08.04.1964
Sameinað þing: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í D-deild Alþingistíðinda. (3425)

810. mál, greiðslur vegna ríkisábyrgða

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir það að hafa afhent okkur fyrirspyrjendum þessa sundurliðuðu skýrslu, og út af fyrir sig skal ég ekki áfellast hæstv. ráðh. fyrir það, þó að hann læsi ekki þessa löngu skrá upp orði til orðs. Hins vegar, þegar um slík svör skrifleg er að ræða, þá vil ég taka undir það, að ég teldi mjög eðlilegan og sjálfsagðan hátt að afhenda í fyrsta lagi öllum hv. alþm. afrit af slíku skriflegu svari og í öðru lagi blöðum og útvarpi. Og þess er að vænta, að þessir aðilar fái afrit af þessari býsna fróðlegu skýrslu. Jafnframt hefði hæstv. ráðh. að sjálfsögðu getað, án þess að eyða í það miklum tíma, gefið nokkrar fróðlegar upplýsingar, svo sem um heildarupphæðir þessara ábyrgðargreiðslna og upphæðir á hinar einstöku greinar. En til þess aðeins að leggja á það áherzlu, að hér er um býsna stórt mál að ræða, þá ætla ég að nefna hér, hverjar hafa verið heildargreiðslur vegna ríkisábyrgða á árunum 1958-1963.

1958 námu greiðslur þessar 23.2 millj. kr., 1959 voru þær 28.9 millj., 1960 49.9 millj., 1961 68 millj., 1962 129 millj., 1963 68 millj.

Hér er sem sagt um býsna háar tölur að ræða, og bendir það til þess, að það var ekki að ófyrirsynju, að þessar fsp. voru fram bornar.