08.04.1964
Sameinað þing: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í D-deild Alþingistíðinda. (3423)

810. mál, greiðslur vegna ríkisábyrgða

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Tveir hv. þm. hafa talið, að með svörum við þessum fsp. væri um nýstárlega aðferð að ræða, og má það vissulega til sanns vegar færa. En það stafar einfaldlega af því, að fsp. eru nokkuð nýstárlegar. Þær eru nýstárlegar að því leyti, að það er spurt um svo sundurliðuð atriði, að ég ætla, að ekki hafi áður verið bornar fram fsp., þar sem farið er fram á svör jafnlöng, ýtarleg og sundurliðuð eins og hér er gert. Hér er ekki aðeins spurt um það, hversu miklar greiðslur hafi fallið á ríkisábyrgðasjóð vegna ábyrgða á tveimur árum, heldur óskað sundurliðaðra upplýsinga, hvað hafi verið greitt fyrir hvern einstakan aðila. Nú er að sjálfsögðu rétt að veita þessar upplýsingar til fulls, og það hefur verið gert með þeim skrám, sem fyrirspyrjendum hafa verið afhentar.

En ég vil aðeins vekja athygli á því í sambandi við fsp. almennt, að þær geta verið þess eðlis, að komið sé út fyrir þann tilgang, sem vakti fyrir löggjafanum, þegar ákvæðin voru sett í þingsköp um fsp. Við gætum tekið sem dæmi, að í fsp. væri beðið um sundurliðaða skýrslu um allar ríkisábyrgðir, þ.e. allar ábyrgðir, sem ríkið væri í. Nú er slík skýrsla jafnan birt í ríkisreikningi, og vegna þess að hann getur ekki orðið til fyrr en í sumar, þá vildu þm. fyrr fá upplýsingar um það, en þessi skýrsla tekur hvorki meira né minna en 40 bls. í ríkisreikningi og ekki með ýkjastóru letri. Ég held sannast sagna, að engum ráðh. né heldur hv. þm. dytti í hug að ætlast til þess, að slíkri fsp. ætti að svara með því að lesa upp slíka skýrslu, sem tæki nokkrar klukkustundir að lesa yfir hv. þm., enda gersamlega ástæðulaust, þar sem hinum sama tilgangi má ná með því að afhenda skriflega sundurliðaða skýrslu.

Ég er ekki með þessum orðum að halda því fram, að hv. fyrirspyrjendur hafi farið út fyrir nein mörk, sem þingsköp ætlast til að fylgt sé, en ég bendi aðeins á það vegna þess, að hér er um nokkurt nýmæli að ræða, að fyrirspurnir geta verið þess eðlis, að ekki er unnt og ekki er til þess ætlazt, að lesið sé upp orði til orðs og tala fyrir tölu allt það, sem spurt er um. Þessu vil ég beina til þeirra hv. þingmanna, sem töldu, að hér væri um nýstárlega aðferð að ræða.

Þá var spurt um það, hvort aðrir þm. en fyrirspyrjendur gætu fengið þessa skýrslu, og er því til að svara að að sjálfsögðu getur hver einasti hv. þm. fengið þessa skýrslu, sem þess óskar. En ég vil enn fremur bæta því við, að allt kemur þetta prentað í ríkisreikningi, þegar hann liggur fyrir. í rauninni hefði það getað komið til mála að svara þessari fsp. á þá leið, að þessar upplýsingar kæmu allar í ríkisreikningi á sínum tíma. Ég taldi hins vegar enga ástæðu til að skorast undan því að veita hv. fyrirspyrjendum nú þegar þær upplýsingar, sem unnt var, og því var þessi háttur á hafður.

Hv. síðasti ræðumaður taldi á þessu svari þann annmarka, að það kæmi ekki í þingtíðindin. En því er til að svara, að þessar upplýsingar, sem ég hef gefið hér til fyrirspyrjenda, og miklu ýtarlegri koma prentaðar í ríkisreikningnum, og ætla ég, að það geri sama gagn og þó að það væri prentað í þingtíðindunum.

Hv. síðasti ræðumaður, hv. 3. þm. Reykv., taldi það ótækt að veita ríkisábyrgðir þeim aðilum, sem lent hefðu í vanskilum og ekki greitt. Þetta er að sjálfsögðu rétt athugasemd. Og hann spurðist fyrir um það, hvort þessu væri fylgt. Í því sambandi vil ég aðeins benda á það, að þetta er eitt af þeim atriðum, sem voru lögfest í lögunum um ríkisábyrgðir 1961, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, í þeim lögum, sem eru nr. 37 frá 1961, 3. gr.:

„Ekki má ríkissjóður takast á hendur ábyrgð fyrir aðila, sem eru í vanskilum með ríkisábyrgðarlán eða skulda ábyrgðargreiðslur, er ríkissjóður hefur innt af hendi, nema um slíkar greiðslur hafi verið samið.“

M.ö.o.: ef aðili, sem lent hefur í vanskilum með ríkisábyrgðarlán, sækir um ríkisábyrgð að nýju, verður hann annaðhvort að greiða vanskilin upp að fullu eða ná samningum við ríkisábyrgðasjóð um skil á þeim.

Þessu til viðbótar er svo ákvæði í sömu gr. um, að ríkissjóður má ekki ganga í ábyrgð, nema sett sé trygging, sem fjmrh. metur gilda.