12.12.1963
Efri deild: 26. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

13. mál, lækningaleyfi

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Í 1. málsgr. 14. gr. laga frá 23. júní 1932, um lækningaleyfi o.fl., er ákvæði þess efnis, að í reglugerð megi ákveða dagsektir allt að 5 kr. fyrir hvern dag, er vanrækt er að senda fyrirskipaðar skýrslur, enda fylgi sektunum lögtaksréttur. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að breyta þessu ákvæði á þá leið, að í stað 5 kr., sem í sjálfu sér er löngu orðin úrelt upphæð, komi nýtt ákvæði, svofellt: „Má í reglugerð ákveða dagsektir og tiltaka sektarfjárhæð fyrir hvern dag, er vanrækt er að senda fyrirskipaðar skýrslur, enda fylgi sektunum lögtaksréttur.“ Þarna er sem sagt ákvæðið um 5 kr. fjárhæðina fellt niður, en í staðinn kveðið svo á, að um þetta skuli segja fyrir í reglugerð.

Þetta frv. er flutt að ósk landlæknis. Heilbr.- og félmn. hefur athugað það og leggur einróma til, að það verði samþykkt.