17.02.1964
Neðri deild: 57. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

131. mál, jarðræktarlög

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Eins og vænta mátti, gat hæstv. ráðh. ekki í þessu langa máli, sem hann flutti hér áðan, hnekkt neinu af því, sem ég hafði sagt um samanburð á því, hvernig búið var að landbúnaðinum, þegar ég hafði, eins og hann kallaði það, sjálfur ríkiskassann, og hvernig búið er að honum nú. En hann gerði dálitla tilraun til þess að draga athyglina frá aðalatriðunum í því sambandi, og það var allt og sumt, sem hann aðhafðist allan þann langa tíma, sem hann stóð hér í ræðustólnum.

Í fyrsta lagi hélt ég því fram, og um það þarf ekkert að deila, að bændur búa nú við meira en 50% óhagstæðari vexti á aðallánum sínum en áður var. Þetta neyddist hæstv. ráðh. til að játa. í annan stað neyddist hæstv. ráðh. vitaskuld til að játa, að til þess að fá þessi verri lánskjör nú verða bændur að borga sérstakan skatt af tekjum sínum, sem áður kom ekki til greina. Allt þetta stendur fast þrátt fyrir þessa löngu ræðu hæstv. ráðh. til að reyna að draga athyglina frá þessu. En hann reyndi að gera það með því að halda því fram, að bændur fengju tiltölulega meiri lán úr ræktunarsjóði en áður var. En þetta veit hæstv. ráðh., að er rangt. Það er ekki lánað meira tiltölulega nú úr ræktunarsjóði en áður var. Og hæstv. ráðh. veit líka, að það er rangt, að bændur hafi áður orðið að bíða árum saman eftir lánum úr ræktunarsjóði. Sá háttur var á kominn að útvega ræktunarsjóðnum það, sem þurfti, til þess að hann gæti fullnægt eftirspurninni eftir lánum. Þannig var þetta, hvað sem hæstv. ráðh. segir um það nú. Það er því alger fjarstæða, að menn þurfi minna á víxlum að halda nú en áður og þar komi eitthvað á móti til þess að bera þennan hærri vaxtakostnað á föstu lánunum. Ég hugsa, að það séu engar ýkjur að segja, að það þurfi á mun meiri víxlum og lausalánum að halda nú en nokkru sinni fyrr til þess að byggja upp í landbúnaðinum. Það mun vera sönnu næst, þó að hæstv. ráðh. láti sér sæma að halda því fram, að menn muni nú þurfa minna af lausalánum til þess að byggja upp í landbúnaðinum en áður var.

Þá er það náttúrlega hneyksli að heyra hæstv. ráðh. halda fram, að það sé allt í einu orðið ómögulegt að sjá lánasjóðum Búnaðarbankans fyrir peningum, nema með því að skattleggja bændur sérstaklega. Það var þó gert áður, þeim var séð fyrir peningum án þess að skattleggja bændur sérstaklega. Og þessi saga um gjaldþrot landbúnaðarsjóðanna er ekkert annað en þjóðsaga. Ef núv. ríkisstj. hefði látið ríkissjóð standa við það, sem hann átti að gera í sambandi við gengistöpin, sem urðu, stóðu þessir sjóðir vel, og það var enginn vandi að útvega þeim fjármagn þessi árin umfram það, sem áður hafði verið.

Þeir, sem kunnugir eru þessum málum, geta gert sér í hugarlund, hvort það mundi hafa verið meira átak nú þjóðfélagslega séð að sjá bændum fyrir þessum hagstæðu lánum heldur en áður var, miðað við þjóðartekjurnar á þessum uppgripaárum, sem verið hafa nú. En á þessum uppgripaárum hefur þannig verið hallað á bændastéttina í þessu tilliti, að vextirnir hafa verið hækkaðir um 50% og innleiddur sérstakur skattur á þá í sambandi við lánin. Áður var reynt að byggja upp lánakerfið vegna bændanna sjálfra og til þjónustu við þá, en núna virðist það vera aðalmarkmiðið, að bændur byggi lánakerfið upp sjálfir til þess að hlífa ríkiskassanum við útgjöldum, og því eru nú gjöldin lögð á bændurna sjálfa, þeir látnir lána sjálfum sér.

