28.11.1963
Neðri deild: 21. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. er gæddur þeim íslenzka eiginleika í ríkum mæli að vera þrár eins og sauðkindin, og ég skal ekkert lá honum það, þetta er svo almennt um Íslendinga, við erum þráir. Hann heldur fast við það, að þetta sé afbragðs jólagjöf til gamla fólksins, og hann um það.

Það hefur verið vikið nokkuð að ágæti þessa frv. af öðrum ræðumanni en mér, og miðað við þær umbætur, sem orðið hafa á tryggingalöggjöfinni, og svo hins vegar, hvernig þessar tímabætur hafa runnið út í dýrtíðarsand hæstv. ríkisstj., og ég skal einnig víkja nokkuð að þessu. Það er hægt að sýna fram á það, að kjararýrnun tryggingabótanna verður nokkuð ráðin á samanburði einmitt slíkra talna. Síðan í marz 1960 hafa ellilífeyrir og örorkulífeyrir hækkað um 27%, barnalífeyrir og mæðralaun hafa hækkað um 18% og fjölskyldubætur hafa hækkað um 15% síðan 1960. Á sama tíma hefur matvara hækkað um hvað haldið þið? Um 27% eða 17% eða 18%? Nei, um 75%. (Gripið fram í: 78 núna.) 78 núna. Já, þetta 75% er samkv. vísitölu framfærslukostnaðar í október s.l., 78 núna. Fatnaður hefur hækkað um 46% síðan og hiti og rafmagn um 37%. Heildarvísitalan hefur hækkað um 54% þrátt fyrir óeðlilega lágt reiknaðan húsnæðiskostnað, sem allir eru sammála um að sé gersamlega út úr öllu raunverulegu samhengi í vísitölunni. En sem sé, örorkulífeyrir og ellilífeyrir hækka um 27%, og nú á þetta að hækka um 15% og þá er spurt á, forsíðum stjórnarblaðanna: Hvað fær gamla fólkið fyrir jólin? Það er sem sé stórkostlegt hnoss, stórkostleg jólagjöf, og hún er 15%, 1800 kr. á mánuði, sem það á að lifa af, og það þýðir, að það á að geta komizt eitthvað yfir 2000 kr. á mánuði. Það er ekki hægt að guma af umbótum á tryggingalöggjöfinni bara með því að nefna tölur, tölur um það, hvernig bótaupphæðirnar hafa hækkað. Það verður að nefna tölurnar líka um það, hvernig dýrtíðin hefur geisað áfram, og það verð ég að játa, að hæstv. félmrh. Emil Jónsson skortir einurð og þrjózku til þess að nefna þær tölur, það er honum til lofs.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ánægjulegt að heyra í mér og hv. 5. þm. Reykv., þegar við ræddum um þessi mál, og vildi vitna til fortíðar okkar, þ.e.a.s. hans afstöðu áður og minnar afstöðu áður, og þá var nú strax tekið fram í fyrir hæstv. ráðh, og bent á, að hv. 5. þm. Reykv. hefði ekki verið á þingi og væri ekki hægt að vitna til hans persónulegu afstöðu á þeim tíma, þegar ráðh. vitnaði til. En hvað er þá um mína afstöðu fyrr? Hæstv. ráðh. átti við, að það hefði sungið annað í mér um þessi mál, þegar ég tók þátt í ríkisstj., þegar ég var félmrh, í vinstri stjórninni. Hvernig var áhuginn þá? spurði hann. Báru þeir fram till.? Ég kemst ekki hjá því að vitna til þeirrar óskammfeilni, sem hæstv. félmrh. hefur oftar en einu sinni gert sig sekan um og það seinast núna í vantraustsumr. um ríkisstj., þegar hann hélt því fram blákalt, að aldrei hefði verið minni áhugi á umbótum í tryggingamálum en á dögum vinstri stjórnarinnar og þess vegna væru allar sakir af þeim ástæðum færðar á minn reikning. Það gerði hann hlustendum fyllilega ljóst. (EmJ: Hélt ég því fram? ) Já, hæstv. félmrh. Emil Jónsson hélt því fram, að það hefði aldrei verið minni áhugi sýndur til umbóta í tryggingalöggjöfinni en á dögum vinstri stjórnarinnar, og þetta skyldi hitta mig, það var alveg greinilegt. En það verður aldrei nógu oft fram tekið, þegar svona óskammfeilni er beitt, að það var flokksbróðir hæstv. núv. félmrh., Emils Jónssonar, Guðmundur Í. Guðmundsson heitir hann, núv. utanrrh., sem þá var félmrh. að því er snerti tryggingamálin. Það var tilskilið af hendi Alþfl., þegar vinstri stjórnin var mynduð, að Alþfl., svo sem ávallt, þegar stjórnarmyndanir hafa gerzt með hans þátttöku, hefði tryggingamálin. Sé það þess vegna sannleikur hjá hæstv. núv. félmrh., Emil Jónssyni, að aldrei hafi gætt minni áhuga til umbóta á tryggingamálum en á dögum vinstri stjórnarinnar, þá er það sök Alþfl., mannsins, sem þá fór með tryggingamálin í vinstri stjórninni, Guðmundar Í. Guðmundssonar, sem ég veit ekki annað en hafi þá verið og sé enn góður og gildur Alþfl.-maður.

