04.02.1964
Neðri deild: 51. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

109. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Í tilefni af því, sem hæstv. félmrh. sagði hér síðast, vil ég aðeins nefna honum þessar tölur:

Söluskattshækkunin, sem nýlega var samþ., mun nema um 300 millj. kr., ef lögð er til grundvallar sú áætlun um söluskattinn, sem er í fjárlögum þessa árs og margir telja of lága. Sem sagt, söluskattshækkunin er áætluð um 300 millj. kr. og verður sennilega meiri. Íbúatala landsins mun vera eitthvað í kringum 185 þús., og hæstv. félmrh. getur svo deilt þetta og fundið út, hver niðurstaðan yrði, en ég er hræddur um, að það komi út talsvert hærri tala en sú, sem hann var með hér áðan. Hins vegar hljóta menn að sjá, að þessi aðferð er rétt, vegna þess að þann skatt, sem hér er um að ræða, borga engir aðrir en fólkið í landinu. Og þó að það megi segja, að þessi hækkun komi ekki strax inn í framfærsluvísitöluna, það sé einhver minni upphæð, sem kemur inn í framfærsluvísitöluna, heldur leggist þetta til að byrja með á atvinnuvegina og annað þess háttar, þá getur hver og einn sagt sér það sjálfur, að sú byrði, sem er lögð á atvinnurekstur í landinu, en ekki beint á einstaklingana strax, kemur fyrr eða síðar niður á einstaklingunum og þeir verða að bera hana. Það tekur kannske nokkurn tíma, að þetta sé komið til fullra framkvæmda, en þannig verður það að lokum. Þess vegna er það algerlega rangt, sem hæstv. félmrh. var að tala um, að það komi ekki nema nokkur hluti af þessari upphæð fram á einstaklingunum í landinu. Fyrr eða síðar leggst þetta allt á þeirra bak. Það er nefnilega náttúra söluskattsins, það þýðir ekki að setja hann þannig upp, að hann komi þannig fyrst bara sem 2½% með hækkuninni á það, sem almenningur kaupir í dag. Hann margfaldast smátt og smátt í umferðinni, vegna þess að hann hefur lagzt á ýmsa kostnaðarliði, sem hækka síðar, og leiðir auk þess af sér fyrr eða síðar hækkanir á kaupgjaldi og öðru slíku, og það kemur svo aftur inn í framfærslukostnaðinn, svo að það verður ekki umflúið, að þessar 300 millj., sem hæstv. ríkisstjórn leggur nú á með nýjum sköttum, leggjast á allan almenning í landinu fyrr eða síðar með fullum þunga. Og hin rétta reikningsaðferð er þess vegna að deila íbúatölunni í þessa upphæð, ef menn vilja fá út, hvað raunverulega þessi skattur þýðir fyrir hvern einstakling í landinu.

Ég skal svo ekki reyna á þolinmæði hæstv. forseta með því að endurtaka í löngu máli þau atriði, sem hæstv. félmrh. kom fram með hér áðan, enda var ég í raun og veru búinn að svara því áður. En ég tel rétt að leiðrétta það hjá honum, að sú till., sem flutt var af hálfu okkar framsóknarmanna, bæði hér í Nd. og í Ed., um hækkun almannabótanna á haustþinginu, var að sjálfsögðu miðuð við það ástand, sem þá var, og það skýrt tekið fram af okkar hálfu, að það var eingöngu miðað við þær verð- og kauphækkanir, sem þá voru orðnar, en ekki við það, hvað kynni að gerast í þessum efnum í framtíðinni. Það var mjög greinilega tekið fram. Og ég held, að það hafi líka verið rangt hjá honum, svo að ég fari að leiðrétta það, sem hann sagði um till. hv. 5. þm. Vestf., ég held, að sú till. um hækkun almannabótanna, sem hann flutti hér, hafi ekki verið miðuð við þær kauphækkanir, sem kynnu að verða í framtíðinni, heldur væri þetta látið fylgja þeim hækkunum, sem væru orðnar hjá opinberum starfsmönnum, vegna þess að það hefði verið venjan að miða við hækkunina hjá þeim. Ég held, að það sé algert rangminni hjá hæstv. félmrh., að till. sú, sem flutt var hér af hálfu Alþb., væri miðuð við væntanlegar kauphækkanir, heldur við þær kauphækkanir, sem þá voru orðnar, og þetta sýnir það, að hæstv. félmrh. rangminnir um fleira en þá till., sem við framsóknarmenn fluttum um þetta atriði.

Ég hverf svo ekki frá því, og það skal vera það seinasta, sem ég segi að þessu sinni, að það sé rétt að miða við elliheimilið Grund, ef menn vilja gera sér grein fyrir þróun framfærslukostnaðarins í landinu á undanförnum árum. Ég hygg, að elliheimilið Grund sé sæmilega rekið og þar sé gætt hins fyllsta sparnaðar í öllum rekstri og þær hækkanir, sem hafa orðið á framfærslukostnaði eða dvalarkostnaði þar, gefi þess vegna nokkuð glögga mynd um þá almennu hækkun framfærslukostnaðarins í landinu á þessum tíma og þess vegna sé enn réttara að miða við þá niðurstöðu, sem er alveg áþreifanleg, heldur en við einhverjar áætlanir, eins og t.d. framfærsluvísitalan er, og því verður ekki á móti mælt, að hækkunin hjá Grund hefur orðið sú, sem ég hér benti á. Og ef miðað er við hana, þá verður niðurstaðan sú, eins og hægt er að sanna með öðrum tilfellum, að hagur bótaþeganna er lakari nú en hann var fyrir fáum árum, þrátt fyrir þær tölulegu hækkanir, sem hafa orðið á almannabótum.