18.02.1964
Neðri deild: 58. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

131. mál, jarðræktarlög

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég á ekki eftir nema örstutta aths. og ætla að ljúka henni nú og ekki taka fyrir nein ný atriði. En ég vil aðeins segja þetta:

Hæstv. landbrh. komst þannig að orði í síðustu ræðu sinni, að það, sem mestu máli skipti, væri, að það miðaði áfram í landbúnaðarmálunum, og þá á hann vafalaust við líka í landbúnaðarlöggjöfinni. Mín síðustu orð í þessum umr. verða þau, að það, sem er einmitt höfuðatriðið nú, er, að það miðar ekki áfram, heldur hefur hæstv. ráðh. gengið aftur á bak í þessum málum, eins og hefur verið sýnt fram á í þessum umr. Og þetta er kjarni málsins. Það hefur verið gengið aftur á bak undir forustu hæstv. ráðh. í lánamálum landbúnaðarins, þannig að lán til stofnkostnaðar eru stórum dýrari en áður, og í búbót fylgir svo sérstakur skattur til þess að fá þessi hærri lán. Þetta er að ganga aftur á bak, en ekki áfram. Jarðræktarframlög hafa farið lækkandi óðfluga ár frá ári undir forustu þessa hæstv. ráðh. samkv. jarðræktarl., sem ekki er hægt að mótmæla og allir þekkja, sem um þessi mál fjalla. Þannig hefur einnig verið gengið aftur á bak undir forustu þessa hæstv. ráðh. í því, að það hefur verið dregið úr framlögum ríkisins til uppbyggingar í landbúnaðinum. Þetta er ekki að ganga fram, þetta er ekki að sækja fram, þetta er að ganga aftur á bak. Þetta heitir ekki, að málum miði áfram. Og það er alveg sama, hversu lengi hæstv. ráðh. stendur hér og bætir við nýjum vífilengjum um einstök atriði, sem ekki koma þessum meginkjarna við. Í þessum höfuðmálum hefur verið gengið aftur á bak, og m.a. þess vegna er nú ástandið í landbúnaðinum eins og það er. Sem sé þannig, að skrum hæstv. ráðh. um heppilegt ástand í landbúnaðinum hljómar eins og storkun í eyrum þeirra, sem þekkja til þeirra mála.

Það hefur líka miðað aftur á bak um afurðalán landbúnaðarins, sem hæstv. ráðh. hefur orðið að játa, þannig að það hefur verið stórminnkað, sem lánað er út á afurðir bændanna, og það svo, að þau mál eru komin í mjög slæman hnút ofan á allt annað.

Hæstv. ráðh. talaði í því sambandi um gjaldeyrisvarasjóðinn. Heldur hæstv. ráðh., að það auki gjaldeyrisvarasjóðinn að klemma þannig að landbúnaðinum, að landbúnaðarframleiðslan bíði stórkostlegan hnekki? Nei, ég held, að hæstv. ráðherra sé óhætt að gera sér grein fyrir því, að það eflir ekki gjaldeyrisvarasjóðinn að haga þannig rekstrarlánaveitingum til landbúnaðarins. Það verður því að endurskoða það sjónarmið, að það sé einhver sérstakur búhnykkur vegna gjaldeyrisvarasjóðsins að draga sem allra mest saman rekstrarlán til landbúnaðarins.

Ég skal ekki brjóta af mér við hæstv. forseta og læt því þessa aths. duga. En það undarlega við ástand hæstv. landbrh. og hans málflutning og framkomu er það m. a., að þegar hann hefur stigið 4–5 stór skref aftur á bak, stígur hann eitt lítið skref áfram og segir: Það sjá allir, að ég er að sækja fram, og það er ástæða til að þakka mér fyrir það, — ég er á hraðri framfaraleið, — ég er að sækja fram. — En það, sem skeð hefur, er, að hann var sjálfur kominn aftur á bak langa leið, en steig svo þetta litla skref fram. Þannig er öll framkoma hæstv. landbrh. og allur málflutningur hans, 4–5 stór skref aftur á bak, lítið skref áfram og síðan: Sjáið, ég er í hraðri framsókn: ég er að sækja fram.