Hæstv. ráðh. sagði, að bændur væru farnir að finna fyrir þeirri breytingu, sem hefði orðið í lánamálunum. Það er víst alveg áreiðanlegt. Það eru ekki neinar ýkjur í þessu hjá hæstv. ráðh. Þeir eru sannarlega farnir að finna fyrir því, og a.m.k. þeir, sem eru að byggja upp á jörðunum sínum núna, finna meira en lítið fyrir því. En bara ekki á þá lund, sem hæstv. ráðh. vildi vera láta, því að ég hugsa, að það sé öllu þyngra að borga 6% en 3½% og líka nokkuð þyngra að borga 6% en 4% — og svo skattinn að auki.

Þá sagði hæstv. ráðh., að þetta væri svo léttbært fyrir menn núna, vegna þess að nú hefðu menn fengið þetta allt svo rækilega sett inn í verðlagsgrundvöllinn, að manni skildist. Það væru eiginlega aðrir, sem væru farnir að borga vextina. En hvernig er ástatt um verðlagsgrundvöllinn í því sambandi? Ég vil biðja hann að taka eftir því, að það er gert ráð fyrir því í verðlagsgrundvellinum, að meðalbóndinn skuldi 111500 kr. Hvernig haida menn, að það sé í samræmi við raunveruleikann hjá þeim, sem nú þurfa að koma fyrir sig búi, að gera ráð fyrir því, að meðalbóndinn skuldi 112500 kr.? Og vextir af ræktunarsjóðslánum eru reiknaðir á 4.7% í grundvellinum, en ekki 6%, eins og þeir raunverulega eru.

Hvernig halda menn, að þetta taki sig út fyrir ungu bændurna og þá, sem eru að taka við, að eiga að búa við þetta? Og svo kemur hæstv. ráðh. og státar af því, að menn eigi nú auðveldara með að þola hærri vextina, vegna þess að þeir séu svo rækilega teknir inn í verðlagsgrundvöllinn. En það er í verðlagsgrundvellinum, segi ég og skrifa, gert ráð fyrir 111500 kr. skuld. Það er eins og tekið er núna út á eitt lítið útihús.

Síðan kemur hæstv. ráðh. og segir, að það komi hér þm., sem tali eins og álfar út úr hól um það, að verðlagsgrundvöllurinn hafi skekkzt. Ja, þvílíkt hneyksli að tala um, að verðlagsgrundvöllurinn hafi skekkzt. Verðlagsgrundvöllurinn hefur auðvitað rammskekkzt við þá geysilegu verðlagsbyltingu og byltingu í fjármagnskostnaði, sem orðið hefur á undanförnum árum, þannig að hann hefur aldrei verið skakkari en nú. En hvað segja menn um, þegar gert er ráð fyrir því, að fyrningarafskriftir af vélum séu miðaðar núna við 80 þús. kr.? Það er ekki gert ráð fyrir, að á meðalbúi sé einn traktor. Og eftir því sem stofnkostnaðurinn og fjármagnskostnaðurinn vex, eftir því skekkist verðlagsgrundvöllurinn meira, ef ekki er fullt tillit tekið til breytinganna í honum sjálfum.

Ég óttast, að hæstv. ráðh. hafi alls ekki gert sér grein fyrir því, hvað hér hefur raunverulega skeð. Það, sem hér hefur raunverulega skeð, er það, að þó að Stéttarsambandið, sem ekkert er honum að þakka vitaskuld, hafi getað barið fram einstaka leiðréttingu á verðlagsgrundvellinum og einstökum liðum í glímu sinni við neytendurna, þá hefur verðlagsbyltingin, sem orðið hefur í landinu, grafið undan verðlagsgrundvelli landbúnaðarins, það er m.a. þess vegna, sem hann alls ekki getur staðizt, þess vegna ekki sízt. Enda veit ég, að hæstv. ráðh. er þetta náttúrlega vel ljóst. Honum er það auðvitað vel ljóst, að þessar skuldatölur og þessar stofnkostnaðartölur og þessir kostnaðarliðir, sem settir eru núna inn í verðlagsgrundvöllinn vegna fjármagnskostnaðar og vegna uppbyggingarinnar, eru ekki í neinu samræmi við raunveruleikann, og þeir skekkjast óðfluga, eftir því sem óðadýrtíðin vex og stofnkostnaðurinn, og þetta er auðvitað alvarlegasta vandamálið.

