08.04.1964
Sameinað þing: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í D-deild Alþingistíðinda. (3413)

809. mál, ríkisábyrgðir

Helgi Bergs:

Herra forseti. Hv. 1. flm. þessarar fsp. hefur nú vikið af þingi um sinn, og það fellur því í minn hlut sem meðflm. að reifa þessa fsp. Ég þarf ekki að gera það með mörgum orðum.

Skýrslur um greiðslur vegna ríkisábyrgða fylgdu ríkisreikningum, áður en ríkisábyrgðasjóður var stofnaður. En þeir komu gjarnan það seint fram, að fyrirspurnir af þessu tagi voru iðulega lagðar fram á vormánuðunum um greiðslur næsta árs á undan, og fyrirspurn af þessu tagi er því ekki nýjung hér á hv. Alþingi. Síðan ríkisábyrgðasjóður var stofnaður, fylgja ekki reikningar hans ríkisreikningnum, og er því sérstakt tilefni til þess nú að gera fsp. af þessu tagi. Jafnvel þó að gera mætti ráð fyrir. að sá háttur yrði á ný tekinn upp, að skýrslur um greiðslur vegna ríkisábyrgða fylgdu ríkisreikningum, er hér um að ræða svo þýðingarmikinn þátt í fjármálum þjóðarinnar, að ekki er

að ástæðulausu, þó að þm. óski upplýsinga um það, fyrr en ríkisreikningarnir koma fram. Við höfum því leyft okkur að bera fram þessa fsp., sem er á þskj. 387, 3. tölul., og er svo hljóðandi:

„Hve mikið hefur ríkisábyrgðasjóður greitt vegna ríkisábyrgða á árinu 1963, fyrir hverja og hve mikið fyrir hvern?“

Ég leyfi mér að vænta, að hæstv. fjmrh. sjái sér fært að svara þessari fsp. okkar.