21.01.1964
Neðri deild: 41. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

109. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þegar frv. um hækkun á bótagreiðslum almannatrygginga lá hér fyrir hv. Alþingi fyrir þinghlé, var gert ráð fyrir því, að ef almenn laun í landinu hækkuðu meira en orðið var, mundi verða flutt frv. um frekari hækkun á bótagreiðslum almannatrygginganna í samræmi við þá hækkun, sem yrði á kaupi. Hækkunin á bótagreiðslunum, sem samþykkt var hér 6. des. s.l., gekk út á það að hækka allar bótagreiðslur nema fjölskyldubætur um 15%, sem var svipað eða það sama og almenn laun í landinu höfðu hækkað á árinu. Þau hækkuðu í janúarmánuði um 5% og í júnímánuði um 7½%, eða samtals með öðrum lítils háttar breytingum, sem urðu, um ca. 15%. Nú urðu í des. almennar hækkanir, sem yfirleitt munu hafa numið í kringum 15%, og er því hér lagt til, að sama hækkun verði látin gilda á bótagreiðslum almannatrygginganna og hækkunin, sem varð á hinum almennu launagreiðslum. Því var heitið, eins og ég sagði, að þessi breyting yrði flutt í samræmi við þær breytingar, sem yrðu á launagreiðslum almennings, og er það loforð uppfyllt með flutningi þessa frv.

Þetta kostar alls, þessi síðasta hækkun, um 74.4 millj. kr., eins og greint er frá á fskj., sem með frv. fylgir, þannig að ellilífeyririnn hækkar um 47.3 millj., örorkulífeyrir og örorkustyrkur um 12 millj., aðrar bætur um 13.5 millj. og tillag til varasjóðs um 1.5 millj., samtals 74.4 millj. kr. Og þessi útgjaldaaukning skiptist þannig á aðilana, að ríkissjóður kemur til með að greiða 26.8 millj., hinir tryggðu 23.8, sveitarsjóðirnir 13.4 og atvinnurekendurnir 10.4. Þá er lagt til í bráðabirgðaákvæðum frv., að þessi greiðsla komi ekki til framkvæmda fyrr en í júnílok og verði þá greidd í einu lagi hækkunin fyrir fyrstu sex mánuði ársins, og er það gert vegna þess, að tekjur, sem almannatryggingarnar þurfa að fá vegna þessarar hækkunar, verða tæpast innheimtar fyrir þann tíma.

Í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir, að hækkunin nái til fjölskyldubótanna, á sama hátt og það var ekki gert ráð fyrir því í frv., sem flutt var fyrir þinghléið, og kemur það til af því, að fjölskyldubæturnar eru á vissan hátt tengdar persónufrádrætti tekjuskattsins og útsvarsins jafnvel líka, og hefur þess vegna verið ákveðið að leggja ekki til, að þessar bætur yrðu hækkaðar, á meðan ekki yrði séð fyrir, hvernig fara muni með þessa persónufrádrætti skattalaganna. Í öðrum löndum, nágrannalöndum okkar, er hafður á þessu ýmiss konar háttur, t.d. er sums staðar sá háttur hafður á, að fjölskyldubætur eru greiddar með öllum börnum og þær þá ekki taldar fram til skatts, en persónufrádráttur fyrir börn er þá aftur á móti enginn leyfður í skattalögunum. Hjá okkur er þetta þannig, að til skatts má draga frá vissa upphæð fyrir hvert barn, en hins vegar eru fjölskyldubæturnar reiknaðar eins og aðrar skattskyldar tekjur. Hvernig úr þessu verður leyst, er ekki ákveðið enn, eða hvort nokkrar breytingar verða á þessu gerðar, en á meðan þær liggja ekki fyrir, hefur ekki verið talið rétt að leggja til hækkun á þessum bótagreiðslum að svo stöddu.

Ég sé, að það hefur verið flutt frv. í Ed., sem mjög fer í svipaða átt og þetta, af einum hv. þm. Alþb., og skoða ég það sem stuðning við afgreiðslu málsins á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir, og vona, að málið hljóti einnig samþykki annarra hv. þm.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.