28.11.1963
Neðri deild: 21. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Alþb. á þess ekki kost að fylgja þessu máli eftir, þegar það fær afgreiðslu í nefnd, og þess vegna teljum við þm. Alþb. rétt að láta afstöðu okkar til þess koma fram nú strax við 1. umr., og vil ég því segja nokkur orð um þetta frv.

Ég hef séð það í blöðum undanfarna daga, að þessa frv. hefur verið getið sem einhvers stórviðburðar. Það hafa verið hafðar um það stórar fyrirsagnir, að nú fengi gamla fólkið aðeins réttingu sinna mála, sem væri búið að bíða án þess að fá breytingu á sínum högum frá miðju ári, að hæst launuðu embættismenn ríkisins fengu sína laglegu launaréttingu, en svo hefur það verið sett upp á forsíðu blaða í dag í eins konar getraunaformi: Hvað fær gamla fólkið fyrir jólin? Og það er vitanlega ætlazt til þess, að fólk geti í þá eyðu, að það verði nú ekkert smáræði, sem gamla fólkið fái fyrir jólin, og það, sem þarna stendur á bak við, er svarið, svarið er þetta frv. Þar segir, að gamla fólkið eigi að fá, eins og hæstv. félmrh. sagði áðan, fyrir áramót, sennilega fyrir jólin, hækkun á ellilífeyri, sem nemi um 15%, og það er það, sem gamla fólkið á að fá fyrir jólin. Ég fyrir mitt leyti tel þetta ekki neinn sérstakan gleðilegan, jólaboðskap fyrir gamla fólkið.

Á skrifstofu Alþýðusambandsins hefur ekki verið spurt um annað meira, þó að það heyri ekki undir nein kjaramál þess fólks, sem starfar í verkalýðshreyfingunni, heldur en hvað ríkisstj. muni hyggjast fyrir gagnvart gamla fólkinu. Og ég verð að játa það, þó ég hafði aldrei látið mér detta í hug að það, sem hæstv. ríkisstj. ætlaði gamla fólkinu, yrði neðan við meðaltal þeirra launabóta, sem embættismenn ríkisins hafa fengið frá 1. júlí s.l. Ég hafði aldrei látið mér detta það í hug, að hæstv. ríkisstj. ætlaði hinum verst settu í þjóðfélaginu annan og verri hlut en starfsmannaliði ríkisins og ríkisstofnana. En þetta frv. staðfestir þá skoðun mína, að þetta er einn liður í stefnu hæstv. ríkisstj., að hinir verst settu í þjóðfélaginu skuli fá minnstar kjarabætur, hinir bezt settu því betri sem þeir hafa betri kjör fyrir. Þetta er þeirra jafnaðarstefna. Ég játa það, að ég varð ekki fyrir neinum vonbrigðum með þetta. Ég vissi, að þetta var stefna hæstv. ríkisstj., og ég hef ekki fengið neinar bendingar um það, að henni verði breytt að sinni, hvorki um þetta atriði né önnur.

Þetta frv. er við það sniðið, að verkafólk hafi fengið 5% kjarabót frá og með ársbyrjun og 7½% kjarabót frá miðju ári, og þetta skal nú verða jólagjöf gamla fólksins, þó ekki þannig, að það fái 5% frá ársbyrjun, heldur 15% frá miðju ári. Það kann að vera, að þetta sé alveg nákvæmlega útreiknað, að það sé hið sama, en það er a.m.k. víst, að þarna er gamla fólkinu ætlað að fá það, sem hinir verst settu í þjóðfélaginu hafa minnst fengið fram að þessu, og í þann flokk skal því skipað. Um það er ekkert að deila. Hins vegar er það alkunnugt, að hinir hæst launuðu í þjóðfélaginu hafa með hlutlausum dómi fengið sér tildæmda 80–90 og í einstökum tilfellum kannske 100% launahækkun, þeir í opinberri þjónustu, sem minnst hafa fengið, um 20% frá 1. júlí, verkafólk 5% í ársbyrjun og 7½% í júnímánuði, og nú er hinu gamla fólki ákveðið að fá 15% frá miðju ári, frá 1. júlí.