Ég hef aldrei haldið því fram, að verðlagsgrundvöllurinn, sem orðið hefur niðurstaðan á viðureign fulltrúa frá neytendum og framleiðendum, hafi á undanförnum árum verið sá rétti. Mér hefur aldrei dottið í hug að halda því fram, þó að hæstv. ráðh. tali eins og ég hafi gert það. Mér er fullkomlega ljóst, að það hefur aldrei náðst það, sem kalla mætti rétta niðurstöðu. En hinu ætla ég að halda fram, að skekkjurnar í þessu hafi farið versnandi. Þó að leiðréttir hafi verið einstakir liðir í þessari glímu, hefur þróunin grafið jafnóðum undan enn örara, og þróunin stafar af þeirri dýrtíðar- og verðbólgustefnu, sem hæstv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir. Það er þess vegna algerlega ljóst, og hæstv. ráðh. kemst ekki undan því, að varðandi lánakjörin hefur þessu verið kippt aftur á bak til stórtjóns fyrir landbúnaðinn og verðlagsgrundvöllurinn versnað frá því, sem áður var, og dugir þar ekkert yfirklór.

Í annan stað hefur hæstv. ráðh. vitaskuld orðið að játa það með þögninni, að bein framlög samkv. jarðræktarlögunum hafa farið lækkandi ár frá ári, og hæstv. ráðh. fæst ekki til þess enn að gera annað en slíta út úr einstaka liði í jarðræktarlögunum, en láta framlögin halda áfram að lækka á öllum hinum liðunum. Þetta hefur hæstv. ráðh. orðið að játa með þögninni og kemst ekki fram hjá því.

Ráðh. segir, að ég tali ekki hér í umboði meiri hluta bænda, þegar ég er að gagnrýna þetta. Ég veit ekki, hvar hæstv. ráðh. hefur haldið sig, ef hann hefur ekki orðið þess var, að bændur yfirleitt vilja ekki sætta sig við það, að framlög til þýðingarmestu uppbyggingar í landbúnaðinum fari lækkandi ár frá ári. Þeir benda á, að það er lífsnauðsyn að hækka þessi framlög, og það eru uppi till. um það, sem hæstv, ráðh. fæst ekki til að taka til greina nema að sáralitlu leyti. Og í fyrra vildi hæstv. ráðh. ekki ganga lengra en það að fara með markið í sambandi við smærri túnin upp í 25 ha. Hæstv. ráðh. vildi ekki ganga lengra í fyrra, og það er eingöngu vegna þess, að Framsfl. hefur hamrað á 25 ha. hámarkinu, að ráðh. — mér liggur við að segja dragnast til þess að bæta sig á þessu nú í ár.

Baráttunni verður haldið áfram fyrir þessum málum, og það gengur allt of hægt að fá fram leiðréttingarnar. Og það er alveg óhætt að fullyrða, að ég tala fyllilega í umboði bænda yfirleitt, þegar ég krefst þess, að það verði líka gerðar leiðréttingar á öðrum liðum jarðræktarlaganna. Og bændur láta sér ekki nægja hártoganir og útúrsnúning hæstv. ráðh. í þessu sambandi.

Ég vil svo segja út af afurðalánunum, að það er auðvitað ekkert annað en hótfyndni hjá hæstv. ráðh., að Seðlabankinn hafi ekki fjármagn til þess að lána út á landbúnaðarafurðir fullkomlega eins og áður. Það var hægt áður að lána 67% út á landbúnaðarafurðir, og fyrirframlánin voru miðuð við þann sama grundvöll. Þetta hefur verið dregið saman, og fyrir bragðið eru margar þær stofnanir, sem eiga að sjá um þýðingarmestu þjónustuna fyrir bændur, mjög lamaðar orðnar og eiga erfitt með að annast þessa þjónustu, t.d. innkaup á rekstrarvörum og annað slíkt, eins og hæstv. ráðh. mætavel veit. Það er auðvitað ekkert annað en fjarstæða að halda því fram, að Seðlabankinn geti ekki nú eins og áður innt þessar skyldur af hendi. Það getur hann fullkomlega. Það þýðir ekkert í því sambandi að vera að koma með þessar kenningar um ofþensluhættu, því að það var rækilega sýnt fram á það hér í sambandi við umr, um Seðlabankann, að dýrtíðarvöxturinn hefur orðið miklu meiri, síðan nýja lánastefnan var tekin upp, heldur en var áður, þannig að því fer alls fjarri, að þessi stefna að draga saman rekstrarlánin til atvinnuveganna hafi haft þau áhrif, sem þeir töldu hana eiga að hafa, sem fyrir henni beittu sér.

