17.02.1964
Neðri deild: 57. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

131. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Austf. var hér með hálfgerða kveinstafi út af því, sem ég hafi sagt hér um smábýlin á Austurlandi. En hv. þm. veit, af hvaða tilefni hann var minntur á það, að þar væri mikið um smábýli, eins og reyndar víða annars staðar á landinu. Það var þessi hv. þm., sem talaði af miklum þjósti og gorgeir um það, að ekki dygði að horfa aðgerðalaus á það, að ekki tækjust meiri framfarir í landbúnaðinum og breytingar á smábýlunum heldur en verið hefur. Það varð þá ekki hjá því komizt að minna hv. þm. á það, að hann hafði verið 30 ár þm. fyrir þann landshluta, þar sem mest er um smábýli, og á þessu 30 ára tímabili áhrifamaður og oft ráðh. Ég hygg, að þeir, sem hlýddu á umr., hafi talið allt þetta eðlilegt frá minni hendi, og ég hygg líka, að flestir hafi gert sér grein fyrir því, að hv. 1. þm. Austf., með þá fortíð sem hann hefur, ætti ekki að gera lítið úr þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið til viðreisnar landbúnaðinum síðan hann fór frá völdum.

Hv. þm. fór áðan að tala um landbúnaðarsjóðina, og hafði ég eiginlega búizt við því, að hann hliðraði sér hjá því að gera það, þar sem vitað er, hvernig þeir voru, þegar núv. ríkisstj. komst til valda. Þessir sjóðir voru gjaldþrota, gersamlega gjaldþrota, áttu 31 millj. kr. minna en ekki neitt, og vinstri stjórnin felldi krónuna, eins og vitað er, vorið 1958 og með áframhaldandi dýrtíð árið út 1958, þannig að sú króna, sem skráð var 1960, var vinstristjórnarkróna, en hv. 1. þm. Austf. undirbjó fjárlögin fyrir árið 1959. Var gert ráð fyrir í því frv. að rétta við landbúnaðarsjóðina? Ég hygg, að margir minnist þess, að í fjárl. hefur verið mörg undanfarin ár og jafnvel áratugi 4 millj. kr. framlag til búnaðarsjóðanna, og hv. 1. þm. Austf., þáv. fjmrh., lét það vera að hækka þessa upphæð, þegar hann undirbjó frv. til fjárl. fyrir árið 1959. Þetta var hans framlag til stuðnings sjóðunum, eftir að búið var að grafa undan þeim með 55% yfirfærslugjaldi vorið 1958 og aftur aukinni gengisfellingu út allt það ár.

Ég hygg, að flestir hafi nú sannfærzt um, að það hafi verið vel að því unnið að byggja upp lánasjóði landbúnaðarins, og ég hygg, að bændur séu þegar farnir að finna fyrir þeirri breytingu, sem orðin er í lánamálum landbúnaðarins. Áður þurftu bændur mánuðum saman og jafnvel árum að bíða eftir lánum eftir að hafa ráðizt í framkvæmdirnar, vegna þess að fé var ekki fyrir hendi. Og loks þegar lánin komu, þá voru þau það við nögl skorin, að þau voru ekki nema lítill hluti af því, sem raunverulega bar að láta af hendi, og urðu bændur því að bjarga sér á víxlum og söfnuðu lausaskuldum, sem vitanlega varð að borga víxilvexti af. Og það er skemmst að minnast þess, að núv. ríkisstj. varð að gera ráðstafanir til að rétta hag bænda með því að losa þá við lausaskuldir, sem höfðu safnazt, sérstaklega á árunum 1957 og 1958, eins og menn minnast, og breyta þessum lánum í 20 ára lán.

