ræða, að landshlutar héldu ekki sinni eðlilegu fólksfjölgun, þá hefðu samt Vestfirðir orðið harðast úti, og það er ómótmælanlegt. Einn af hv. þm. Vestf., hv. 3. þm. Vestf., nefndi áðan tölur í þessu sambandi. Og allshn. Sþ. mælti einróma með samþykkt till. um sérstaka áætlun fyrir Vestfirði, með þeirri breyt., sem gerð var, að haft skyldi samráð við sýslunefndir og bæjarstjórn á Vestfjörðum. Og ég get ekki látið vera að harma það, að framkvæmdum skuli ekki hafa verið hraðað í þessu máli meira en gert hefur verið og í samræmi við það, sem Alþ. samþ. einróma, því að Alþ. samþ. að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að áætlun yrði lokið „fyrir lok þessa árs“, þ.e.a.s. ársins 1963. Nú má segja, að þar hafi verið nokkuð stuttur frestur settur og að slíkt sé ekki venjulegt, ef til vill, að svona tímatakmark sé í þál., en til þess voru góðar og gildar ástæður, að þessi tímatakmörk voru sett, því að þetta, að ráða bót á fólksflóttanum af Vestfjörðum og annars staðar, þar sem svipað stendur á, er svo aðkallandi mál, að aðgerðir í þeim efnum mega ekki bíða. Og hættan í þessum efnum verður stöðugt meiri og meiri. Þess er að gæta, að þegar t.d. eitthvert sveitarfélag er komið á eitthvert visst stig, brestur viðnámið allt í einu, þess eru dæmi. Það kannske leggst í eyði eitt og eitt býli á ári. Svo þegar komið er að vissu marki, þegar sveitarfélagið er orðið svo lítið og fámennt, að menn eru þess ekki umkomnir að inna af hendi hin félagslegu verkefni, þá brestur viðnámið. Sveitin tæmist. Þetta hefur þegar skeð í tveimur hreppum á Vestfjörðum, sem eru orðnir auðir af mönnum.

Ég vil segja það og taka undir það með hv. 5. þm. Vestf., að mér þykja það ekki eðlileg vinnubrögð, sem við hafa verið höfð, og mér finnst þau minna á skriffinnsku. Þetta eru skriffinnskuvinnubrögð. Það er náttúrlega eðlilegt að skrifa Framkvæmdabankanum, og það er ekkert við því að segja, að hann leiti til Efnahagsstofnunarinnar. En að viðhafa þessi vinnubrögð, að skrifa út til Parísar og svo þaðan aftur til Noregs, þau eru nokkuð hláleg, og svo er sýslunefndunum og bæjarstjórn skrifað, að nú sé loksins von á Norðmanni á næsta ári, að því er virðist nýlega. Annars vildi ég spyrja um það, hvenær sýslunefndum og bæjarstjórn á Vestfjörðum hafi verið skrifað. (Forseti: Ræðutíminn er búinn.) Ég skal vera mjög stuttorður hér eftir, en vænti, að ég megi bæta aðeins fáum orðum við, eins og síðasti ræðumaður fékk að gera.

Það út af fyrir sig er ágætt að fá upplýsingar hjá Distrikternes utbygningsfond í Noregi. Sú stofnun fjallar einmitt um slík mál. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því út af fyrir sig, að menn hafa haft auga fyrir því, að það þurfti að gera. En það er óþarfi að vera að bíða eftir því, að Norðmaður komi hingað heim. Það getur einhver farið héðan til Noregs til þess að kynna sér meðferð þessara mála þar. Það mundi taka miklu skemmri tíma. Ég hefði líka talið eðlilegt, að unnið hefði verið að þessu máli þannig á byrjunarstigi, að kvaddir hefðu verið til menn með staðarþekkingu beinlínis í nefnd eða til samvinnu við Efnahagsstofnunina til þess að fjalla um þetta mál, menn með staðarþekkingu, menn þúsettir á Vestfjörðum.

Nú má segja, að það sé kannske ekki aðalatriðið að vera að sakast um það, sem orðið er í þessu efni, en ég vildi mjög eindregið skora á hæstv. ríkisstj. að láta nú hendur standa fram úr ermum í þessu máli og framkvæma þessa áætlun með þeim hraða, sem ályktunin sjálf ber vott um að vakað hefur fyrir Alþ. í fyrra, þegar hún var samþykkt.