En núna er þannig ástatt í þessum efnum, að atvinnuvegirnir bæði til lands og sjávar eru lamaðir af rekstrarfjárskorti, af því að ríkisstj. beitir samdrættinum í lánamálunum. Þeir eru lamaðir af rekstrarfjárskorti og njóta sín ekki. Það hefur áhrif og minnkar framleiðsluna bæði til sjávar og sveita, en ofþenslan heldur áfram eftir sem áður. En það eru bara allt önnur verkefni, sem fjármunirnir eru látnir í, en þau, sem greiða fyrir rekstri framleiðslunnar, allt önnur verkefni. Samdrátturinn, sem ríkisstj. beitir sér fyrir, kemur fram í því, að undirstöðuatvinnuvegirnir eru lamaðir fyrir féleysi og rekstrarfjárskort, en aðrir geta farið sínu fram. Það sjáum við á því, sem er að gerast í kringum okkur. Og alveg eins er þetta í sambandi við framlögin til uppbyggingar í landbúnaðinum. Þau hafa verið látin dragast saman ár frá ári, einstakir liðir teknir og leiðréttir, þegar búið er að halda uppi harðri baráttu langa hríð, en framlögin í heild látin fara lækkandi, enda þótt ríkissjóður safni stórfé af rekstrar- og greiðsluafgöngum. Hæstv. ráðh. getur ekki borið við fjárskorti, þegar hann vill ekki leiðrétta jarðræktarlögin. Það getur hann ekki, því að það er nægilegt fjármagn til, 160 millj. kr. greiðsluafgangur 1962, stórkostlegur greiðsluafgangur 1963, fyrirsjáanlegar alveg gífurlegar umframtekjur á þessu ári, svo framarlega sem ekki verða einhver stóráföll í atvinnurekstrinum, svo að hæstv. ráðh. getur ekki borið við fjárskorti. Á hverju stendur? Hvers vegna eru þá ekki leiðrétt jarðræktarlögin? Hvers vegna eru þá ekki aukin framlögin til uppbyggingar í sveitunum, ef þessir menn meina eitthvað með því, sem þeir segja um, að þeir vilji vinna að því að stækka stærri búin? Þeir geta ekki borið við fjárskorti í þessu sambandi. Það er ekki hægt.

Að lokum varðandi afurðasölulöggjöfina. Hæstv. ráðh. segist ekki vilja flytja frv., sem Stéttarsambandið hefur beðið hann fyrir. Hann um það. En varðandi flutning á því máli er það alveg fullvíst, að málið verður flutt hér í þinginu, ef stjórn Stéttarsambandsins vill láta flytja það. Mér er sagt, að það hafi verið farið fram á það við landbn. Nd. að flytja það mál. Ég veit ekki, hvort það hefur endanlega verið gert upp í n. eða hvort stjórn Stéttarsambandsins bíður eftir svari þaðan eða ekki. Mér er það ekki kunnugt. En hitt er augljóst mál, að það verður áreiðanlega enginn vandi að fá flm. að því máli, ef stjórn Stéttarsambandsins telur rétt, að það verði flutt í þinginu, þrátt fyrir neitun hæstv. ráðh. um að flytja það. Það er vitanlega mál, sem stjórn Stéttarsambandsins verður að gera upp við sig, því að ég geri ráð fyrir því, að neitun hæstv. ráðh. á því að flytja þetta mál þýði það, að stjórnarflokkarnir séu á móti málinu. Þá verður stjórn Stéttarsambandsins að gera það upp við sig, hvort hún leitar til annarra um flutning á málinu nú eða ekki.