18.02.1964
Efri deild: 49. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

109. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Daníel Ágústínusson:

Herra forseti. Það er góðra gjalda vert að flytja till. um að hækka fjölskyldubætur og raunar nauðsynlegt, eins og málum er nú háttað í okkar þjóðfélagi. En ég vildi benda á aðra leið, sem náskyld er þeirri till., sem hér liggur fyrir, leið, sem mundi koma að meira gagni en hækkun á fjölskyldubótunum, þó að ég telji hana alveg fullkomlega eðlilega og muni styðja hana. Það er sú leið að undanþiggja þær skatti og útsvari. Það mundi verða til þess, að notagildi fjölskyldubótanna mundi vaxa stórlega frá því, sem verið hefur að undanförnu. Eins og málum er nú háttað, mun það vera mjög algengt, það er það a.m.k. í Reykjavík og mörgum kaupstöðum, að 25% af fjölskyldubótunum eru teknar í útsvör til bæjarfélaga. Sums staðar kann það að vera meira en 25%, en sums staðar minna. Á ég þá við það, að sá, sem fær fjölskyldubætur, hafi 100 þús. kr. launatekjur, og þegar fjölskyldubæturnar bætast ofan á, þá verða tvímælalaust 25% þeirra teknar í útsvör til bæjarfélaga. Eins og skattalögunum er nú háttað, með 70 þús. kr. frádrátt fyrir hjón og 10 þús. kr. fyrir barn, þá fer nokkur hluti fjölskyldubótanna einnig í tekjuskatt, og gæti í mörgum tilfellum 25% þeirra farið í tekjuskattsviðauka, og þar með er búið að taka helminginn af fjölskyldubótunum til baka sem greiðslu til ríkis og bæja.

Nú er það raunar svo í lögum frá 16. apríl 1962, 33. gr., um tekjustofna sveitarfélaga, að þar er að vísu heimilt að undanþiggja bætur almannatrygginga við útsvarsálagningu að einhverju eða öllu leyti. Sveitarfélögin hafa framkvæmt þetta með ýmsum hætti. Sum hafa ekki tekið neitt tillit til þessa og lagt á allar fjölskyldubæturnar eins og um venjulegar tekjur væri að ræða. Önnur sveitarfélög hafa framkvæmt það þannig að undanþiggja fjölskyldubætur með 3. barni og fleirum. Og í þriðja lagi eru sveitarfélög, sem hafa undanþegið allar fjölskyldubætur útsvarsálagningu. Ég tel alveg sjálfsagt og eðlilegt, að fjölskyldubætur verði algerlega undanþegnar skatti og útsvari, og þá koma þær að verulegum notum, en nú getur, eins og áður er sagt, helmingur þeirra farið í skatta og útsvar.

Fjölskyldubótunum er ætlað að vega upp á móti sívaxandi framfærslukostnaði þeirra gjaldenda, sem marga hafa á framfæri sínu, og þessi framfærslukostnaður þyngist jafnt og þétt með hækkuðum neyzlusköttum, eins og t.d. söluskattinum, sem nýlega hefur verið hækkaður hér á hv. Alþ., og er hækkun sú þegar komin til framkvæmda. Slíkar ráðstafanir, slíkar hækkanir á hinum almennu neyzlusköttum, koma verulega illa við barnafjölskyldurnar og því verr sem þeir eru fleiri, sem gjaldandi hefur á framfæri sínu, og því meiri þörf er á því að auka og drýgja þær fjölskyldubætur, sem þegar eru greiddar.

Ég skal viðurkenna, að þetta á ekki heima í þessum lögum, en þetta er mál, sem þarf að taka til athugunar í sambandi við önnur lög, og verður ef til vill tækifæri til þess síðar hér í hv. Alþ. En ég vil benda á þetta sem náskylt atriði, sem gæti komið að verulegum notum og kannske beztum notum í sambandi við þær fjölskyldubætur, sem eru greiddar.