17.02.1964
Efri deild: 48. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

109. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Með stjfrv. því, sem hér liggur fyrir, er lögð til hækkun á bótum almannatrygginga, öðrum en fjölskyldubótum, og samsvarar hækkunin þeim almennu launum, sem urðu í des. s.l. Þegar annað stjfrv. um 15% hækkun bóta, annarra en fjölskyldubóta, var lagt fram hér á hv. Alþ. í haust, stóðu yfir vinnudeilur, sem ekki var þá vitað, hvernig ljúka mundi, og var í athugasemdum við það frv. tekið fram, að ef almennar launahækkanir yrðu, þyrfti að endurskoða bótaupphæðir með hliðsjón af slíku. Er þetta stjfrv. því í beinu framhaldi af því, sem raunin varð í þeim efnum.

Áætluð útgjaldaaukning samkv. þessu frv. er 74.4 millj. kr., sem skiptist á aðila eftir reglum almannatryggingalaganna. Í hlut ríkissjóðs kemur þannig að greiða 26.8 millj. kr. Með lögum, sem nýlega hafa verið afgr. frá hv. Alþ., var söluskattur hækkaður og áætlað að verja hluta af þeirri tekjuaukningu, sem ríkissjóður fær samkv. þeim lögum, til þess að standa straum af útgjöldum ríkissjóðs vegna bótahækkana samkv. þessu frv. Nú er það vitað, að tekjur af hækkun söluskattsins innheimtast ekki fyrr en alllöngu eftir gildistöku laganna, og m.a. af þeirri ástæðu, svo og öðrum ástæðum, þá er í frv., í ákvæði til bráðabirgða, heimild til handa Tryggingastofnuninni að borga þessa 15% uppbót fyrir fyrri helming þessa árs með bátagreiðslum í júlímánuði n. k. Auk þess, að söluskattur mun fyrirsjáanlega ekki innheimtast fyrr en eftir alllangan tíma, þá verður Tryggingastofnunin til þess að sjá sér fyrir tekjuaukningu til að standast straum af útgjöldum samkv. frv. að fá hækkanir á framlögum annarra aðila, og heimild til slíks er einnig í bráðabirgðaákvæði frv.

Undanskildar þessari hækkun eru fjölskyldubæturnar, og um það atriði er vitnað til grg. með frv. því um hækkun á bótum almannatrygginga, sem varð að lögum 6. des. s.l., en þar segir, að ákvæði laga um persónufrádrátt séu í athugun hjá ríkisstj. og þyki rétt að hreyfa ekki að svo stöddu upphæð fjölskyldubóta, þar sem þetta tvennt, fjölskyldubætur og persónufrádráttur, geti haft lík áhrif við álagningu tekjuskatts og útsvars og því eðlilegt að hafa báða möguleika tiltæka í þessu sambandi og því ekki talið ráðlegt, eins og áður sagði, að hreyfa við upphæð fjölskyldubótanna að svo stöddu.

Heilbr.- og félmn. þessarar hv. deildar hefur haft frv. til athugunar og leggur til að það verði samþ. Ég vil taka það fram, að fyrir n. lá einnig frv. frá hv. 9. þm. Reykv. um hækkun á bótum almannatrygginga. Með því frv. er lagt til, að allar bætur hækki um 15%. Ég vil taka það fram, að af hálfu okkar þm. stjórnarflokkanna í heilbr.- og félmn., sem eru auk mín 9. landsk. þm. og 4, þm. Vestf., er litið svo á, að með því að mæla með samþykkt þess frv., sem hér liggur fyrir, sé um leið tekin afstaða til frv. hv. 9. þm. Reykv., enda ætla ég, að hann muni sjálfur hafa litið svo á, þar sem hann hefur flutt brtt. við þetta frv., sem hann að sjálfsögðu mun mæla fyrir.