11.02.1964
Neðri deild: 54. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

131. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Þeir hv. framsóknarmenn, sem hér hafa talað um þetta frv., hafa talað í þeim tón eins og með þeim till., sem í þessu frv. felast, væri verið með einhverjar lokatill. í stuðningi við ræktunarmálin. Eins og ég tók fram áðan, taldi ég og fleiri eðlilegt að fá lögfest á þessu þingi þann stuðning við ræktunarmálin og uppbyggingu sveitanna, sem mest væri aðkallandi, og ég hef gert mér ljóst, að það er ekki frekar hægt á þessu þingi en undanfarin ár að fá allt, sem æskilegt mætti telja. Og hv. framsóknarmenn mundu tæplega telja upp svo mörg mál sem þeir hafa flutt og hafa jafnvel í hyggju að flytja til aukins stuðnings við atvinnuvegina, ef þeir, á meðan þeir voru í stjórn og sennilega með góðum vilja á stuðningi við uppbygginguna, hefðu getað komið öllu fram, sem þeir vildu. Og hvernig stendur á því, að svo mikið er af smájörðum og smábýlum í landinu og þá kannske ekki sízt í kjördæmi hv. 1. þm. Austf.? Hann hefur verið þm. í þessu kjördæmi í 30 ár og ég skrifaði niður setningu hér áðan, sem hann viðhafði, þegar hann sagði: „Það dugir ekki að horfa aðgerðalaus ár eftir ár, án þess að gera raunhæfar ráðstafanir til að stækka smábúin og auka ræktunina, þar sem hún er minnst.“ í 30 ár virðist svo vera sem þessi hv. þm. hafi aðgerðalaus horft á smábúin á Austurlandi án þess að gera raunhæfar ráðstafanir til, að þau yrðu stækkuð. Og það er ekki lengra en 6 ár síðan, 1957, að þessi hv. þm. neitaði að greiða styrk, aukastyrk til túna, sem væru yfir 10 ha. Og ég spyr: Var það vegna þess, að þessi hv. þm. taldi þá svo nauðsynlegt að útrýma smábúskapnum og auka ræktunina? Ef þessi hv. þm. hefði verið stórtækari þá, mætti svo vera, að það væri minna um smábú og meira um bjargálna bændur.

Það er ekki hægt að komast hjá að minna á þetta, þegar hv. þm., sem hafa setið 30 ár á þingi og lengi setið í ríkisstj., tala nú eins og það sé hægt að gera allt og fá lögfest á einu þingi allt, sem við teljum að vanti og til úrbóta kunni að verða. Og það er áreiðanlegt, að ef þessi hv. þm., 1. þm. Austf., ætti að sjá um ríkiskassann í dag, þá talaði hann ekki um 20 millj. kr. hækkun á fjárl. til ræktunarmála á einu ári eins og eitthvert smáræði. Og hv. 2. þm. Sunnl. hefði ekki talið það smáræði, á meðan hann studdi ríkisstj., ef jarðræktarstyrkurinn væri aukinn í svo ríkum mæli sem gert er ráð fyrir með þessum tveimur frv., á hverju ári. Ég er dálítið undrandi yfir því, þegar svo þingvanir menn tala í þessum hræsnis- og einfeldnistón um mál, sem við allir þekkjum vel til og erum innst inni sammála um að beri að fylgja fram til sigurs eftir þeim leiðum, sem færar mega teljast.

Hv. 2. þm. Sunnl. talar um, að bændur hafi spurt um jarðræktarlagafrv. og vonazt eftir að fá það. Ég kannast við það líka. En ég veit, að bændastéttin, ef hún hefði verið spurð um það, hvort hún vildi jarðræktarlagafrv., sem búnaðarþingsnefndin samdi og stjórnskipaða n. endurskoðaði, heldur en þessi tvö frv., sem við nú erum að flytja, þá er ég viss um, að stór meiri hl. bændanna hefði sagt: Við viljum heldur þetta. — Og það tjáir ekki að tala um, að það sé eitthvað lítið, sem hér er á borð borið, þegar það er 4–5 millj. meira á ári en það, sem framsóknarmenn í mþn. lögðu til að yrði lögfest.

Hvaða þýðingu hefur það að ræða í þessum dúr, sem þessir hv. tveir þm. hafa gert hér í dag, ræða þannig um þessi mál eins og þeir, sem á hlusta, séu þessu alls ókunnugir og það sé fyrst nú verið að lögfesta einhverjar hækkanir til framkvæmda eða ræða till., sem áður hafi ekki komið fram í þessu efni. Ég er alveg sannfærður um, að framsóknarmennirnir, sem unnu að undirbúningi jarðræktarlagafrv., hafa ekki viljað hugsa neitt smátt í styrkveitingum til ræktunarmála. En till. þeirra bara miða skemmra en þær till., sem við nú erum að ræða um og þessir 2 þm. eru að reyna að gera lítið úr. Það hefði verið miklu sæmra fyrir þessa hv. 2 framsóknarþm. að viðurkenna það, að með þessum tveimur frv. væri stigið stórt og mikilvægt spor til framfara í ræktunarmálum landsins, en að með þessu væri þó ekki um neitt lokatakmark að ræða, heldur það að fikra sig áfram á þessari braut, eftir því sem unnt væri.