Það er dálítið einkennilegt, þegar hv. 1. þm. Austf. er að tala um hina miklu vaxtabyrði, sem bændur bera nú, vegna þess að vextirnir hafi verið hækkaðir frá því, sem þeir voru. Í fyrsta lagi hefur það gerzt, að nú fá bændur stærri hundraðshluta af byggingarkostnaði úr stofnlánadeild landbúnaðarins heldur en áður var og nota þess vegna minna af víxillánum og lausaskuldalánum, sem verður að borga hæstu vexti af, heldur en áður var. Og nú hefur það gerzt, að mikil leiðrétting hefur fengizt í verðlagsgrundvelli landbúnaðarins hvað vextina snertir, þannig að vextirnir eru nú teknir til greina í mun ríkari mæli en áður var til útgjalda í grundvellinum. Meðan vextirnir voru ekki teknir til greina í grundvellinum, sem bóndinn raunverulega greiddi út, var verið að taka af hans kaupi, og þá fékk bóndinn ekki það verð, sem honum var ætlað að fá. 1958 er bændunum reiknað til útgjalda aðeins 8188 kr. í verðgrundvelli landbúnaðarvara. En haustið 1963 er þessi upphæð reiknuð 31162 kr. Dettur nokkrum manni í hug, að bændur séu ekki betur settir en áður hvað vaxtaútgjöldin snertir? 1958 er bændum reiknað aðeins 8188 kr., en nú er þeim reiknað 31162 kr. Dettur nokkrum manni í hug, að vextirnir hafi raunverulega hækkað sem þessu nemur? Það vita allir, að vextirnir hafa ekki hækkað nálægt því sem þessu nemur.

Við skulum vera sammála um, að vextirnir hafi hækkað um 50%. Við skulum einnig vera sammála um, að skuldir hafi aukizt nokkuð síðan 1958 og af þeim ástæðum hljóti vaxtaupphæðin að vera hærri. En við skulum einnig vera sammála um, að hér hefur fengizt stórkostleg leiðrétting, bæði á þeim vöxtum, sem eru út greiddir vegna skulda, og einnig og ekki sízt fyrir það, að nú er farið að reikna vexti af eigin fé bóndans, sem bundið er í bústofni, jörð og húsum. En á meðan hv. 1. þm. Austf. var fjmrh., fengu bændurnir enga vexti af því kapítali, sem bundið var í búinu, jörðinni og húsunum. Þeir urðu að hafa þetta vaxtalaust, og það er ekki fyrr en haustið 1960, sem farið er að reikna þessa vexti, þá að vísu lágt, ekki nema 3½% til að byrja með. Það var leiðrétt aftur 1962, fært upp í 5% og á s.l. hausti 6%. Hér er því stórkostleg leiðrétting á verðlagsgrundvellinum. Og þegar tekið er tillit til þess, hvaða vaxtaupphæð er tekin inn í verðlagsgrundvöllinn nú og að bændur fá hærri hundraðshluta úr stofnlánadeildinni en áður og búa þess vegna við minna af víxil- og lausaskuldum en þá, þá er enginn vafi á því, að það er betur búið að bændum í lánamálunum nú en áður var, og á þó eftir að sjást betri útkoma í þessum efnum, þegar stofnlánadeildinni vex fiskur um hrygg, en eins og kunnugt er, er hún ekki enn nema tveggja ára. Lögin eru ekki nema tveggja ára um stofnlánadeild landbúnaðarins. Ef lögin væru 10 ára eða 20 ára, væri þarna kominn stofnlánasjóður fyrir landbúnaðinn, sem tryggði landbúnaðinn gegn lánsfjárskorti. Og það er það, sem flestir bændur eru farnir að sjá, að er mikils virði. Og það á ekki að telja eftir þetta 1%, sem greitt er af búvörunni til uppbyggingar lánasjóða landbúnaðarins. Neytendurnir telja ekki eftir að greiða 0.75%, og bændurnir munu ekki heldur gera það. Það eru enn aðeins nokkrir forustumenn Framsfl., sem halda áfram þessu nuddi í pólitískum tilgangi gegn hagsmunum bænda. Og það þarf talsverða kokhreysti til, þegar sami maðurinn furðar sig á því, að bændur skuli vilja láta 1% til uppbyggingar stofnlánadeildinni, en þeir eiga með glöðu geði að láta 1% eða nálægt því í Bændahöllina, sem a.m.k. er mjög vafasamt til hagnaðar fyrir bændastéttina, en út í það mál skal ég ekki fara hér. En það er áreiðanlega ólíku saman að jafna að byggja upp lánsstofnun til að tryggja það, að lán fáist til uppbyggingar í sveitunum, eða láta gjald af búvörunni til Bændahallarinnar, e.t.v. ekki til byggingar Bændahallarinnar, heldur e.t.v. miklu fremur til að borga taprekstur á þessu húsi.