Þegar þess vegna hæstv. félmrh. segir: Hvers vegna bar ekki Hannibal Valdimarsson fram brtt, um tryggingalögin, þegar þau mái heyrðu undir annan ráðh. í sömu ríkisstj.? — þá er enn þá bætt kúf ofan á óskammfeilnina, það verð ég að segja. Ég mundi spyrja: Mundi hæstv. núv. félmrh. telja það góða mannasiði í núv. ríkisstj., að hann fullur af áhuga fyrir umbótum í dómsmálum t.d. bæri fram brtt. í dómsmálum, sem heyra undir eða hafa heyrt fram á þennan dag undir Bjarna Benediktsson? Ég held, að hann hefði aldrei látið sér detta það í hug. Þeir menn, sem eru meðráðh. í ríkisstj. með öðrum, geta sízt af öllum mönnum borið fram brtt. tilheyrandi öðrum rn. Þetta veit hæstv. félmrh. vel og er þess vegna að saka mig um hluti, sem hann veit að ég á engar sakir á. Það heyrði ekki undir mig, og ég var allra manna sízt til þess fallinn að geta borið fram till. til breyt. á tryggingalöggjöfinni, þegar Guðmundur Í. Guðmundsson fór með þau mál í ríkisstj. með mér. Það, sem hæstv. núv. félmrh. finnst þess vegna hafa verið vangert í tryggingamálunum á dögum vinstri stjórnarinnar, á hann sem drengur góður að ásaka sinn flokksbróður fyrir, en ekki mig, sízt af öllu að gera það á opinberum vettvangi hvað eftir annað.

En hann hafði þennan formála, sem kunnur er: Mér hefur verið tjáð, að eftir því hafi verið leitað í ríkisstj, að samþykkja brtt, til umbóta á tryggingalöggjöfinni á vinstristjórnarárunum, en það hafi strandað. Dettur nú nokkrum í hug, að Guðmundur Í. Guðmundsson hafi sem áhugamaður um umbætur á tryggingunum verið með á prjónunum brtt. til bóta, hreyft þeim í ríkisstj., fengið þar andbyr og hann hefði ekki sagt: Góðir bræður, þetta skal fara fyrir þingið? — Nei, svo hæverskur er Guðmundur Í. Guðmundsson ekki, þótt hæverskur sé. Hann hefði vissulega tranað fram sínum till, til breytinga á tryggingalöggjöfinni og gert þannig skjöld sinn hreinan, borið hann fram fyrir þingið og látið þá stranda á því, að þingið felldi þær till., en ekki látið okkur telja úr sér allan kjark innan ríkisstj. En ólyginn sagði mér, er líka alkunn setning, — mér hefur verið tjáð. Þetta eru alger ósannindi, að þáv. ráðh., Guðmundur Í. Guðmundsson, sem fór með trygggingarmálin, hafi farið þess á leit innan vinstri stjórnarinnar, og þar skírskota ég til meðráðh. minna þá. Að hann hafi farið fram á það að fá umbætur á tryggingalöggjöfinni og mætt mótspyrnu í þáv. ríkisstj., ég mótmæli því sem ósönnu með öllu, og skal þá ekki koma til afsökunar neitt, að „mér hafi verið tjáð“. Þá verður Guðmundur Í. Guðmundsson sjálfur að koma og bera vitnisburð um það og halda því fram, að hans umbótatill. á tryggingalöggjöfinni hafi strandað á andstöðu meðráðh. hans í vinstri stjórninni, og það skal hann gera, ef hann er maðurinn til og þorir.

