30.01.1964
Efri deild: 40. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Björn Jónsson:

Herra forseti. Í tilefni m.a. af þeim ummælum hæstv. forsrh. hér í gær, að þær ráðstafanir, sem nú væri lagt til að gera í efnahagsmálum okkar, væru sérstaklega að kenna verkföllunum í desember og þeim kauphækkunum, sem þar urðu, fór ég hér með nokkrar tölur, sem að mínu viti sönnuðu það, að verkamenn a.m.k. hafa borið mjög skarðan hlut frá borði á hinum svokölluðu viðreisnarárum. Og ég tók aðeins tölur frá þeim árum, þ.e.a.s. 1960, 1961 og 1962, sem nokkrar ábyggilegar tölulegar upplýsingar liggja fyrir um. Og ég gerði þetta af því sérstaka tilefni, að sú eina atvinnustétt manna, sem þarna getur átt hlut að, að um er kennt, að nú þurfi að leggja nýjar álögur á landsmenn, eru verkamennirnir, vegna þess að það eru fyrst og fremst þeir, sem vinna í fiskiðnaðinum, og það eru fyrst og fremst þeirra laun, sem hafa áhrif á vinnulaunaliðinn í frystihúsunum.

Ég hef sérstakar ástæður til, m.a. vegna fréttaflutnings af ræðu minni hér í gær og eins vegna þess, að hæstv. forsrh., sem að vísu alls ekki rengdi þær tölur, sem ég fór með, sagðist ekki hafa áttað sig á töluröðinni, og ætla ég þá, að aðrir hafi kannske enn síður gert það, eftir því sem ég þekki hæstv. ráðh., og eins þar sem ranglega hefur verið skýrt frá þessum tölum, þá gefur það mér tilefni til að rifja þær upp aftur. Enn eina ástæðu hafði ég fyrir því að rifja upp þessar tölur, og hún var sú, að því hefur verið sérstaklega haldið á lofti af talsmönnum núv. ríkisstj., að launþegar almennt ættu rétt á launabótum og þá að sjálfsögðu ekki bara í krónutölu, heldur raunverulegum launabótum í samræmi við auknar þjóðartekjur. Og þá stoðar auðvitað ekki sú aðferð, sem iðulega er beitt í umr. um þessi mál, að taka aðeins þjóðartekjurnar prósentvís, en krónuupphæðirnar hins vegar í laununum, en ekki raunverulegt verðgildi þeirra, þar sem þess vegna hlýtur að vera umdeilt, hvert er verðgildi launanna. Ef við tökum hið raunverulega verðgildi þjóðarteknanna annars vegar, þá verðum við að taka hið raunverulega verðgildi launanna hins vegar. Öll önnur viðmiðun hlýtur að lenda út í hreinni vitleysu.

Þetta hvort tveggja gefur mér tilefni, og ég skal ekki eyða löngum tíma hv. d., til þess að rifja upp þær tölur, sem ég nefndi í þessu sambandi og ég vil fagna að ekki eru rengdar, enda eru þær teknar upp úr þeim skýrslum, sem tiltækilegar eru um þessi efni. En það, sem ég sagði, var þetta, að í fyrsta lagi á árinu 1960 minnkuðu þjóðartekjurnar um 0.9%, en á sama tíma minnkuðu raunverulegar atvinnutekjur verkamanna í Reykjavík um 7%, og á sama tíma minnkaði kaupmáttur almenns verkamannakaups um 9%. í öðru lagi sagði ég, að árið eftir, 1961, hefðu hreinar þjóðartekjur á mann vaxið um 5.1%, en það ár hefðu atvinnutekjur verkamanna í Reykjavík enn minnkað um 10% og kaupmáttur tímakaups almennra verkamanna um 5.4%. Og í þriðja lagi, að á þriðja viðreisnarárinu, 1962, hefðu þjóðartekjurnar vaxið um 6.1% og það ár hefðu atvinnutekjurnar rétt nokkuð við og hækkað um rösklega 10%. Það var þetta, sem ég sagði, og niðurstöður mínar urðu þær, að ef við settum þetta upp í vísitölu og miðuðum við verðlag 1948, þá vantaði, miðað við það, að hagur verkamanna hefði batnað í þessi 3 ár miðað við þá formúlu, sem stjórnarvöldin vilja gjarnan halda á lofti, þ.e.a.s. vöxtur venjulegra tekna miðað við hreinar þjóðartekjur á mann, þá skorti nú 18 stig á, að atvinnutekjurnar stæðust eftir þessi 3 ár, og 25 stig á það, að kaupmáttur launanna stæðist þessa viðmiðun. Og ég sagði líka, að ef við miðuðum þetta við árið 1958 og síðan, þá hefðu þjóðartekjurnar vaxið um 10.2%, en atvinnútekjur verkamanna hér í höfuðstaðnum hefðu aðeins vaxið um 3.8% á þessu tímabili, og það væri að vísu svolítið bjartari mynd af hlutunum.

