29.04.1964
Sameinað þing: 70. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í D-deild Alþingistíðinda. (3448)

911. mál, lánveitingar úr byggingarsjóði ríkisins

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Við hv. 10. landsk. þm. höfum lagt fram hér alveg samtímis fyrirspurnir til hæstv. félmrh. varðandi húsnæðismál. Fsp. okkar eru að efni til, sýnist mér, alveg samhljóða og fjalla um það, hvenær næst verði úthlutað úr byggingarsjóði, hversu há upphæð verður til úthlutunar og þá hvenær á árinu. Hæstv. félmrh. hefur nú svarað þessu, og skal ég ekki fara frekar út í það. En ástæðan til þess, að ég fór að hreyfa þessum fsp., er sá dráttur, sem orðinn er á úthlutun byggingarlána á þessu vori. Ég hygg, að það hafi yfirleitt verið venja undanfarin ár að úthluta byggingarlánum frá húsnæðismálastjórn ekki síðar en í marz eða apríl, en nú er komið fram í síðustu viku aprílmánaðar og úthlutun ekki hafin enn þá, og eins og hæstv. ráðh. upplýsti hér áðan, þá er allt í óvissu um það, hvenær úthlutun fer fram. Ég tel, að full ástæða sé til þess að finna að þessum vinnubrögðum. Þessi dráttur er óeðlilega mikill og kemur sér afar illa fyrir húsbyggjendur, eins og hv. fyrirspyrjandi greindi frá hér áðan, því að húsbyggjendur hafa yfirleitt lifað í voninni um að fá úrlausn nú fyrr á árinu en reyndin virðist ætla að verða, enda eiga húsbyggjendur kröfu á því að fá upplýst, hvers sé að vænta í sambandi við næstu úthlutun, bæði þá fjárupphæð, sem til skipta verður, og eins um það, hvenær úthlutað verði. Það svar hefur nú fengizt, en er svo óljóst, að hæstv. ráðh. segir, að það verði „innan skamms“, en hvenær það verður, er allt óvitað enn þá.

Samkv. upplýsingum, sem ég hef aflað mér nú nýlega, munu fyrirliggjandi umsóknir hjá húsnæðismálastjórn vera um 2800—3000 og fer vafalaust fjölgandi. Og miðað við það, þá hefur verið talið af fróðum mönnum, að lánsfjárþörfin nú sé ekki undir 280 millj, kr., bara til þess að bæta úr brýnustu þörfunum. Hér er því mikils átaks þörf í byggingarmálunum, og sú skylda hvílir á ríkisvaldinu að leysa hinn bráða vanda, sem mest er knýjandi. En hitt er ekki síður mikilvægt, að leiða hugann að framtíðarskipulagi húsnæðismálanna, og mundi ég segja, að það væri höfuðatriðið.

Ég ætla ekki að þessu sinni að fara út í húsnæðismálin eða ræða þau á mjög víðum grundvelli, en þó vil ég láta þess getíð, að húsnæðismálin eru með allra þýðingarmestu landsmálum, og skipan þeirra kann að hafa meiri áhrif á gang efnahagsmálanna en flest önnur einstök mál. Það hefur verið rík tilhneiging stjórnarvalda að láta vaða á súðum í sambandi við húsnæðismál. Þau hafa ekki verið tekin þeim tökum hér á landi sem víðast hvar annars staðar. Húsbyggingar hér hafa mótazt að verulegu leyti af verðbólgukapphlaupinu, gengisfellingarsiðferðinu. Þær hafa verið óskipulagsbundnar og oftast óhagkvæmar, og hér ber meira á óeðlilega stórum íbúðum og íburðarmiklum en í flestum öðrum löndum. Nýting húsrýmis er m.ö.o. stórum lakari hér en meðal sambærilegra menningarþjóða, eins og margsinnis hefur verið bent á af hálfu erlendra sérfræðinga, sem kynnt hafa sér húsnæðismálin hér á landi. Hitt vekur þó meiri athygli og jafnvel furðu, hversu lánastarfsemi til íbúðabygginga hér á landi er ófullkomin. Því er veitt athygli, að Íslendingar verja hlutfallslega af þjóðarframleiðslu sinni meira til íbúðabygginga en flestar aðrar þjóðir, en nýting þessa fjármagns til aukningar á íbúðafjöldanum er miklu lélegri en í öðrum löndum. Ástæðan er sú án efa, að þetta fjármagn fer að miklu leyti í súginn fyrir skipulagsleysi í byggingarháttum og gífurlegan fjármagnskostnað. Við eyðum fram yfir normalkostnað á nær öllum kostnaðarliðum og byggjum auk þess óhentugt húsnæði, sem ekki leysir húsnæðisvandann.

Að mínum dómi ber okkur Íslendingum að leysa húsnæðismál okkar eða koma frambúðarskipulagi á þau mái með eftirfarandi höfuðatriði í huga: í fyrsta lagi: Húsnæði er frumþörf sérhverrar fjölskyldu, og þjóðfélaginu ber að stuðla að því með opinberum ráðstöfunum, að þessari þörf sé fullnægt með jöfnuði og réttlæti. Þetta er það höfuðmarkmið, sem við verðum að hafa í huga, þegar kemur að lausn húsnæðisvandans. — En ég skal ekki syndga upp á náðina hjá hæstv. forseta og lýk máli mínu.