03.02.1964
Neðri deild: 50. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

109. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur kynnt sér frv. til l. um hækkun á bátum almannatrygginga á þskj. 195 og leggur einróma til, að frv. verði samþykkt óbreytt.

Efni frv. er eingöngu það, að bætur almannatrygginga, aðrar en fjölskyldubætur, skuli hækka um 15% til samræmis við þær almennu kauphækkanir, sem urðu í des. s.l. Þessi 15% hækkun hefur í för með sér, eins og fram kemur á fskj. með frv., 74.4 millj. kr. útgjaldaaukningu fyrir almannatryggingakerfið. Þar af koma í hlut ríkissjóðs 26.8 millj. kr. Samkv. lögum, sem hv. Alþingi hefur nýlega afgreitt, hafa verið gerðar ráðstafanir til að standa undir þessari útgjaldaaukningu af hálfu ríkissjóðs.

Samkv. breytingu, sem gerð var á almannatryggingalögunum s.l. ár, átti árlegur ellilífeyrir einstaklinga að verða 18 240 kr. Eftir 15% hækkunina skömmu fyrir áramótin hækkaði þessi tala í 20 976 kr., og eftir þá hækkun, sem ráðgerð er í þessu frv., verður árlegur ellilífeyrir einstaklinga 24122 kr. Hækkunin frá því, sem ráðgert var í fyrra, er því tæpar 6 þús. kr., eða 5882 kr. Ellilífeyrir hjóna verður aftur á móti eftir þá hækkun, sem í þessu frv. felst, 43 420 kr. á ári.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, en legg til, herra forseti, að því verði vísað til 3. umr.