01.04.1964
Sameinað þing: 57. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í D-deild Alþingistíðinda. (3402)

192. mál, Ljósmæðraskóli Íslands

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Meðan Kristján Thorlacius deildarstjóri átti hér sæti á hv. Alþingi sem varamaður hv. 5. þm. Reykv., lagði hann fram ásamt mér fsp. í tveimur liðum til hæstv. heilbrmrh. um Ljósmæðraskóla Íslands og endurskoðun ljósmæðralaga. Síðan þessi fsp. var fram lögð, hefur verið lagt hér fram á hv. Alþingi frv. til l. um Ljósmæðraskóla Íslands, svo að sjálfsögðu kemur sú fsp. því ekki til umr. Hinn liður þessarar fsp. er sá, hvað líður endurskoðun ljósmæðralaganna. Er ætlun hæstv. ríkisstj. að flytja frv. til nýrra ljósmæðralaga og þá hvenær? Eins og kunnugt er, eru núgildandi lög um ljósmæður frá 1933 og eru þau orðin í alla staði úrelt, baeði að launakjörum og skipulagi. Afleiðingin af þessu hefur orðið sú, að erfitt er að fá ljósmæður til starfa og mörg sveitarfélög landsins, jafnvel þau stærri, hafa orðið að greiða sérstaklega úr sveitarsjóðum til þess að halda ljósmæðrum í störfum eða fá þangað aðrar nýjar. Óhjákvæmilegt er því að athuga og endurskoða þessi lög, og hef ég von um, að verið sé að vinna að þeirri endurskoðun, en þessi fsp. er fram borin til þess að vita, hvað því máli líður.