06.05.1964
Sameinað þing: 73. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í D-deild Alþingistíðinda. (3457)

218. mál, stóreignaskattur

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Með l. nr. 44 3. júní 1957 var ákveðið, að á skyldi lagður sérstakur skattur á stóreignir. Í 9. gr. þeirra l. var svo fyrir mælt, að 2/3 hlutar skattsins skyldu renna til byggingarsjóðs ríkisins til íbúðarhúsalána, en 1/3 hluti skattsins átti að ganga til veðdeildar Búnaðarbankans. Þegar l, um þennan skatt voru til afgreiðslu í þinginu, var talið, að skatturinn mundi ekki nema lægri fjárhæð en um 80 millj. kr., en þó tekið fram, að erfitt væri að segja fyrir um, hve hár skatturinn mundi verða á lagður. Nokkru síðar kom fram í umr. á Alþingi, að skatturinn mundi sennilega verða um 135 millj. kr. Það voru meginatriði þessa sérstaka stóreignaskatts, að hann skyldi einvörðungu lagður á hreinar eignir umfram 1 millj. kr. og að skatturinn skyldi ganga til íbúðarlána almennings og til veðdeildar Búnaðarbankans.

Þegar skattur þessi var á lagður, voru ýmsir framámenn í Sjálfstfl. mjög andvígir þessari skattlagningarleið, og síðar kom í ljós, að þeir reyndu mjög til þess að fá skattinn ógiltan. Nú skipaðist málum þannig, nokkru eftir að skatturinn átti að koma til innheimtu, að þeir, sem mest höfðu verið á móti skattinum, fengu úrslitaáhrif um innheimtu skattsins. Að sjáifsögðu eiga ekki persónulegar skoðanir einstakra ráðh. eða hagsmunir einstakra flokka að ráða um framkvæmd laga, sem Alþingi hefur samþykkt. Lögin eiga að gilda og álagðir skattar að innheimtast. Nú efast ég nokkuð um, að stóreignaskattsl. frá 1957 hafi verið framkvæmd svo sem laganna bókstafur mælir fyrir um. Ég hef því leyft mér að leggja fyrir hæstv. fjmrh. svo hljóðandi spurningar:

1) Hve miklu nam álagður stóreignaskattur samkv. 1. nr. 44 3. júní 1957?

2) Hve mikið hefur verið innheimt af skattinum og hve mikið á árunum 1961, 1962 og 1963 hverju um sig?

3) Hve mikið af þessu fé hefur þegar verið afhent byggingarsjóði ríkisins vegna íbúðarhúsalána?

Ég vil vænta þess, að hæstv. fjmrh. sjái sér fært að svara þessum spurningum.