Hv. 1. þm. Austf. verður að viðurkenna það, að hann setti ekki markið hátt, þegar hann var fjmrh. Hann passaði ríkiskassann, vildi hafa ballans á fjárl. og neitaði m.a. um það að hækka framlag til búnaðarsjóðanna úr 4 millj., eftir að vitað var, að þeir voru orðnir gjaldþrota. Þessi hv. þm. neitaði því einnig að setja hærra markið í ræktunarmálunum en sem miðast við 10 ha. 1957, þegar rætt var um aukinn stuðning til þeirra býla, sem skemmst voru á veg komin. Og það hefur verið minnt á það hér áður, að þegar aðrir töldu markið of lágt sett, þýddi ekki að vera að tala um óskalista að þessu sinni, heldur aðeins það, hvað væri fyrir hendi af peningum til þess að ráðstafa.

Það er áreiðanlegt, að það eru margir, sem taka eftir því nú, þegar hv. 1. þm. Austf, er að gera lítið úr þeim tveim frv. til aukinnar jarðræktar, sem hér hafa verið lögð fram af ríkisstj. Þessi frv. gera ráð fyrir útgjaldaaukningu hjá ríkissjóði, sem nemur 20 millj. kr. á ári. Frv., sem þessi hv. þm. var að tala um hér áðan, frv. til jarðræktarlaga, hefði aukið útgjöld ríkissjóðs um 15 millj. Það kom ekki að eins góðum notum og þau frv., sem nú hafa verið lögð fram. Það er betra fyrir landbúnaðinn að fá þessi frv. lögfest heldur en þetta margumrædda jarðræktarlagafrv., og það er eingöngu þess vegna, sem þessi stefna hefur verið tekin og þessi frv. lögð fram, þ. e. að ýta undir ræktunina, þar sem hún er skemmst komin, og þar eru smábýlin höfð helzt í huga, því að það liggur vitanlega mest á að auka ræktunina þar, sem hún er minnst. Það er um það að ræða hjá smábýlunum, sem litla ræktun hafa, annaðhvort að þau fari í eyði eða ræktunin verði aukin. Og ríkisstj. hefur tekið þá stefnu að koma í veg fyrir, að smábýlin fari í eyði, og ýta undir það, að ræktunin verði aukin þar og þær jarðir, sem eru í ábúð, verði ábúðarhæfar. Þetta munu bændur kunna að meta. Það eru 3800 jarðir, sem njóta góðs af þessum lögum, en það eru óneitanlega nokkur hundruð jarðir, eða á annað þúsund jarðir, sem eru komnar það langt með ræktunina, að þær fá ekki að sinni hækkaðan jarðræktarstyrk. Ég er þeirrar skoðunar, að þær jarðir eigi að fá hækkaðan jarðræktarstyrk, þegar tíma líða, en það er tvímælalaust meiri nauðsyn að ýta undir ræktunina á smábýlunum.

Hér var fyrir nokkrum dögum fundur með forustumönnum ræktunarsambandanna víðs vegar af landinu. 50–60 menn munu hafa mætt á þessum fundi, og tel ég það vel farið, að til slíks fundar var stofnað. Margir fundarmanna tóku til máls og lýstu sinni skoðun á ræktunarmálunum og á þessum frv., sem hér hafa verið lögð fram og eru til umr. Og það kom greinilega fram í umr. þessara forustumanna ræktunarmálanna, að nú mundi koma fjörkippur í ræktunina í landinu. Það væri enginn vafi á því, að þessi frv. mundu verða til þess, að ræktunin mundi stóraukast strax á þessu ári. Þá er tilganginum náð. Og þessir forustumenn ræktunarmálanna lýstu ekki óánægju sinni yfir því, að sú stefna hefur verið tekin, sem hér er um að ræða, að koma ræktuninni á öllum byggðum jörðum upp í a.m.k. 25 ha. Sú skoðun mun hafa verið ráðandi á þessum fundi, að þetta væri það, sem brýnasta nauðsyn bæri til að stefna að, þótt vitanlega bæri að stefna að aukinni ræktun á sem flestum sviðum.

Ég geri ráð fyrir því, að hv. 1. þm. Austf., –og má vel vera, að hann hafi þegar sagt það hér, — vilji halda því fram, að frv. um stofnlánadeildina og 25 ha. markið út af fyrir sig sé ekki að lasta, en hitt jarðræktarfrv. hefði átt að fylgja í heild. Það væri alveg eftir honum að segja það, og það væri þá alveg í samræmi við stórhug þessa hv. þm., þegar hann er ekki í ríkisstj. og þarf ekki að útvega fjármuni til framkvæmdanna. En ég veit, að flestir hv. þm. skilja, að það verður ekki gert allt í einu, og þegar mþn. samþykkti frv. til jarðræktarlaga, sem gerði ráð fyrir 15 millj. kr. útgjöldum á ári, reiknaði mþn. ekki með því, að 25 ha. takmarkið yrði einnig sett og aukinn ræktunarstyrkur á jarðir, sem hefðu tún undir því marki.