Þá fór hæstv. núv. félmrh. inn á það að halda því fram, að ég hefði allra manna mest gengið í forsvar fyrir þá hæst launuðu í þjóðfélaginu, og nefndi til verkfræðinga, flugmenn og lækna. Þetta er vægast sagt að umgangast sannleikann með frjálslyndi, eða eins og alkunnur stjórnmálamaður sagði: Ég kærði mig ekki um að hafa það nákvæmara, — þegar hann sneri hlutum alveg við. Ég hef tekið þann þátt í umr. um launamál flugmanna og launamál verkfræðinga, að ég hef vítt hæstv. núv. ríkisstj. fyrir það að virða ekki félags- og samningarétt þessara stétta. Og það hefur verið eingöngu, þegar hún hefur gengið á félags- og samningarétt stéttarfélaga þessara manna, sem ég hef tekið til máls og andmælt þeim vinnubrögðum. Um launamál þeirra út af fyrir sig hef ég ekki rætt, tekið afstöðu til. Ég hef sagt, að þessar stéttir mundu sízt valda hættu, vera taldar sem fordæmi fyrir launahækkunum almennum frá hendi ófaglærðra verkamanna og verkakvenna, og ég held, að það sé sannleikur, sem flestir geta melt, nema kannske hæstv. ráðh. Ég hef talið, að hæstv. núv. ríkisstj. hafi farið rangt að gagnvart stéttarfélagi verkfræðinga og gagnvart stéttarfélagi flugmanna á sínum tíma með því að banna verkföll, taka af þeim verkfallsréttinn og þar með í raun og veru gera samningsréttinn að engu. En þetta er ekkert nema sama tilræðið sem gert var að almennu verkalýðsfélögunum nú fyrir skemmstu, og virtist ekki sem hæstv. ríkisstj. tæki sér það neitt nærri, þó að þá ættu í hlut líka fagfélög hinna lægst launuðu. Og þá reis ég auðvitað upp öndverður á sama hátt og ég reis upp gegn jafnhelgum félagsrétti stéttarfélaga flugmanna og verkfræðinga. Þeir höfðu þann sama félagslega rétt, það átti að taka mál þeirra samningatökum og ekki löggjafartökum.

Og svo leyfði þessi hæstv. ráðh. sér að koma nú á þessari stundu með getsakir í minn garð um það, hvort ég mundi reynast trúr málstað láglaunastéttanna, sem nú eigi í kjaradeilum. Á það skal reynt, hvor trúrri reynist málstað láglaunastéttanna á Íslandi núna fyrir jólin, hæstv. ráðh. eða ég. Á það skal reynt.