Ég tel, að frv. til l. um kjarabætur til handa gamla fólkinu komi vonum seinna. Ég hafði vonazt eftir, að það hefði komið með fyrstu þingmálum í byrjun þessa þings og að kjarabæturnar til gamla fólksins hefðu varla orðið neðan við meðaltal þess, sem fólkið í opinberri þjónustu hefur þegar fengið. Það verður helzta úrræði talsmanns ríkisstj., hæstv. félmrh., til þess að gera dálítið mikið úr þessari jólagjöf til gamla fólksins, að nefna milljónir, nefna, hvað samanlagt kosti að framkvæma þetta frv., — það kosti hvorki meira né minna en 90.8 millj., að þeir slysatryggðu fái þarna um 3.5 millj. kr., að þeir sjúkratryggðu fái 2.3 millj. kr. og þar af kosti það ríkissjóð 1 millj. kr. þetta síðast nefnda. En það er ekki hægt að nefna milljónir, nefna háar tölur, nefna neitt til þess að miklast af, nema með því að telja fram heildartölur hinna smáu íslenzku króna. En fyrir gamla manninn eða gömlu konuna er þetta 15% 1500 kr. eða eitthvað svoleiðis á mánuði, og þá eru tölurnar orðnar undrasmáar og kaupmátturinn enn þá minni.

Þm. Alþb. í hv. Ed. hafa borið fram frv. til breyt. á l. um almannatryggingar, gerðu það í upphafi þings. Það frv. er ekki mikið lesmál, það er aðeins 2 greinar. Fyrri gr. er um það, að allar bótafjárhæðir laganna skuli að viðbættri hækkun, sem nemur 40%, teljast grunnupphæðir og breytast í samræmi við vísitölu framfærslukostnaðar í okt. 1963. Við höfum áður oft og mörgum sinnum klifað á því, að það sé óforsvaranlegt að ákveða þessar lágu upphæðir bóta til gamla fólksins og annarra bótaþega samkv. almannatryggingalögum öðruvísi en að gera jafnframt ráðstafanir til, að þær lágu bótaupphæðir fylgi verðlagi, þannig að þær rýrni ekki að verðgildi, þessar lágu upphæðir, við vaxandi dýrtíð, og höfum því áður lagt til, að þessar bætur a.m.k. breyttust til hækkunar með hækkandi verðlagi, þ.e.a.s. með vísitöluálagi. En það hefur sífellt verið fellt, og þó þreifum við alltaf á því mánuð eftir mánuð — og frá ári til árs, að einmitt gamla fólkið verður hart úti, af því að það fær ekki hækkaðar sínar lágu upphæðir, mánaðarlegu greiðslur frá tryggingunum, í hlutfalli við vöxt dýrtíðar, en það ætti að takast út fyrir sviga, það ætti algerlega að takast eitt sér. Þó að menn fáist nú ekki til þess að bæta launakjör hinna lægst launuðu í landinu, sem þjóna framleiðsluatvinnuvegunum, með vísitöluálagi, ætti þó gamla fólkið að njóta þeirrar náðar og þess réttlætis. Nei, það hefur ekki fengizt. Þessi till. er enn frammi fyrir hv. Alþ., og hún verður vitanlega af Alþb. borin fram sem brtt. við þetta frv., því þó að menn hafi ekki fram að þessu viljað byrgja brunninn, þá má vera, að menn sjái það um síðir, að allt annað er óforsvaranlegt en verðtryggja þó hinar lægstu upphæðir til hinna verst settu í þjóðfélaginu með vísitölubótum.

Hin grein frv., sem þm. Alþb. í Ed. hafa borið fram, er þess efnis, að á tímabilinu 1. júlí til ársloka 1963 skuli allar bótafjárhæðir almannatrygginganna greiddar með viðbót, sem nemi 40%. Þessi grein er við það miðuð, að bótaþegum almannatrygginga verði tryggðar bótagreiðslur með þeirri viðbót, sem nálgast meðaltal þeirra launabóta, sem starfsmenn ríkisins og ríkisstofnana hafa fengið þegar með uppkveðnum dómi hlutlausra dómenda undir hæstv, ríkisstj. frá 1. júlí s.l. Og telji nokkur vera vafasamt, hvort rétt sé að innleiða vísitölugreiðslur vegna framtíðarinnar á bótagreiðslur almannatrygginga, hygg ég, að þeir verði þó færri, væntanlega engir, sem neiti því, að það sé réttmætt, úr því að það hefur verið talið nauðsyn til hinna betur settu í þjóðfélaginu að ákveða þeim launabót 20–90%, og meðaltalið er talið, eins og kunnugt er, 40–45%, þá verði hinum verst settu í þjóðfélaginu einmitt tryggð sú kjarabót, 40–45%. Það er sjálfgefið að við munum, þm. Alþb. hér í þessari hv. þd., bera fram till. til breyt. á þessu frv. um það, að greiðslur til gamla fólksins fyrir jólin, jólagjöfin til þeirra verði ekki 15%, heldur 40%, og vil ég vænta þess, að hv. n., sem fær þetta mál nú til meðferðar, hafi það í huga, að hér er von á till. um þetta í sambandi við þetta frv.