28.11.1963
Neðri deild: 21. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég hef ekki ástæðu til þess að vera langorður í tilefni af því, sem hæstv. ráðh. sagði, því að hann reyndi nú að leiða sem mest hjá sér það, sem kom fram í ræðu minni og hefði þó átt að skipta hann mestu. En ég get vel skilið það, að hæstv. ráðh. hefur tekið þá afstöðu, vegna þess að það er ekkert þægilegt fyrir hann að gera samanburð á tryggingunum núna og 1958, eftir allt það skrum, sem hann og samherjar hans hafa haldið uppi um þær stórfelldu bætur á tryggingunum, sem hafi átt sér stað í tíð núv. ríkisstj.

Ég vil í tilefni af því, sem kom fram seinast hjá hæstv. ráðh., þar sem hann var að láta í ljós umhyggju fyrir hinum lægst launuðu, segja það, að ég vænti, að þetta verði meira en orðin tóm hjá honum, það komi þá m. a. fram í því, að þeim, sem einna verst eru settir í þjóðfélaginu, gamla fólkinu, verði veittar meiri bætur en felast í þessu frv. og a. m. k. það fái þá dýrtíðaraukningu bætta, sem hefur átt sér stað, síðan almannatryggingalögin voru sett á síðasta vori. Og sérstaklega vil ég vænta þess, að það komi fram í þeim samningum við láglaunastéttirnar, sem nú standa yfir, og hæstv. ráðh. og stjórnin taki öðruvísi á þeim málum fyrir 10. des., áður en sá dagur rennur upp, heldur en virtist vera afstaða þessara aðila fyrir nokkrum dögum hér á þingi, þegar þeir gerðu tilraun til þess að binda kaup þessa fólks fast með lögþvingun, eftir að flestar eða allar hálaunastéttir landsins voru búnar að fá stórfelldar kjarabætur. Ég vona, að það, sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan í tilefni af hans umhyggju fyrir láglaunafólkinu, komi fram í verki, en verði meira en orð, sem sögð eru hér á Alþingi.

Ég ætla ekki að blanda mér inn í þær deilur, sem hafa átt sér hér stað um afstöðu ráðh. Alþfl, sem tryggingamálaráðh. í vinstri stjórninni. Ég vil aðeins segja það, að mér finnst það vera ákaflega ótrúlegt, að ef sá hæstv. ráðh. hefur lagt einhverja áherzlu á það að fá bætur á tryggingalöggjöfinni, þá hafi hann látið sér nægja, ef því hefði verið hafnað í stjórninni, en ekki lagt þær till. fyrir Alþingi, eins og hv. 5. þm. Vestf. vék að. En til slíks kom ekki, og eftir því sem upplýst er bæði af hv. 5. þm. Vestf. og fleiri ráðh., sem áttu sæti í þessari sömu stjórn, voru aldrei neinar till. lagðar fram af hálfu Alþfl. í vinstri stjórninni um auknar bætur á almannatryggingunum. (HV: Og ógerningur fyrir aðra að gera það.) Og ekki heldur eðlilegt, að aðrir hlypu þá til og flyttu brtt. um það í kapp við sjálfan ráðh., sem með þessi mál fór.

En í tilefni af því, sem hæstv. ráðh. var að segja eða gefa í skyn um afstöðu Framsfl. til þessara mála fyrr og síðar, vil ég láta nægja að segja þetta:

