30.01.1964
Efri deild: 40. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

119. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl.

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Þó að ýmislegt hafi komið fram í ræðum hv. stjórnarandstæðinga, sem hér hafa talað, sem full ástæða væri til að svara, þá ætla ég samt ekki að tefja tíma hv. d. sem neinu nemur. En út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, þar sem hann bar mjög brigður á þær upplýsingar, sem ég hafði gefið um skattamál Norðmanna, vildi ég upplýsa, að það, sem ég byggði á það, sem ég sagði um það mál, er skýrsla um norsk skattalög frá árinu 1960 eða 1961, ég man ekki, hvort heldur var. Þar eru upplýsingar um skattstiga, bæði til ríkisins, bæjar- og sveitarfélaga. Eins og kom fram í framsöguræðu minni og vitað er þeim, sem einhvern kunnugleika hafa á skattamálum í Noregi, eru skattstigarnir til ríkisins til mikilla muna hærri en hér, þeir komast upp í 50% eða þar yfir. Hins vegar var skv. þessari skýrslu aðeins um að ræða 14–18% hámark skattstiga til bæjar- og sveitarfélaganna. Að vísu er heimild til að leggja aukaskatt á hærri tekjur til bæjar- og sveitarfélaganna, en það mun ekki nema meira en 3–4%. Miðað við það ættu skattar til bæjar- og sveitarfélaganna ekki að geta farið upp yfir 24–21%, en skv. núgildandi skattalögum hér á landi er lögboðinn hámarksskattstigi til bæjar- og sveitarfélaganna 30%, og að því er mig minnir, þá er heimild til þess að hækka þetta upp í allt að 39%. Mér skilst það glöggt, að tekjuútsvörin eru til mikilla muna lægri í Noregi en hér, og það skapar möguleika á því fyrir Norðmenn að innheimta þá hærri tekjuskatta til ríkisins. Annars hugsa ég, að í sjálfu sér þurfi þær upplýsingar, sem ég gaf hér, og þær upplýsingar, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. kom með, ekki að stangast, því að hann talaði um, að skattar á eignir og útsvör næmu um 90%. Nú er ég ekki sérlega kunnugur skattamálum Noregs, það skal ég fullkomlega játa. Ég hafði ekki aðra heimild til að byggja á í þessu efni en þá, sem ég nefndi, og þar er ekki sérstaklega rætt um það, hve miklu hinar einstöku tegundir skatta nemi af heildartekjuöflun bæjar- og sveitarfélaga. En annars staðar í nágrannalöndum okkar, svo og í engilsaxnesku löndunum, eru fasteignaskattar miklu stærri tekjuliður fyrir bæjar- og sveitarfélögin heldur en er hér á landi, þannig að ég tel líklegast, að skýringin á þessu liggi í því, að Norðmenn hafi haft hærri fasteignaskatta en hér eru og þannig komi fram þessi 90%, sem hv. þm. nefndi. Hugsanleg er sú önnur skýring, að tekjuþörf bæjar- og sveitarfélaganna sé yfirleitt minni þar en hér, en það mundi engu breyta um það, að miklu meiri möguleikar eru þar á því að leggja á háa tekjuskatta til ríkisins heldur en hér á landi.

Ég hafði í rauninni ekki ætlað mér að svara öðru í ræðum hv. stjórnarandstæðinga. En úr því að ég er á annað borð staðinn upp, get ég ekki stillt mig um það í tilefni af því, að hv. sessunautur minn, hv. 6. þm. Sunnl., fór að rifja hér upp fornar væringar okkar á milli frá því í nóv. í vetur og las þar upp ummæli, sem ég hafði um framkvæmd innflutningshaftanna. Þessi ummæli stend ég nú að öllu leyti við, þó að það gefi alltaf annan svip af ummælum, sem höfð eru um hönd, ef þau eru slitin úr því samhengi, sem þau voru í, þegar þau eru lesin upp. Þessi ræða mín í vetur hefur ekki verið til einskis, ef hún hefur sannfært hann um, að það að fela slíkum nefndum framkvæmd, hvort sem er útflutnings- eða innflutningsleyfa, fjárfestingarleyfa eða hvað það nú er, sé ekki fært. En það er aðeins eitt atriði í þessu sambandi, sem ég vildi taka fram að gefnu tilefni til þess að forða mistúlkun á þessum ummælum mínum, að það var ekki hugmynd mín með þessu að deila í sjálfu sér á stjórnmálaflokkana. Auðvitað hafa þeir sína ágalla og verðskulda það allir meira eða minna, að störf þeirra séu gagnrýnd. En sú spilling, sem að jafnaði siglir í kjölfar innflutningshafta og slíkra ráðstafana, er að mínu áliti ekki flokkunum að kenna eða því, að fulltrúar þeirra sitji í þessum nefndum, þó að hitt sé vitað, að fulltrúar flokkanna reyna auðvitað að halda fram hagsmunum sinna manna og fyrirtækja, sem þeir bera fyrir brjósti, eins og þeir geta. Ég skal að vísu taka það fram, að ég hef aldrei átt sæti í slíkum nefndum, en haft góða aðstöðu til að fylgjast með störfum þeirra. (Gripið fram í.) Já, það er annað, það er allt annað.

Hún hefur sérstöku starfi að gegna, og það er annað að úthluta gæðum eða úthluta verðlagsákvæðum. En einmitt í gegnum það hafði ég um eitt skeið góða aðstöðu til þess að fylgjast með störfum þeirra nefnda og sat stundum fundi þeirra, þó að ég hefði ekki atkvæðisrétt. Nei, jafnvel þó að sú leið væri farin að skipa í þessa nefnd menn, sem ekki væru í neinum tengslum við stjórnmálaflokkana, og slíkt hefur stundum verið gert, þannig að hagsmunasamtök o.s.frv. hafa tilnefnt þar sína fulltrúa, og sú leið kæmi til greina að skipa í þetta menn, sem væru óháðir bæði hagsmunasamtökum og stjórnmálaflokkum, held ég, að það mundi engu breyta. Fulltrúar hagsmunasamtakanna mundu þá hlynna að sínum mönnum. Og jafnvel þó að um svokallaða ópólitíska menn væri að ræða, þá eiga allir sinn kunningjahóp, sína fjölskyldu o.s.frv., svo að ég álít, að það mundi ekki neinu breyta, hvort fulltrúar stjórnmálaflokkanna eiga hér hlut að máli eða einhverjir aðrir. Það er ekki þess vegna, að þessir menn vilji gera rangt eða framkvæma neitt það, sem til spillingar gæti talizt. En þegar á að úthluta einkabílum, þá er bara ekki nokkur mælikvarði til á það, eftir hvaða reglum eigi að fara, og því eðlilegt, að menn styðji frekar umsóknir þeirra, sem talað hafa við þá og gert grein fyrir nauðsyn þeirra til að fá þessi tæki, heldur en annarra, sem þeir þekkja ekkert til.