Það er í rauninni ekki þörf á að ræða um það, sem þessir tveir hv. þm. drápu hér á, frekar en gert hefur verið. Hv. 2. þm. Sunnl. var að tala um, að þeir, sem eru komnir yfir 25 ha. markið, hafi orðið fyrir vonbrigðum. Það má segja það, þeir fá ekki hækkun á sínum jarðræktarstyrk. En eitt er þó víst , að þeir hafa meiri möguleika til að stækka túnin af sjálfsdáðum með þessum lága styrk heldur en hinir, sem skemmra eru komnir, og ég vil því vænta þess, að síðar meir verði hægt að hækka jarðræktarstyrkinn einnig til þeirra, sem eru komnir yfir 25 ha., því að 25 ha. ræktun á hverju býli getur vitanlega ekki verið neitt lokatakmark.

Annað var það, sem hv. 2. þm. Sunnl. var að tala um, að það hafi verið mæld og tekin út flög, sem sáð hafði verið í einærum jurtum, káli og öðru slíku, eftir fyrirmælum mínum, að mér skildist. Þetta er alger misskilningur. En ég minnist þess, að á s.l. vori ræddi búnaðarmálastjóri þetta við mig og taldi eðlilegt, að þetta yrði mælt ásamt öðrum jarðabótum á bæjunum, ef til þess kæmi, að væri unnt að veita styrk á þetta, sem aldrei hefur verið gert. Og úr því að ráðunautur var kominn á staðinn hvort sem var, þá hefur ekki farið mikil vinna í það að slá máli á þessi flög. En það er rétt, sem hv. þm, sagði, að skv. þessu frv. er ekki gert ráð fyrir að veita styrk á þetta frekar en áður hefur verið. Það hefur aldrei verið gert, en mætti segja, að hefði nokkra þýðingu, ef það nýmæli væri tekið upp.

Við hv. 2. þm. Sunnl. ætla ég nú ekki að þrátta um gagnsemi votheysins. Við þekkjum það ósköp vel báðir, sveitamenn. En við ættum að geta verið sammála um, að það eru takmörk fyrir því, hve mikið má nota af votheyi, en það eru í rauninni engin takmörk fyrir því, hve mikið má nota af grænu og vel þurrkuðu, hraðþurrkuðu heyi. Þá er engin þörf fyrir vothey, ef það er til nóg af grænu, vel þurrkuðu heyi. Þess vegna er súgþurrkunin vitanlega miklu nauðsynlegri. Og ef bændur gætu almennt komið súgþurrkun upp hjá sér og varið sig þannig gegn votviðri og hrakningum, þá er ekki þörf fyrir votheysgryfjur. Hitt er svo annað mál, að styrkurinn á votheysgryfjur mætti gjarnan hækka og vera hærri en nú er.

Hv. 2. þm. Sunnl. taldi, að styrkurinn til súgþurrkunarinnar væri ekki hár þrátt fyrir þá hækkun, sem hér er lagt til. En ég vil bara veita þær upplýsingar, að hér er verið með sömu tölurnar og búnaðarþingsnefndin lagði til, að þessi styrkur væri hækkaður um, og það þótti ríflegt þá, það sem lagt var til skv. því frv. Og úr því að það þótti vel að verið með þeim till., þá hlýtur það einnig að vera, þó að þær séu teknar upp í þetta frv. Ég er dálítið hissa á hv. 2. þm. Sunnl. að vera að gera lítið úr því, og ég vefengi það, að kostnaðurinn við súgþurrkun sé svo mikil eins og hann gerir ráð fyrir, 50–60 þús. í hlöðu, sem er svo og svo stór, eins og hann nefndi, það vefengi ég alveg, það er ekki svo dýrt sem betur fer. Og það er einnig rangt, að þetta hafi hækkað síðan mþn. búnaðarþings skilaði af sér á árinu 1962, Timbur hefur ekki hækkað síðan, sem er notað í súgþurrkunarkerfi, blásarinn hefur ekki hækkað síðan, vegna þess að nú er gert ráð fyrir að lækka tollinn á blásurum, þannig að hann verður ódýrari. Súgþurrkunarkerfið með þar til gerðum blásara verður þess vegna ódýrara nú en það var á því ári, sem mþn. skilaði af sér. Og ég vænti þess, að þegar hv. þm. gerir sér grein fyrir þessu, fallist hann á það, að till. um súgþurrkun séu jafngóðar, þó að þær séu komnar í þetta frv., eins og þær voru að hans áliti, meðan þær voru í frv. mþn. búnaðarþings.

Um það, þegar hv. 1. þm. Austf. var að halda því fram hér áðan, að 18–20 millj., sem þessi frv. tvö gæfu á ári, væru hreinn hégómi, þá er ég viss um, að menn hafa rennt huganum til þeirra ára, þegar þessi sami hv. þm. var fjmrh. Og alltaf munu menn staðnæmast við árið 1957, þegar þessi hv. þm. neitaði að veita aukinn styrk til stærri túna en sem höfðu 10 ha., neitaði því að stækka túnin, t.d. á Austurlandi, og fjölga þeim, sem gætu orðið bjargálna, en segir nú, þegar gert er ráð fyrir að veita aukastyrk til 25 ha. og auka framlag ríkissjóðs kannske um 18–20 millj. á ári í þessu skyni, að þá sé það hreinn hégómi. Ég held nú, að þegar menn hlusta á slíkar orðræður, geti menn verið sammála um, að það sé ekki ástæða til að taka slíkt alvarlega.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta meira að svo stöddu.