08.04.1964
Sameinað þing: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í D-deild Alþingistíðinda. (3414)

809. mál, ríkisábyrgðir

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í sambandi við afgreiðslu ríkisreiknings fyrir árið 1962 skýrði ég frá því, að birt yrði með ríkisreikningi ársins 1963 skýrsla um greiðslur ríkisábyrgðasjóðs fyrir árin 1962 og 1963 vegna ábyrgðarlána. Ríkisreikningurinn fyrir 1963 er að sjálfsögðu ekki fullbúinn enn. Hins vegar hef ég látið gera útdrátt úr reikningum ríkisábyrgðasjóðs fyrir bæði árin 1962 og 1963. útdrátturinn felur í sér svör við fsp. hv. þm.

Það tæki langan tíma að lesa upp allar þær tölur og nöfn fyrir tvö ár, enda verður viðskiptum hvers aðila við sjóðinn oft ekki lýst á viðhlítandi hátt, nema lesnar séu fleiri tölur en ein fyrir hvort árið: Ég hef því talið heppilegri vinnubrögð að afhenda fjvn. og fyrirspyrjendum eintök af hinum áðurnefnda, sundurliðaða útdrætti, sem er um 13 blaðsíður vélritaðar, og vænti ég þess, að það verði talið fullnægjandi.