Bændur og þeir, sem fylgjast með ræktunarmálum og hagsmunamálum bændanna, eru samþykkir því, að þetta sé betra en þótt jarðræktarlagafrv. hefði verið flutt. Og það er áreiðanlegt, að hv. 1. þm. Austf. talar ekki í umboði meiri hl. bænda, þegar hann er að gera lítið úr því, sem hér hefur verið flutt fram, og telja, að annað hefði verið betra og jafnvel þetta látið vera. Hv. þm. var að tala hér um, að það hefði aukizt kostnaður við byggingar í sveitum, vélakaup og annað. Þetta vita vitanlega allir hv. þm., allir, sem hlusta á þessar umr. En spursmálið er þetta: Hefur rekstrarkostnaðurinn hækkað meira, hefur byggingarkostnaðurinn hækkað meira en það, sem bændum hefur verið gefinn kostur á að fá til viðbótar því, sem áður fékkst, vegna dýrtíðarinnar? Og ef menn ætla að gera sér grein fyrir þessu, verður að vera ljóst, hvað byggingarkostnaðurinn hefur aukizt, og þá verður byggingarvísitalan, sem við höfum, þar til hliðsjónar, og ég ætla, að byggingarvísitalan muni vera nú nálægt 50 stigum. Ég vil ekki fullyrða, hvort hún hefur farið rétt undir eða rétt yfir. Og ef við viljum gera okkur grein fyrir því, hvernig er með vélakaupin, þá hygg ég, eftir að tollarnir voru lækkaðir á vélunum s.l. vetur, að það muni vera milli 50 og 60% hækkun á vélum frá því 1958 og eins og var á s.l. ári. Þá er spurningin þessi: Hvaða ráð hafa bændur til þess að mæta þessum hækkunum? Og þá er að gera sér grein fyrir því, hver hækkunin hefur orðið á framleiðsluvörum landbúnaðarins. Það var tekið fram hér, þegar rætt var um þessi mál síðast, hver sú hækkun var, að sauðfjárafurðir hafi hækkað um 77% og mjólkurafurðir um nálægt 50%, og reyndar er þessi hækkun meiri en hér er nefnt, vegna þess að 1958 fengu bændur ekki það verð, sem skráð var í grundvellinum, eins og alkunnugt er, og það vantaði frá 7 og upp í 10% á verðið, vegna þess að bændur fengu ekki bætt það tjón, sem þeir urðu fyrir, þegar landbúnaðarvörur voru seldar úr landi fyrir lægra verð en markaðsverðið innanlands.

