16.03.1964
Neðri deild: 69. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

108. mál, afnám laga um verðlagsskrár

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Þann 25. febr. hófst 3. umr. um þetta frv. hér í hv. d. Þá kvaddi hv. 3. þm. Vestf. sér hljóðs og skýrði frá því, að bóndi einn á Vesturlandi, sem býr á leigujörð, hefði átt tal við sig og skýrt sér frá því, að samkv. ábúðarsamningi greiddi hann landsskuld samkv. verðlagsskrá, og hann spurðist fyrir um það, hvernig ætti að ákveða landskuldina, eftir að hætt væri að semja verðlagsskrár. Í tilefni af þessari aths. hv. 3. þm. Vestf. fékk fjhn. málinu frestað í það sinn til þess að athuga það betur og þá sérstaklega þetta atriði. Sú athugun hefur farið fram, m.a. hjá fjmrn. Rn. skýrir svo frá, að hagstofustjóri hafi tjáð sig fúsan til að hafa milligöngu um umreikning slíkra ákvæða til peningaverðs, þar sem um sé að ræða, að greiðsluákvæði í samningum séu miðuð við verðlagsskrár. Sú hefur því orðið niðurstaðan á athugun málsins, að fjhn. flytur brtt. við frv. á þskj. 373, og var henni útbýtt nú í upphafi fundar. Brtt. er um það, að við frv. bætist ákvæði til bráðabirgða, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú er í gildi samningur um, að greiðsla skuli miðuð við verðlagsskrá, og skal hagstofustjóri þá meta greiðsluna til peningaverðs, nema aðilar komi sér saman um annað.“

Það er till. fjhn., að þessi breyting verði gerð á frv. og það síðan endursent hv. Ed.