08.04.1964
Sameinað þing: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í D-deild Alþingistíðinda. (3424)

810. mál, greiðslur vegna ríkisábyrgða

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Hér hefur verið gerð að umræðuefni sú aðferð hæstv. fjmrh. að svara fsp. skriflega í staðinn fyrir að svara henni munnlega.

Í ræðu minni áðan fann ég ekki að því út af fyrir sig, að fsp. hefði verið svarað skriflega. Ég ræddi það efni ekki. Ég gat aðeins um, að þetta væri óvenjuleg aðferð, sem rétt er. Ég lagði þá engan dóm á það, hvort ég teldi þessa aðferð eftir atvikum eðlilega eða óeðlilega. En ég vakti athygli á því, að fsp. væri svarað skriflega á þann hátt, að svarið væri aðeins sent fyrirspyrjendum og einni þn. Ég vakti athygli á þessu vegna þess, að þetta fannst mér óeðlilegt. Þegar fsp. er svarað skriflega, þá á að svara henni skriflega með svari, sem sent er öllum hv. þm., og það er ekkert einkamál þeirra, sem spyrja hér á hinu háa Alþingi, sem á fram að fara í sambandi við slíka fsp. Hæstv. ráðh. gat þess, að þm. gætu að sjálfsögðu fengið þessar upplýsingar, sem hann hefði gefið fyrirspyrjendum og hv. fjvn. En ég spurði um það, hvort hann mundi ekki sjá sér fært að gera ráðstafanir til þess, að þm. fengju þessi svör, og ég vil endurtaka þá spurningu. Það er nokkuð annað, ef ráðh. gefur sjálfur þetta svar skriflega, af því að hann kýs að gera það þannig, en að einstakir þm. þurfi að ganga eftir því í ráðuneytinu.