Það var mikið um það rætt á búnaðarþingi 1957 og 1958, hvernig bregðast ætti við þessum vanda, að bændur þurftu að bera tapið af útflutningnum. Og eina ráðið, sem þá var fyrir hendi, og það ráð gaf þáv. ríkisstj., var að miða framleiðsluna eingöngu við innanlandsmarkaðinn, draga úr framleiðslunni. Það var ekki undarlegt, þótt búnaðarþing eyddi miklu af sínum tíma í umr. um þetta mál 1957 og 1958. Einhverjum datt í hug, að e.t.v. gæti ríkissjóður tekið að sér að borga þennan halla, og ég býst við, að það hafi verið talað við hv. 1. þm. Austf., þáv. fjmrh. En víst var það, að búnaðarþing fékk engin ráð til lausnar á þessu önnur en þau að draga úr framleiðslunni, og það var gert með þeim árangri, að það varð að flytja inn smjör í ársbyrjun 1960. Bændur voru sammála um, að það væri tilgangslaust að vera að framleiða meiri mjólk en svo, að hún seldist öll í landinu, því að það lækkaði meðalverðið. Fjmrh. neitaði að opna ríkiskassann til þess að koma til móts við bændur og rétta þeirra hlut. Framleiðslan dróst saman. Það, sem síðan hefur gerzt, er öllum kunnugt, að ríkissjóður borgar þann halla, sem verður á útfluttum landbúnaðarvörum, og bændur hafa aukið framleiðsluna síðan. Í staðinn fyrir það að flytja inn smjör, vegna þess að mjólkurafurðir vantaði í landinu, stendur til að flytja út 250 tonn af smjöri á þessu ári. Og nú spyr ég: Dettur nokkrum manni í hug, að þetta hefði verið gert, ef hv. 1. þm. Austf. hefði verið við kassann? Mundi ekki bændur enn vanta 10–15% á grundvallarverðið, ef þeir ættu að bera hallann af útflutningnum eða hefðu þeir tekið þann kostinn að halda áfram að draga saman seglin og hafa hér skort á landbúnaðarvörum, eins og farið var að brydda á um það leyti, sem vinstri stjórnin gafst upp? Það hefði verið mikil óheillaþróun, ef sú stefna hefði verið ráðandi lengur, að bændur hefðu dregið saman seglin. En líklega var það óhjákvæmilegt, ef ríkissjóður hefði ekki komið til móts við bændur og tryggt þeim þannig fullt verð fyrir allar afurðirnar. Og það er gert ráð fyrir, að á þessu verðlagsári muni útflutningsuppbætur verða 130 millj. kr. Þessar 130 millj. hefði bændur vantað upp á verðlagið, ef þeir hefðu þurft að flytja út vörur eins og nú, ef hv. 1. þm. Austf. hefði passað kassann og gætt hans eins vel og hann gerði 1958, þegar búnaðarþingsfulltrúarnir gengu á hans fund.

Hv. þm. talar um afurðalánin, og hefur mikið verið rætt um þau í vetur. Það er rétt, að afurðalánin eru nú 55%, en voru áður 67%. Afurðalán til landbúnaðarins eru hin sömu og til sjávarútvegsins, en bændum hefur verið borgað út á afurðirnar eins fljótt og eins mikið og áður, og það er vegna þess, að í viðbót við afurðalán Seðlabankans lána viðskiptabankarnir það mikið, að útborgunin þarf ekki að lækka til bændanna eða dragast lengur en áður var. Nú er að því stefnt að auka afurðalánin frá Seðlabankanum, og víst hafa afurðalán til landbúnaðarins aukizt mikið á einu ári. Þannig var það 1962, að afurðalán til landbúnaðarins urðu þá mest 294 millj., en urðu á s.l. ári í nóvemberlok 383 millj., eða 89 millj. kr. hærri. Ég hef oft látið þá skoðun mína í ljós við hv. 1. þm. Austf. og aðra, að ég teldi æskilegt, að afurðalánin gætu hækkað, og ég vil, að að því verði unnið. Ég tel eðlilegt, að bændur geti fengið strax allt að 90% út á afurðirnar, og það beri að stefna að því. Ég tel hins vegar ekki fært að borga bændum, jafnvel þótt fé væri fáanlegt, 100%, eins og hér hefur verið gerð till. um, einfaldlega vegna þess, að vörurnar eru teknar í umboðssölu, og það mundi enginn, sem tekur vörur í umboðssölu, fást til þess að borga 100% út strax við móttöku. Þetta er eitt af þeim verkefnum, sem eru fram undan og ber að vinna að, og ég tel, að það muni stefna í rétta átt með það og vinnast smátt og smátt. Fyrirframlánin, sem hv. 1. þm. Austf. talaði um hér áðan, það er alveg rétt, sem hann sagði um það, að þau hafa staðið í stað og hafa ekki verið hækkuð. Það er vitanlega til athugunar, hvort það getur orðið. En það hefur áður verið lýst hér, hvernig á því stendur, að Seðlabankinn veitir ekki hærri lán en 55%. Það er vegna þess, að Seðlabankinn hefur ekki meira fjármagni yfir að ráða en þetta, þar sem Seðlabankinn þarf að hafa fé, sem nemur jafnmikilli upphæð og þau lán, sem eru úti hjá honum, og gjaldeyrisvarasjóðurinn.

