28.11.1963
Neðri deild: 21. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er á vissan hátt mjög ánægjulegt að heyra ræður þeirra hv. 5 þm. Reykv. (ÞÞ) og hv. 5. þm. Vestf. (HV) um áhuga þeirra á hækkun bóta til hins aldraða fólks, og þeir eiga ekki nógu sterk orð til þess að útmála það, hve illa hefur verið farið með þetta fólk og þörf væri á að gera miklu, miklu betur.

Mér verður þá fyrst fyrir að hugsa: Hvernig var þessi mikli áhugi þessara tveggja manna og tveggja flokka, þegar þeir sjálfir áttu aðild að ríkisstj.? Voru þeir með till. um hækkun á tryggingabótunum? Báru þeir fram breytingar á tryggingalögunum? Eða yfirleitt, hvað gerðu þeir til þess að hjálpa til í þá átt, sem þeir nú eru svo fúsir að gera? Það er óneitanlega, að mér finnst, svolítill mismunur á áhuga þeirra nú eða á áhuga þeirra þá, mismunur á áhuga þeirra í stjórnarandstöðu eða þegar þeir eru aðilar að stjórn og eiga virkilega að framkvæma hlutina. Ég var ekki kunnugur í vinstri stjórninni, en mér var tjáð, að eftir því hafi verið gengið hjá báðum þessum flokkum að lagfæra tryggingalögin, en það hafi ekki fengizt fram. (Gripið fram í: Þórarinn var ekki kominn á þing þá.) Nei, að vísu ekki, en það hafa verið aðrir framsóknarmenn á þingi, sem sjálfsagt hafa verið sömu skoðunar og hann er nú, geri ég ráð fyrir, a.m.k. í stjórnarandstöðunni. En það er sem sagt dálítið annað að vera í stjórnaraðstöðu en að vera í stjórnarandstöðu.

Eitt vil ég líka benda á, þegar hv. 5. þm. Vestf. er að tala um það, hvað við gerum mikið fyrir hálaunafólkið nú í ríkisstj., en viljum, eins og hann sagði, hafa einn liðinn í okkar stefnu þann, að þeir, sem verst eru settir, fái sem minnstar kjarabætur. Þetta eru furðuleg orð úr hans munni, verð ég að segja, því að engan hef ég heyrt hér á Alþ. halda fram málefnum hæst launuðu þegna þjóðfélagsins eins og þennan mann. Hann hefur gengið í forsvar fyrir flugmenn, hann hefur gengið í forsvar fyrir verkfræðinga, hann hefur gengið í forsvar fyrir lækna, allt saman tekjumestu menn þjóðarinnar, og kemur svo á eftir með sakleysissvip og segir: Nei, ég er bara að hugsa um þá lægst launuðu.

