01.04.1964
Sameinað þing: 57. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í D-deild Alþingistíðinda. (3403)

192. mál, Ljósmæðraskóli Íslands

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram, fjallar fyrri fsp. um breyt. á fyrirkomulagi ljósmæðranámsins, en sama dag og hún var leyfð, eða 19. marz, var lagt fram stjfrv. til laga um Ljósmæðraskóla Íslands, og ég geri ráð fyrir, að það frv. komi á dagskrá Nd. á morgun og því eðlilegt, eins og hv. fyrirspyrjandi sagði, að frekar sé ekki á þessu stigi um það mál fjallað.

Önnur fsp. var um það, hvað liði endurskoðun ljósmæðralaganna og hvort ríkisstj. hygðist flytja frv. til nýrra ljósmæðralaga, og ef svo væri, hvenær. Um það vil ég leyfa mér að segja þetta:

Þann 14. júní s.1. ritaði Ljósmæðrafélag Íslands heilbrmrn. svofellt bréf: „Ljósmæðrafélag Íslands fer þess á leit við rn., að það vinsamlegast skipi nefnd til þess að taka til endurskoðunar lög um laun ljósmæðra, er starfa í héruðum úti á landi, þar sem þær hafa lengi búið við óviðunandi kjör. Ljósmæðrafélagið óskar eftir að eiga fulltrúa í n.

Með bréfi, dags. 20. júní s.1., sendi rn. fyrrnefnt bréf til umsagnar landlæknis, sem svaraði með bréfi, dags. 17. júlí s.1., þannig:

„Þar sem ákvæði ljósmæðralaganna um laun ljósmæðra utan kaupstaða munu nú vera orðin 15 ára gömul, sbr. lög nr. 23 1948, um breyt. á l. nr. 23 1947, um breyt. á ljósmæðralögum, nr. 17 frá 1933, tel ég ekki óeðlilegt, að slíkrar endurskoðunar sé óskað, og mæli með því, að nefnd verði skipuð í því skyni.“

Þar eð rn. taldi, að e.t.v. væri rétt, að fleiri atriði ljósmæðralaga en launaákvæðin ein yrðu tekin til endurskoðunar, var í samráði við landlækni ritað svo hljóðandi bréf til allra sýslumanna, dags. 11. okt. s.1.:

„Hér með skal þess óskað að tilmælum landlæknis, að þér, herra sýslumaður, leitið upplýsinga um eftirfarandi atriði: 1) Hve mörg ljósmæðraumdæmi eru í sýslunni og hve margar ljósmæður? 2) Hver voru laun ljósmæðranna, hverrar einstakrar, s.l. ár? 3) Teljið þér æskilegt eða fært að fækka ljósmæðraumdæmum frá því. sem nú er?“

Svör við bréfi þessu hafa nú borizt rn., og það síðasta barst 7. febr. s.l. Þess skal getið, að fulltrúi Ljósmæðrafélagsins, Freyja Antonsdóttir, hefur fylgzt með undirbúningi þessa máls. Það, sem næst liggur fyrir, er að vinna úr þeim gögnum, sem borizt hafa. Þess er ekki að vænta, svo langt sem liðið er á Þing, að frv. til nýrra ljósmæðralaga verði lagt fyrir Alþingi fyrr en næsta haust. En ég vil geta þess, að gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að bæta úr launakjörum ljósmæðranna til bráðabirgða, meðan ný löggjöf hefur ekki verið sett.