18.04.1964
Sameinað þing: 68. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í D-deild Alþingistíðinda. (3441)

214. mál, síldarleit

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hér hefur verið drepið á mál, sem vert er að gefa góðan gaum. Ég ætla mér ekki að bæta miklu við þær stuttu umr., sem hafa orðið út af fsp. hv. 5. þm. Reykn., en ég vil taka undir þá kröfu hv. þm., að síldarleitin verði efld og komið á töluvert traustari grundvöll.

Ég vil svo leyfa mér að nota þetta tækifæri til þess að minna á náskyld efni. Ég vil minna á, að á undanförnum sumrum hafa komið fram umkvartanir frá fjöldamörgum aðilum á Norðurlandi um það, að síldarleit þar sé ónóg, þegar líður á sumarið og athyglin beinist að síldarmiðunum austan við landið. Ég hef fulla ástæðu til að ætla, að þessar umkvartanir hafi haft við nokkur rök að styðjast, og ég vil nota þetta tækifæri til að minna á þetta mál, þar sem það hefur að sjálfsögðu alveg stórkostlega þýðingu fyrir síldarbæina á Norðurlandi.

Í öðru lagi ætlaði ég mér, þegar ég kvaddi mér hér hljóðs, að minnast á hið sama mál, sem hv. 1. þm. Austf. hefur þegar gert, þ.e.a.s. spurninguna um það, hvað af síldinni verður á haustin, og í þessu sambandi er þá rétt að minna sérstaklega á þær hugmyndir, sem hafa komið fram um það, að síldarleit fari einnig fram að vetrarlagi fyrir Norður- og Norðausturlandi. Ýmislegt hefur þótt benda til þess, að síld væri fyrir Norðausturlandi, e.t.v. nokkuð langt frá landi, ekki aðeins yfir sumartímann, heldur einnig að vetrinum. Ég hef að sjálfsögðu enga aðstöðu til að fullyrða um það, hvort hér er rétt með farið eða ekki, en það er ljóst, að nú er komin ný tækni til sögunnar. Síldin þarf ekki að vaða lengur, til þess að unnt sé að veiða hana. Bátarnir eru stærri og þola verri veður, og það er af, sem áður var, að ekki sé hægt að stunda síldveiðar fyrir Norðurlandi að vetrarlagi. Það má nærri geta, hvílík búbót Það væri fyrir síldarbæina á Norðurlandi, ef vetrarsíld fengist. Þarna hefur verið, eins og öllum er kunnugt, ákaflega erfitt atvinnuástand að vetrinum. Virðist mér því sjálfsagt, að lagt sé í nokkurn kostnað til Þess að rannsaka þetta mál til hlítar.