Framsfl. stóð með Alþfl. að fyrstu tryggingalögunum, sem sett voru hér á Alþ. gegn andstöðu Sjálfstfl. Framsfl. hefur síðan greitt atkv. með öllum endurbótum á almannatryggingalögunum, sem hafa verið afgreiddar frá Alþ., nema hann sat hjá, þegar afgreidd voru almannatryggingalögin 1946, en það byggðist fyrst og fremst á því, að í þeirri löggjöf, lögunum 1946, var gert ráð fyrir því að leggja sjúkrasamlögin alveg niður og taka upp nýtt kerfi í staðinn fyrir þau, setja upp svokallaða heilsugæzlustofnun, sem átti að taka þessi mál að sér. Framsfl. taldi þessa breytingu vera mjög vafasama og vildi þess vegna ekki greiða atkv. með þessum lögum og sat hjá. Og niðurstaðan varð sú, að það féll í hlut Alþfl, — ég man ekki, hvort það var hæstv. núv. félmrh. eða Stefán Jóh. Stefánsson, sem áttu að sjá um framkvæmd þessara laga á árunum 1947–1949. Það var ekkert gert af hálfu Alþfl, þá eða þeirra flokka, sem stóðu að þessari breytingu, að koma henni fram, að leggja sjúkrasamlögin niður og taka upp heilugæzlustofnunarkerfi í staðinn. Og þannig leið þetta í mörg ár, að það var ekki neitt gert til þess af hálfu þeirra flokka, sem þetta samþykktu, að koma þessari skipan á. Svo gerðist það nokkrum árum síðar, að það var borið undir sjúkrasamlögin og bæjarfélögin í landinu, hvort þau vildu framkvæma þessa breytingu, og meiri hl. þeirra svaraði því, að hann vildi halda í sjúkrasamlagakerfið eins og það var, og þá var gerð sú breyt. á 1., að sjúkrasamlagakerfið var gert varanlegt. Hæstv. félmrh. er nú búinn að fara með þessi mál í 5–6 ár, félagsmálin, og hefur þess vegna haft gott tækifæri til þess að taka upp þetta ákvæði úr l. frá 1946, sem ágreiningur varð um þá, en hann hefur enn ekki sýnt neina viðleitni til þess, svo að mér þykir það vera ákaflega hart, ef hæstv. ráðh. er nú að áfellast Framsfl. fyrir að hafa ekki viljað vera með kerfi 1945, sem hann sjálfur, þ. e. ráðh., hefur ekki sýnt neinn áhuga á að framkvæma og hefur bersýnilega talið vafasamt. En þegar þessu eina tilfelli er sleppt frá 1946, hefur Framsfl. sem sagt staðið að öllum endurbótum á almannatryggingalögunum, sem hafa verið samþykktar hér á Alþ., og átti í upphafi frumkvæðið að því ásamt Alþfl., að almannatryggingalöggjöf var sett.

Hæstv. ráðh. var að draga það í efa, vildi þó ekki fullkomlega gera það, að þær tölur væru réttar, sem ég hefði farið hér með í sambandi við ellilaunin og dvalarkostnaðinn á elliheimilinu Grund. Og hann benti m. a. á, að ég hefði sagt, að 1958, — en allar þær tölur, sem ég nefndi, voru ýmist frá 1958 eða 1963, — hefði dvalarkostnaðurinn á almennu deildinni á elliheimilinu verið 21900 kr., en nú væri hliðstæður dvalarkostnaður 46800 kr. og hér hefði þess vegna átt sér stað eitthvað í kringum 100% hækkun, en er þó vitanlega rúmlega það. Svo sagði ráðh., að ég hefði sagt, að ellilaunin hefðu verið 9955 kr. árið 1958, en væru núna 18240 kr., og vildi draga af þessu þá ályktun, að hér væri nokkurn veginn um 100% hækkun að ræða á ellilaununum, Ég hef nú ekki reiknað það út, en ég minnist þess, að fyrir seinustu kosningar var því haldið fram í stjórnarblöðunum, að þessi hækkun væri 83%, þannig að ellilaunin hafa hækkað um 83% á þessum tíma, en dvalarkostnaðurinn á elliheimilinu á almennu deildinni hefur hækkað meira en 100% og enn þá meira á sjúkradeildinni, svo að þetta nægir alveg til þess að sýna, að það hefur orðið meiri hækkun á framfærslukostnaðinum eða dvalarkostnaðinum en á sjálfum ellilaununum. Þess vegna stendur gamla fólkið verr nú 1963 í þessum efnum en það gerði 1958.

