10.02.1964
Efri deild: 45. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

109. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þegar frv. til l. um hækkun á bótum almannatrygginganna lá hér fyrir hv. Alþingi fyrir áramótin, var sú hækkun, sem það frv. gerði ráð fyrir, miðuð við, að hækkanirnar skyldu verða þær sömu og almennar launahækkanir höfðu þá orðið á árinu 1963 eða kringum 15%. Þess var getið í umr. um það mál þá, að ef frekari launahækkanir yrðu á árinu, eins og við mátti raunar búast, þar sem kjaradeilur stóðu þá yfir, mundi verða flutt annað frv. til hækkunar á bótagreiðslunum, sem jafngilti þeim hækkunum, sem almennt yrðu þá á launum.

Með flutningi þessa frv., sem hér liggur fyrir, er orðið við því loforði, sem þá var gefið, þannig að í þessu frv., sem hér liggur fyrir þessari hv. d. nú, er lagt til, að bæturnar verði hækkaðar um 15%, eða sömu hundraðshlutatölu og kaup hækkaði yfirleitt í des. s.l. Annað og meira felst ekki í þessu frv., svo að ég þarf ekki að hafa um það langa framsögu. Þess er getið í ákvæðum til bráðabirgða þó, að það er gert ráð fyrir, að þessar greiðslur komi fyrir sex fyrstu mánuði ársins 1964 til framkvæmda 1. júlí n. k., í einu lagi þá fyrir þessa mánuði, þar sem tekjurnar, sem afla þarf upp í þessar greiðslur, verða ekki komnar inn fyrr.

Þó er þess líka getið í þessu frv., að undanþegnar þessum hækkunum eru fjölskyldubæturnar, sem liggur í því, að enn er ekki gengið frá þeirri endurskoðun á tekjuskatts- og eignarskattslögunum og lögunum um útsvör, sem er verið að framkvæma, en fjölskyldubætur og persónufrádráttur í þessum lögum eru mjög hliðstæð fyrirbrigði, og er þess vegna tæplega rétt að afgreiða annað, án þess að hitt fylgi þá með. Kostnaðurinn við þessa hækkun nemur, eins og segir á fskj., sem frv. fylgir, alls 74.4 millj. og skiptist á þátttakendurna þannig, að ríkissjóður greiðir 26.8 millj., hinir tryggðu 23.8, sveitarsjóðirnir 13.4 og atvinnurekendur 10.4 Þetta er til viðbótar við það, sem hækkanirnar námu á s.l. ári, mjög veruleg hækkun, þó að ekki sé í heild óhætt að segja um miklu meira að ræða en að mæta þeirri dýrtíðaraukningu, sem orðið hefur á þessu tímabili, en þessi hækkun ætti að geta mætt henni og raunar vel það.

Hv. 9. þm. Reykv. hefur flutt frv. svipaðs efnis og þetta frv. er, og vænti ég þess vegna, að um það geti orðið samkomulag í þessari hv. d. að afgreiða þetta mál fljótlega og fyrirhafnarlítið. Það er að vísu sá munur á hans frv. og þessu, að þar eru fjölskyldubæturnar teknar með, en ég lýsti því, að þær eru ekki með í þessu frv. ríkisstj.

Ég vildi svo leyfa mér að leggja til, herra forseti, að frv. yrði að þessari umr. lokinni vísað til hv. heilbr.- og félmn.