Ég vil sérstaklega fagna því, að hæstv. forsrh. er á sama máli og ég, kemst að svipaðri niðurstöðu um það, að hlutur verkamanna hafi verið fyrir borð borinn, og ég tel, að með þeim ummælum sínum hafi hann í raun og veru tekið aftur það, sem hann sagði hér í gær, að þær ráðstafanir, sem nú þyrfti að gera, væru sérstaklega vegna þess, að verkamenn hefðu hækkað laun sín núna í desembermánuði. Það munar sjálfsagt um minna en viðurkenningu hæstv. forsrh. á því, að nú þurfi að bæta kjör verkamanna alveg sérstaklega, vegna þess að þeir hafi orðið aftur úr. Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni yfir þessum ummælum. Ég tel, að þær tölur, sem hann fór með annars vegar, og þær tölur, sem ég fór með hins vegar, ég hef að vísu ekki rannsakað þær tölur, sem hann fór með, en ég tel, að þær þurfi ekki að rekast á, og ég gaf fulla skýringu á því í minni ræðu í gær, í hverju munurinn á okkar viðmiðun væri fólginn, og ætla ekki að endurtaka það.

Ég hefði haft nokkra ástæðu til að gera nokkrar aths. við framsöguræðu hv. form. fjhn., en ég ætla ekki að eyða tíma hv. d. í að lengja mál mitt. Það er allt of mikið. Þó get ég ekki stillt mig um það að nefna vafasama kenningu, sem hann fór með, eins og þá, að vextirnir í fiskiðnaðinum væru eitthvert smávægilegt atriði og það skipti í raun og veru ekki svo miklu fyrir fiskiðnaðinn, hverjir vextirnir væru. En ég hef tölulegar sannanir fyrir því, að a.m.k. í ýmsum greinum fiskiðnaðarins eru vextirnir um 12% af vinnslukostnaðinum, á meðan vinnulaunin eru um 20%, þ.e.a.s. vextirnir eru a.m.k. í ýmsum tilvikum meira en hálf vinnulaunin. T. d. nefni ég vinnslu þorskflaka, sem er einhver stærsta framleiðsla okkar í fiskiðnaðinum. Þar er samkv. skýrslum hraðfrystihúsanna vaxtakostnaðurinn af rekstrarlánunum 6.7% af vinnslukostnaðinum og vextir af höfuðstól 5.4, eða 12.1%, en vinnulaunin eru samkv. sömu skýrslum rétt um 20%. Menn sjá auðvitað af þessu, að það eru fleiri liðir í kostnaðinum hreyfanlegir en vinnulaunin, og það er auðvelt að bæta hag þessa atvinnurekstrar mjög mikið með því að breyta vöxtunum.

Annars fannst mér, — og ég ætla að ljúka máli mínu með þeirri aths., — að hv. frsm. fjhn. hafi í raun og veru beðið sitt skipbrot sem fræðimaður í þessari ræðu og ekki þurfi raunverulega að svara mörgu af því, sem hann fór hér með, öðru en því, sem ég nú ætla að svara. En það var, þegar hann fór að gera aths. við það, sem ég hafði sagt um skattamálin í Noregi og skattamálin á Íslandi og borið það saman, hvernig Norðmenn tækju langsamlega mestan hluta af sínum tekjum í ríkissjóð með beinum sköttum, en hvernig Íslendingar tækju aðeins um 1/10 með beinum tollum og sköttum. Hv. form. fjhn. rengdi þetta að vísu ekki, sem ég hafði um þetta sagt, en sagði á hinn bóginn, að það breytti öllu í þessum samanburði, að þegar kæmi til rekstrar sveitarfélaganna, væri þessu alveg öfugt farið, og hans orð urðu ekki skilin öðruvísi en svo, að í raun og veru, þegar allt kæmi til alls, tækju Norðmenn alveg eins mikið í óbeinum sköttum af almenningi og Íslendingar. Sannast að segja fór mér svo, að ég trúði hæstv. ræðumanni, meðan ég hlustaði á hann. En það vildi svo til, að ég hafði í tösku minni rit frá hagstofu Noregs, þar sem ég gat flett þessu upp, og mér virðist af þeim staðreyndum, sem ég þar komst eftir, að þessi fræði þessa hv. prófessors hafi verið orðin nokkuð gömul. Og ég vil sannast að segja vona það, að önnur þau fræði, sem hann kennir sínum nemendum, séu eitthvað nýrri af nálinni. En staðreyndin um þetta er sú, að Norðmenn tóku árið 1962 í beina skatta til þarfa sveitarfélaganna líklega töluvert mikið yfir 90% af tekjum sveitarfélaganna, eða samtals 3146 millj., í beinum sköttum á eignir og tekjur, en aðrir beinir skattar voru 31 millj. En óbeinir skattar til sveitarfélaganna voru þetta sama ár heilar 90 millj., og ég hef að vísu ekki reiknað það nákvæmlega, en mér sýnist, að af öllum sköttum, sem lagðir eru á vegna sveitarfélaganna, og þá eru að vísu ekki taldar með ca. 580 millj., sem bæjarfélögin fá frá ríkinu, þá séu beinu skattarnir um 96–97% af tekjum bæjarfélaganna. En svo fullyrðir hv. (Gripið fram í.) Þessir skattar, sem ég nefndi, eru skattar bæði á eignir og tekjur. (Gripið fram í.) Já, að sjálfsögðu, en það var einmitt það, sem ég var að benda á, að það þætti góð latína með frændum okkar Norðmönnum að nota skattakerfið að nokkru leyti til auðjöfnunar, en einbeita ekki öllu skattakerfinu að svokölluðum kauplækkunarsköttum, sem hefðu það eitt markmið að rýra launatekjur almennings, en lentu að engu leyti á eignum og gróða. Ég verð þess vegna að ljúka máli mínu með því að biðja hv. form. fjhn. að endurskoða þessi fræði sín og þá gjarnan sitthvað af öðrum þeim flæðum, sem hann hefur hér haldið fram.