17.02.1964
Neðri deild: 57. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

131. mál, jarðræktarlög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. endaði ræðu sína hér áðan ákaflega skemmtilega, finnst mér. Hann segir, að vinstri stjórnin hafi lánað bændastéttinni miklu meira en hún hafi getað, og þetta kalla ég góðan hug í garð bændanna. Annars ætlaði ég aðeins að spyrja hæstv. ráðh., hvort hann hefði ekki eitthvað misreiknað sig, þegar hann var að tala um hækkunina á landbúnaðarafurðunum. Mig minnir, að hann segði, að þær hefðu hækkað um 77% frá 1958. Er það ekki rétt munað? (Gripið fram í: Jú, sauðfjárafurðir.) Nei, hann sagði landbúnaðarafurðir. Á að fara að flokka það í tvennt núna? Ég heyrði ekki, að hæstv. ráðh. flokkaði það neitt, heldur hefðu landbúnaðarafurðirnar hækkað um 77%. Nú stendur í verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða frá 1958, að kjötkg er reiknað á 22.20, en s.l. haust 36.10. Mismunurinn er 13.90. Ekki get ég fengið nein 77% út úr þessu og ekki neitt nálægt því. Ég fæ út 62%. Hæstv. ráðh. getur athugað, hvort ég hef reiknað rangt.

Í verðlagsgrundvellinum var mjólk reiknuð á 3.92 kr. haustið 1958, en 6.19 kr. s.l. haust. Ekki fæ ég 77% út úr þessu. Ég fæ ekki einu sinni 60% út úr þessu. (Gripið fram í.) Hv. þm. hefur reiknað það 57.91, það munar nú svo litlu. Hvernig getur þá hæstv. ráðh. fengið þessi 77% út. Er það ekki þannig, að hann taki heildartöluna af afurðunum eins og þær eru reiknaðar, en þá er búið að koma inn í dæmið allri aukningu á framleiðslunni, stækkun búanna, og það er ekki venjuleg verðhækkun á vöru. Eða mundi nokkur sjómaður kalla það verðhækkun á fiski, þó að hann kæmi með helmingi fleiri tonn að landi þennan daginn en hinn?

Hæstv. ráðh. talaði um, að byggingarkostnaður mundi hafa hækkað um 50% frá 1958, og það er mjög nálægt sanni. En hann sagði annað. Hann sagði, að vélarnar mundu líka hafa hækkað um 50%. Ég veit ekki betur en algeng dráttarvél hafi kostað fyrir 5 árum kringum 51–53 þús. kr., en ég er búinn að sjá reikning yfir eina núna fyrir 8 dögum, hún kostaði 93 þús. Ég held, að landbúnaðarvélar hafi hækkað um 85–90% a.m.k. En svo komst hann að þeirri niðurstöðu, að því er mér virtist, að ef vélar og byggingar hækki ekki nema um 50% og afurðir bænda hækki t.d. um 50% líka, þá sé allt í himnalagi, þá sé ekki undan neinu að kvarta, — ef hvort tveggja hækkar um jafnmörg prósent, þá þurfi bændurnir ekki að vera að kvarta. En dæmið er ekki svona einfalt. Ég skal nefna eitt til skýringar og fer þá eftir byggingarvísitölunni, sem hæstv. ráðh. nefndi og er rétt. Ef bóndi hefur byggt 300 kinda fjárhús 1958, ætti það að hafa kostað um 255 þús., eftir því sem Teiknistofa landbúnaðarins skýrir frá, en núna 382 þús. Það er 50% hærra. Ef lánin hafa verið 55% bæði þessi ár, þá hefur eigið framlag bóndans verið 115 þús. kr. í þetta fjárhús fyrir 5 árum, en núna 192 þús. kr. Hann varð að leggja fram úr eigin vasa 77 þús. kr. meira en fyrir 5 árum til þess að geta byggt yfir kindurnar sínar. Svona eru nú horfurnar fyrir þá, sem ætla t.d. að fara að búa. Ég skal taka 20 kúa fjós með tilheyrandi byggingum eins og fjárhús. Það mun hafa kostað um 320 þús. fyrir 5 árum, en um 480 þús. núna. Bóndinn þarf að leggja fram 72 þús. kr. meira úr eigin vasa til þess að geta byggt yfir kýrnar.

Hæstv. ráðh. segir, að vextirnir séu ekkert óhagkvæmir bændunum. Hvað hafa þeir hækkað? Ekki um 50% eins og hæstv. ráðh. sagði, þeir hafa hækkað um 62½%. Þegar 4% hækka upp í 6½%, þá er það 62½%. Hann má til með að reyna að hafa þessar tölur réttar. Bóndinn, sem byggði 20 kúa fjósið sitt, hefur fengið 176 þús. kr. lán fyrir 5 árum og þurfti að borga í vexti, eins og vextirnir voru þá, rúmar 7 þús. kr. En hvað þarf hann að borga núna af láninu í jafnstórt fjós? Af 264 þús. kr. láni, það er 55% af byggingarkostnaðinum, þarf hann að borga núna 17160 kr., eða um 10120 kr. meira, bara í vaxtahækkun af þessu eina fjósi. Ætli saxist ekki eitthvað á afurðaverðið, þegar dæmið er reiknað alveg? Nei, það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, að horfurnar fyrir unga menn til að reisa núna bú eru þannig, að engum óvitlausum manni dettur það í hug, svo er nú komið.