Nei, um það verður ekki deilt, það hefur verið fylgt þeirri venju að breyta tryggingalöggjöfinni eftir því, sem kjarabreytingar hafa orðið í landinu. Hvernig hafa þær orðið? Þær hafa orðið venjulega á þann veg, að verkalýðsfélögin hafa brotið ísinn, þau hafa knúið fram smávægilegar launahækkanir, ávallt sem andsvar við vaxandi dýrtíð, sem risið hefur áður. Hvað hefur þá gerzt? Þá hefur það gerzt, venjulega nokkrum vikum eða mánuðum síðar, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki séð sér annað fært en að hækka laun starfsmanna ríkisins um nákvæmlega sömu hundraðstölu og verkalýðsfélögin hafa brotizt í gegn með og hækka kaup þeirra þannig alveg í fullu samræmi og látið gildistökutímann vera til þess dags, sem samningar voru undirritaðir við verkalýðshreyfinguna. Þannig hefur það gerzt að undanförnu, að opinberir starfsmenn og meðlimir verkalýðsfélaganna hafa jafnan fengið hina sömu launabót, sömu launahækkun að hundraðshluta, og hinir hærra launuðu í þjóðfélaginu þá auðvitað að krónutölu þeim mun meiri launahækkun. En á þessu ári gerðist annað. Á þessu ári gerðist það, að verkafólk hafði fengið 5% hækkun í ársbyrjun og 7½% hækkun í júnímánuði, og svo var það beðið að slíðra sverðin og bíða til haustnótta, og það var gert. En þá lauk störfum dómstóll, sem hæstv. ríkisstj. hafði sett á laggir og valið sína vildustu trúnaðarmenn til, þ. á m. einn af sínum aðalefnahagsmálasérfræðingum, Jóhannes Nordal, gert hann að dómara í launamálum starfsmanna ríkisins. Þessi dómstóll kvað upp sinn dóm 3. júlí 1963 um það, að hæst launuðu embættismenn ríkisins skyldu fá allt upp í 80% launahækkun og hinir lægst launuðu 20%. Meðaltalshækkun metin af Hagstofu Íslands 45%. Síðan fara á eftir starfsmenn Reykjavíkurborgar, fá með samningum fyllilega þessa upphæð, ívið meiri, fara á stað stéttarsamtök bankamanna, fá þessa. launauppbót viðurkennda með samningum og heldur meira, einum mánuði frekar, sem reyndar hafði verið áður, starfsfólk annarra bæjarfélaga í kjölfarið með sams konar hækkanir, og þetta hefur allt saman gerzt, áður en núv, hæstv. ríkisstjórn ber fram frv. á Alþ. um sérstaklega náðarsamlega jólagjöf til handa gamla fólkinu. Þetta hefur ekki getað gleymzt neinum. Og hvað skyldi nú gert með tilliti til þess, sem áður hafði gerzt? Gamla fólkið hefur alltaf fengið sömu hækkun og verkafólkið hefur fengið, segir hæstv. ráðh. Gamla fólkið hefur líka fengið alltaf sömu hækkun og opinberir starfsmenn hafa fengið, því að það hefur alltaf verið það sama að hundraðstölu og þar með meira í krónutölu til hinna hærra launuðu. Hvaða leið átti nú að fara? Það má segja, að hæstv. ríkisstj, hafi verið stödd eins og asninn í töðuflekknum sem gat gripið niður til beggja handa og var í ráðaleysi að vísu. Átti nú að úthluta gamla fólkinu jólagjöf í samræmi við verkafólkið eða embættismannalýð ríkisins? Ríkisstj. hæstv. varð ekki í vanda. Auðvitað skyldi það vera eins og verkalýðurinn hafði fengið, en ekki embættismenn ríkisins. Þarna hafði verið greint á milli á þessum tíma, og nú var að velja á milli. Ég hefði talið hins vegar alveg einsætt val fyrir hæstv. ríkisstj. Kjaradómur, hlutlaus, hefur kveðið upp þann úrskurð, að opinberir starfsmenn skuli fá að meðaltali 45% launahækkun, við eigum síðan í nafni ríkisvaldsins og meirihlutaaðstöðu á Alþingi að ákveða gamla fólkinu launabætur nú í lok þessa árs, og hvað eigum við að gera? Við eigum auðvitað að láta það hafa meðaltal þeirra launahækkana, sem allur starfsmannalýður ríkisins, miklu betur settur, hefur fengið: Það er alveg óhugsandi, að þetta viðreisnarþjóðfélag okkar sé orðið svo aumt og vesalt, að það rísi ekki undir því að veita gamla fólkinu í landinu sams konar launabót og hlutlaus dómur hefur dæmt opinberum starfsmönnum ríkisins. Ég trúi ekki, að viðreisnargetuleysið sé orðið svo algert.

Það er því sannfæring mín, að þarna hafi verið farin öfug leið, það eigi ekki að miða kjarabætur gamla fólksins núna við þá vesælu bráðabirgðakjarabót, sem verkalýðsstéttin hefur þegar fengið, mál hennar eru nú í endurskoðun á ný í samráði við hæstv. ríkisstj., heldur eigi gamla fólkið að fá hækkun á sínum bótatryggingum í samræmi við meðaltalsdómsúrskurð kjaradóms, 40–45%, og væri þó áreiðanlega gamla fólkið, þó að mánaðartekjur þess losuðu þá eitthvað um 2 þús. kr., ekki of sælt af.

Þetta er 1. umr. þessa máls, og ég sá enga ástæðu til þess að þegja við þeim aðdróttunum, ósanngjörnum aðdróttunum, sem hæstv. ráðh. beindi gegn mér, og þeim hef ég þess vegna svarað. Og ég hef enn fremur endurtekið það, að Alþb. telur allt annað ósæmilegt gagnvart gamla fólkinu nú fyrir jólin en að það fái a. m. k. 40% hækkun á tryggingabótum sínum.