13.02.1964
Neðri deild: 56. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

152. mál, laun forseta Íslands

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti.

Ástæðan til þess, að ég óskaði eftir því, að þetta mál kæmi nú þegar fyrir, er sú, að ég fer í burtu nokkurn tíma, eins og kunnugt er, og kunni betur við að leggja málið fram og fylgja því eftir með nokkrum orðum. Þau þurfa ekki að vera mörg.

Þetta mál er svipað og hið fyrra mál, sem var hér til umr. á þeim fundi, sem var að ljúka, um þingfararkaup alþm., samkomulagsmál.

Hefur verið athugað og þykir sjálfsagt og raunar óhjákvæmilegt, að laun forseta Íslands séu færð til samræmis við þær launabreytingar, er orðið hafa í landinu, þ. á m. hjá opinberum starfsmönnum. En ég hygg, að hlutfallið á milli launa hinna æðri embættismanna og forseta sé eftir þessa lagasetningu, ef frv. verður samþykkt, forseta sízt hagstæðara en áður var og þess vegna hér um fullkomið sanngirnismál að ræða. Það er vitað mál, að slíku embætti sem embætti forseta Íslands hljóta að fylgja margs konar útgjöld, sem erfitt er að gera fullan reikning fyrir, og því mundi hér sízt of mikið í lagt, miðað við þann kostnað, sem þessu embætti óhjákvæmilega fylgir.

Ég vonast til þess, að málið verði samþykkt ágreiningslaust, og leyfi mér að leggja til, að það fari til 2. umr. og hv. fjhn. eins og fyrra málið.