Kannske mætti á það benda, að ríkisstj. hefur uppi nú tilburði til þess að bæta lægst launuðu þegnum þjóðfélagsins nokkuð sinn hlut í kjarabaráttunni og í þeirri deilu, sem þeir nú eiga í. En mér virðist á öllu sem nú eigi að standa þar svo að málum, að það eigi að verða örðugt fyrir láglaunamennina og lægst launuðu þegna þjóðfélagsins að koma sínum málum fram. En það kemur í ljós síðar, og hlutur hv. 5. þm. Vestf. þar og afstaða hans þar verður að sjálfsögðu athuguð. Hann segir, að þeir hafi klifað á því frá mánuði til mánaðar og frá ári til árs að fá hækkaðar bæturnar handa þeim gömlu og þeim, sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Af hverju hömruðu þeir ekki á því í vinstri stjórninni? Og þó að hv. 5. þm. Vestf. væri að vísu ekki félmrh, að öllu leyti, var hann það þó að nokkru leyti. Þó að tryggingarnar heyrðu ekki undir hans ráðuneyti, bar honum sem félmrh. að öðru leyti skylda til þess að hugsa þar fyrir og koma fram þeim breytingum, sem hann taldi til bóta. En það fór lítið fyrir því, að þessi hv. þm. bæri fram nokkrar till. í þá átt. En nú er hægt að gera það, því að nú er hann ábyrgðarlaus og í stjórnarandstöðu.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að tryggingastarfseminni í landinu, að mér skildist á honum, hefði stórhrakað á undanförnum árum, og hann vildi rökstyðja það með því, að dvalarkostnaður á elliheimili hefði verið hlutfallslega lægri þá miðað víð ellilaunaupphæðina en hann er í dag. Hann sagði, að dvalarkostnaðurinn hefði verið þá þannig, að ellilaunin nægðu fyrir 45% af kostnaðinum, í dag nægðu þau ekki nema fyrir 39% af honum. Og þó, og það er það merkilega, hefur dvalarkostnaðurinn á elliheimilinu, sem hann nefndi, ekki hækkað nema um tæp 100% frá 1955, eftir því sem hann upplýsti. Ég ætla, að ég hafi tekið rétt eftir því, ég þekki ekki þessar tölur, en ég ætla, að ég hafi tekið rétt eftir því, að hann segði, að 1955 hefði dvalarkostnaðurinn verið 9955 kr., en 1963 18250 kr. Er þetta ekki rétt? (Gripið fram í.) Dvalarkostnaðurinn hefði verið 21900 og 1963 46800, er það ekki rétt? Þá hefur dvalarkostnaðurinn aðeins meir en tvöfaldazt á þessu 8 ára tímabili. Ég þekki ekki þessar tölur, og ég skal ekki þræta við hann á þessu stigi, en ég vil trúa þeim mjög varlega. Og það kemur til af því, að kostnaður ríkissjóðs við almannatryggingarnar 1955 var 79 millj. kr., en kostnaður ríkissjóðs er í dag um 600 millj. kr., þ.e.a.s. kostnaðurinn við tryggingastarfsemina í landinu hefur á þessu tímabili um það bil sjöfaldazt eða milli sjö- og áttfaldazt, en kostnaðurinn á elliheimilinu hefur ekki hækkað nema um rúmlega 100%. Eins og ég segi, ég skal nú athuga þessar tölur, sem hv. þm. nefndi, og koma að þeim við síðari umr. þessa máls, því að. ég hef ekki við höndina þær upplýsingar, sem þarf til þess í dag að gera mér grein fyrir þeim. En varlega vil ég trúa því, að almannatryggingarnar séu ófullkomnari og bótaþegunum óhagstæðari í dag en þær voru 1955. Það er fullyrðing, sem ég held að hv. þm. geti ekki staðið við.

Hann vék síðan að dýrtíðaraukningunni og söng sama sönginn, sem framsóknarmenn hafa sungið um langa hríð, að það væri ríkisstj., sem stæði fyrir öllu því illa í þeim efnum. En ég held nú, að það hafi komið ýmislegt fleira til, sem verði að taka tillit til, ef út í þau mál er nákvæmlega farið. En þar sem það heyrir ekki þessu efni beint til, skal ég láta það alveg liggja.

Eins og ég sagði í framsöguræðu minni fyrir þessu frv., væri vitaskuld æskilegt að geta haft tryggingabæturnar hærri. En þó ætla ég, að með þessum hækkunum, sem nú er farið fram á, að lögfestar verði, sé gengið verulega til móts við bótaþegana til hækkunar, til samanburðar við þá, sem alltaf hefur verið miðað við. Það hefur ekki verið miðað við hátekjumenn í þessu landi, þegar bótaþegunum hafa verið ætlaðar bætur. Það hefur ekki verið miðað við flugmenn, það hefur ekki verið miðað við lækna og það hefur ekki verið miðað við verkfræðinga, sem hv. 5. þm. Vestf. hefur gerzt málsvari fyrir hér á Alþingi. Það hefur verið miðað við venjuleg laun í landinu, og við það er enn miðað. Það er miðað við þá almennu hækkun, sem orðið hefur á launum í landinu, sem varð í upphafi ársins 5%, eins og sagt hefur verið, og síðar á árinu 7½% , eða samtals um 12½%, sem hefur svo verið hækkað í frv. upp í 15%. Og enn vil ég undirstrika það, sem ég líka sagði áður, að það var ætlazt til þess, að ef hækkun hefði komið til viðbótar nú um þetta leyti, hefði hún einnig verið tekin inn í þetta frv. og bæturnar hækkaðar sem því svaraði. En tímans vegna. var ekki hægt að bíða eftir því. En ég hét því jafnframt, að sú breyting, sem verða kynni til hækkunar, yrði tekin til greina síðar og bótaþegum almannatrygginganna bætt upp hliðstætt því, sem um kann þar að semjast.