29.04.1964
Sameinað þing: 70. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í D-deild Alþingistíðinda. (3449)

911. mál, lánveitingar úr byggingarsjóði ríkisins

Fyrirspyrjandi (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svör hans. Hann minntist m.a. á það frv. til laga um ávöxtun fjár tryggingafélaga, sem útbýtt var hér áðan. Það er vissulega til mikilla bóta að fá með þeim væntanlegu l. um 20 millj. kr. árlega inn í lánskerfið til íbúðabygginga. Þó er það nú ekki svo, að það hafi ekki fengizt eitthvert fé frá þessum félögum áður, og þessar 20 millj. kr. eru þar af leiðandi ekki bein viðbót við þær upphæðir, sem til skiptanna koma. Enn meiri þörf virðist þó á því að afla fjár til kerfisins á þann hátt, að það verði óendurkræf framlög, svo að kerfið sé ekki bundið af þeim vöxtum, sem það verður að greiða þeim, sem féð láta af hendi.

Að öðru leyti verð ég að segja það, að svör hæstv. ráðh. voru því miður ekki uppörvandi fyrir húsbyggjendur í landinu, þar sem allar líkur eru á, að auk þess sem nú liggur fyrir, að seinna verður úthlutað á þessu ári en í fyrra, verði upphæðin stórum minni, og eftir því sem ráðh. sagði, fullkomin óvissa um, hvenær af úthlutun getur orðið. í fyrra var úthlutað úr byggingarsjóði ríkisins um 130 millj. kr., en síðan í febrúar 1963 hefur byggingarkostnaður hækkað um nálega 15%, svo að íbúð af miðlungsstærð hefur hækkað um um það bil 75 þús. kr. á þessu eina ári, þ.e.a.s. byggingarkostnaður. Söluverð hefur hækkað miklum mun meira, svo að þótt ekki væri nema vegna hækkunarinnar einnar er orðin brýn þörf á að hækka verulega einstök lán, sem nú eru miðuð við 150 þús. kr. á íbúð. Þessi 75 þús. kr. hækkun á s.l. ári er ekki nema hluti af þeirri hækkun, sem orðið hefur á byggingarkostnaði, síðan hámarksupphæð lána var miðuð við 150 þús. kr. En eigi að hækka einstök lán, þarf heildarupphæð sú, sem byggingarsjóður hefur til ráðstöfunar, að verða verulega hærri en í fyrra.

Það er ekki aðstaða til þess í fsp: tíma að rekja, hversu erfið er orðin aðstaða þeirra, sem nú eru að basla við að koma sér upp húsnæði, eða lýsa neyðarástandi, sem víða er að skapast hjá þeim, sem ekki eiga íbúðir og þurfa að keppa hver við annan eftir leiguíbúðum á uppsprengdu verði. Hámarkslán úr byggingarsjóði ríkisins, húsnæðismálasjóðslánin svokölluðu, eru nú 150 þús. kr. Eftir þeim bíða nú milli 2 og 3 þús. umsækjendur, sem ekkert vita um, hvernig umsóknum þeirra kann að reiða af. Hámarkslánin eru 150 þús. kr., en síðan núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum, hefur byggingarkostnaður 350 rúmmetra íbúðar, sem er heldur minna en meðalstærð, hækkað um nálega 270 þús. kr. Það þýðir, að hækkun byggingarkostnaðar á þessum árum er að verða tvöföld sú hámarksupphæð, sem heimilt er að veita einstökum umsækjendum úr byggingarsjóði. Hámarkslánið gerir því ekki öllu meira í dag en að duga fyrir helmingnum af hækkun byggingarkostnaðar örfá síðustu ár. Ekkert kemur upp í helminginn af hækkuninni og ekkert upp í þann byggingarkostnað, sem fyrir var og áður var lánað 100 þús. kr. til þess að greiða. Það, sem áður voru húsnæðismálasjóðslán, hefur því í rauninni verið afnumið með öllu og byggingarsjóður einungis látinn lána helminginn af þeirri hækkun á byggingarkostnaði, sem orðið hefur, síðan hæstv. núv. ríkisstj. tók við völdum. Hinn helminginn af hækkuninni og allan þann byggingarkostnað, sem fyrir var, verða húsbyggjendur því að kljást við án aðstoðar, því að yfirleitt á almenningur engan aðgang að lánastofnunum til íbúðalána.

Það er því naumast að undra, að húsbyggjendum þyki illa að sér búið í dag, þegar þeir hafa allt frá því í des. s.1., þegar síðasta úthlutun lána fór fram, mætt til viðtals hjá stjórnarmönnum í húsnæðismálastjórn án þess að vita enn, hvort þeir geti gert sér vonir um að fá á þessu sumri þótt ekki væri nema lítinn hluta þess fjár, sem byggingarsjóði er samkv. l. heimilt að lána þeim, til þess að greiða annan helminginn af þeirri hækkun á byggingarkostnaði, sem orðið hefur í tíð hæstv. ríkisstj.

Það er óhjákvæmilegt fyrir þá, sem ætla að reyna að þoka áfram húsbyggingum sínum og þurfa að tryggja sér ýmsa hluti, efni og vinnu, að fá að vita sem fyrst á árinu, á hverju þeir mega eiga von í lánamálum, svo að þeir geti tekið ákvarðanir í samræmi við það. Þess vegna þarf lánaúthlutun að geta farið fram miklu fyrr á árinu en verið hefur. Í fyrra var um 80—90 millj. kr. úthlutað í einu lagi, að því er mig minnir um mánaðamótin marz-apríl. Þá stóð til, að tveimur mánuðum siðar úthlutuðu húsbyggjendur eins og aðrir landsmenn atkvæðum sínum við þingkosningar, og má vera, að það hafi haft jákvæð áhrif á upphæðina. Nú er aprílmánuði að ljúka, ekkert sérstakt stendur til í því efni, að húsbyggjendur geti sýnt vald sitt á þessu sumri, enda bólar litið á úthlutun lána hjá byggingarsjóði og óvissan í því efni hefur valdið fjölmörgum húsbyggjendum stórvandræðum. Það hlýtur að vera krafa húsbyggjenda, að allt sé gert, sem unnt er, til þess að afla fjár til lána úr byggingarsjóði, en það er hverjum manni augljóst, að það kerfi, sem byggt hefur verið á til þessa, að byggingarsjóður hafi ekki yfir öðru fé að ráða til útlána en því, sem honum tekst að kría að láni annars staðar til framlána, getur ekki gengið lengur. Þess vegna verður að tryggja það, að húsnæðismálasjóður fái sem fyrst óendurkræf framlög, sem hann getur ráðið yfir, og þarf þá ekki að binda sig við þá háu vexti, sem nú er um að ræða.