Hv. 1. þm. Austf. var að tala um verðlagningu búvaranna hér áðan og vildi jafnvel gefa í skyn, að verðlagsgrundvöllurinn hefði skekkzt. E.t.v. hef ég heyrt skakkt, en mér heyrðist hann segja, að verðgrundvöllurinn hefði skekkzt nú síðasta ár. Ég tel, að ef hann hefur sagt það, hafi það verið mismæli hjá honum. Það getur ekki verið, að hann ætli að halda því fram, því að allir, sem þekkja til þessara mála, eru samþykkir því, að verðgrundvöllurinn hafi verið leiðréttur mjög mikið, allir, sem þekkja til þessara mála, vita, að verðgrundvöllurinn hefur verið leiðréttur mjög mikið, þótt enn séu skekkjur í honum, sem þarf að leiðrétta. Og það hefur verið spurt að því, hvernig á því standi, að það eru skekkjur í verðgrundvellinum. Verðgrundvöllurinn var myndaður fyrst með sex manna nefndar lögunum frá 1943 og aftur endurskoðaður með framleiðsluráðslögunum 1947. Það gæti ekki verið skekkja í verðlagsgrundvellinum nema af því, að þær hefðu verið myndaðar einhvern tíma, og ég held, að ég hafi minnt hv. 1. þm. Austf. á það fyrir ekki alllöngu, hvenær stærsta skekkjan var mynduð. Það var haustið 1957, þegar landbúnaðarvörurnar voru hækkaðar um 1.88%, þegar þessi hv. þm, var fjmrh., eftir að kaupgjaldið hafði verið hækkað um 11–12%, en annar rekstrarkostnaður landbúnaðarins hækkað um allt að 20%. Það var þá, sem var mynduð skekkja, og það er þessi skekkja meðal annarra, sem nú hefur verið leiðrétt haustið 1962 og aftur á s.l. hausti. Og ég segi það aftur: ég vona, að hv. 1. þm. Austf. hafi sagt þetta af misgáningi áðan, að það hafi myndazt skekkja í verðlagsgrundvellinum nú í seinni tíð, ef hann hefur sagt það, því að hafi hann sagt það, speglar það svo mikla vanþekkingu á þessum málum, að það er ekki leyfilegt fyrir hann að tala um þau, ef hann veit ekki betur.

Hv. þm. talaði hér um frv., sem stjórn Stéttarsambandsins hafði sent mér og óskað eftir því, að ég flytti. Ég lýsti því við setningu búnaðarþingsins, að ég hafði látið stjórn Stéttarsambandsins vita, að ég mundi ekki flytja þetta frv. Og það er eingöngu vegna þess, að eftir að ég hafði lesið frv. og kynnt mér það vel, sannfærðist ég um, að það væri ekki bændum til hagnaðar að fá það flutt. Ég hef hins vegar sagt stjórn Stéttarsambandsins, að ef frv. kemur inn í þingið, verða um það umr., þá geta menn speglað sig í því og áttað sig á því, hvað er til vinnings og hvað er til taps. Og ef hv. 1. þm. Austf. hefur lesið þetta frv., sem ég býst nú varla við að hann hafi gert enn, en hann ætti að gera, hann ætti að taka frv. og lesa það og gera sér grein fyrir því, hvort það er til hags fyrir bændur að fá það flutt. Og hvernig stendur á því, að stjórn Stéttarsambandsins hefur ekki komið frv. inn í þingið enn þá, því að það var í nóvembermánuði, sem ég lét stjórn Stéttarsambandsins vita, að ég var ófáanlegur til þess að flytja frv.? Og ég er tilbúinn, hvar og hvenær sem er, að gera grein fyrir því. En ég ætla nú ekki að fara að ræða þetta frv., ég ætla að bíða með það, þangað til það kemur hér inn í þingið, því að mér þykir líklegt, að hv. 1. þm. Austf. taki að sér að flytja það, ef hann telur, að það sé svo mikils virði sem hann var að gefa hér í skyn áðan.

Ég held, að það sé nú ekki ástæða til að taka lengri tíma í að svara hv. 1. þm. Austf. Hann hefur gert þetta mál að umtalsefni, og ég reikna með því, að það hefði staðið á sama, hvernig frv. um breytingu á jarðræktarlögunum og stofnlánadeildinni hefði verið, þá hefði þessi hv. þm. reynt að koma með yfirboð, og hv. 5. þm. Austf. hefur nú flutt þarna brtt., það hafði verið talsverð keppni um það, hvor gæti orðið á undan. Hv. 5. þm. Austf. varð á undan með till., og kannske er það vegna þess, sem hv. 1. þm. Austf. vill nú láta að sér kveða hér í umr. En það verður ekki hv. 1. þm. Austf. eða hans flokki til framdráttar að koma með öllu meiri öfgar og fjarstæður en fram hafa verið dregnar nú þegar.