Ég er ekki nema ánægður yfir því, að hæstv. ráðh. lofaði, að hann skyldi láta fara fram endurskoðun á þessum tölum mínum, og ég vænti þess, að hann geri það þá, áður en málið fer frá þessari deild. En ég hygg, að ef hann tekur þetta mál réttum tökum, en reynir ekki að snúa neitt út úr þessu, verði niðurstaðan sú hin sama og hjá mér, að ellilaunin eru nú minni hluti af framfærslukostnaðinum en þau voru 1958. Þess vegna hefur verið gengið aftur á bak í þessum efnum, en ekki fram á leið, þrátt fyrir þær tölulega hækkanir, sem hafa orðið á fjárveitingunum í fjárl. og ríkisreikningum. Og það er vegna þess, eins og ég áðan sagði og skal ekki fara að rifja frekar upp að sinni, að sú efnahagsstefna, sem hæstv. ríkisstj. hefur haldið uppi, hefur aukið dýrtíðina svo stórkostlega, að allar þær tölulegu hækkanir, sem hafa orðið á almannatryggingunum, hafa verið étnar upp af dýrtíðinni og meira til. En svo að ég rifji það aðeins upp aftur, var niðurstaða mín sú, að árið 1958 var hluti almannatrygginganna eða ellilaunanna af dvalarkostnaðinum á almennu deildinni á elliheimilinu 45%, en er nú ekki nema 39%, en á sjúkradeildinni eru þessar tölur þannig, að 1958 var hluti ellilaunanna 39%, en er nú ekki nema 34%. Það er rétt að geta þess að vísu, að þetta lagast nokkuð, eftir að sú hækkun kemur til framkvæmda, sem felst í þessu frv., en þó ekki nægjanlega.

Ég vil svo að seinustu leggja áherzlu á það, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Vestf., að það sé nauðsynlegt að hækka ellilaunin verulega frá því, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., og ég held, að ef gamla fólkið á að fá bætur, sem svarar til dýrtíðaraukningarinnar síðan lögin um almannatryggingar voru afgreidd frá Alþ. í apríl á s.l. vori, sé ekki hægt að gera ráð fyrir öllu minni hækkun en um 40%, eins og kom fram hjá hv. 5 þm. Vestf. Og það byggi ég m. a. á því, eins og ég áðan sagði, að á þessum tíma eða síðan í apríl í vor hefur vísitala framfærslukostnaðar hækkað um 16 stig, en samkv. því hefur dýrtíðin aukizt um 12% á þessum tíma, og ber þó að geta þess, að húsaleigukostnaðurinn eða húsnæðiskostnaðurinn hefur sama og ekkert hækkað í vísitölunni á þeim tíma, þrátt fyrir það að kunnugt sé, að stórfelld hækkun hefur átt sér stað á þeim útgjaldalið.

Nú er að vísu í þessu frv. gert ráð fyrir því að hækka ellilaunin um 15%, en menn verða í þessu sambandi að gæta þess, að ellilaunin eru nú ekki nema í kringum 40% af framfærslukostnaðinum eða t.d. dvalarkostnaðinum á elliheimilinu Grund, ef miðað er við hann. Þess vegna kemur þessi 15% hækkun ekki nema á 40% framfærslukostnaðarins. Á 60% framfærslukostnaðarins kemur engin hækkun. Og ef á að bæta þann hluta framfærslukostnaðarins tilsvarandi og hinn, býst ég ekki við, að það sé hægt að komast af með öllu minni hækkun en um 40% á ellilaunin, þannig að gamla fólkið standi þá í svipuðum sporum eftir þessa breytingu og það stóð á s.l. vori, eftir að Alþingi samþykkti þá lögin um almannatryggingar. Ég vil þess vegna vænta þess, að við nánari athugun hér í þinginu verði fallizt á það að hækka verulega bæturnar til gamla fólksins og að það verði gert á svo myndarlegan hátt, að það verði raunverulega hægt að tala um einhverja jólagjöf til þess í sambandi við þetta mál, en það er vissulega ekki hægt, meðan eins smátt er skammtað og gert er ráð fyrir í þessu frv.