28.11.1963
Neðri deild: 21. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Það eru nokkur atriði í ræðum hv. stjórnarandstæðinga, sem hafa komið mér til þess að kveðja mér hljóðs í þessum umr., en þar sem ég veit, að hæstv. forseti hefur áhuga á því að koma málinu áfram, skal ég lofa því að vera ekki langorður.

Ég tók ekki betur eftir en hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Austf., segði, að skipting landsins í verðlagssvæði og afnám skerðingarákvæðanna ættu fyrst að koma til framkvæmda á næsta ári. Þetta er alger misskilningur. Skerðingarákvæðin voru afnumin í hittiðfyrra og þau hafa ekki verið í gildi, hvorki í fyrra né á þessu ári, og skipting landsins í verðlagssvæði kom til framkvæmda á þessu ári. Þetta er eitt dæmi um ónákvæmni stjórnarandstæðinga í málflutningi sínum, þegar þeir eru að reyna að gera lítið úr þeim endurbótum, sem orðið hafa á almannatryggingunum í tíð núv. ríkisstj. En ég fullyrði, að þær endurbætur eru meiri en nokkurn tíma áður hafa átt sér stað.

Það má segja, að frá upphafi trygginganna hafi ellilífeyririnn verið tiltölulega lágur og í sumum tilfellum lægri en aðrar bætur, og það má líka segja, að ellilífeyririnn hafi ekki hækkað nægilega mikið. Ég tek undir það, að mjög æskilegt væri að geta gert stærri átök í þeim málum. En einmitt þessi tvö atriði, sem ég nefndi áðan, afnám skerðingarákvæðanna og afnám skiptingar landsins í verðlagssvæði, hafa fært miklu fleiri og stærri hópa ellilífeyrisþega hækkun á ellilífeyri en nokkurn tíma áður hefur átt sér stað í tíð annarra ríkisstjórna. Þetta verður ljóst, ef menn athuga það, að á 2. verðlagssvæði var ellilífeyririnn um 23–25% lægri en hann var á 1. verðlagssvæði. Á þessu ári, þegar verðlagssvæðaskiptingin var afnumin, fengu þess vegna ellilífeyrisþegar, sem áður voru á 2. verðlagssvæði, um 25% hækkun, þegar mismunurinn var afnuminn, auk þeirrar almennu hækkunar, sem þeir hafa einnig notið.

Ég held, að það hafi verið hv. 5. þm. Reykv., sem gerði samanburð á daggjöldum á elliheimilum og ellilífeyrinum, og ég verð að segja, að ég get ekki tekið undir það með hv. 1. þm. Austf., að málflutningur hv. 5. þm. Reykv. sé óvefengjanlegur. Ég veit ekki, hvaða dvalarheimili hann hefur miðað við, þegar hann upplýsti um dvalarheimilistaxtann, en ég hef þær upplýsingar frá Tryggingastofnun ríkisins, sem nú skal greina: Daggjald á Grund hér í Reykjavík er fyrir venjulegan vistmann 130 kr. á dag og fyrir sjúklinga 150 kr. Þegar hv. 5. þm. Reykv. var að tala um það, hvað ellilífeyririnn væri mörg prósent af dvalarkostnaðinum á elliheimilunum, þá fann hann það út, að lífeyririnn væri tiltölulega lítill hluti af vistgjaldi þeirra, sem eru rúmliggjandi eða sjúklingar á elliheimilunum. En hann þagði alveg um það, sem er kjarni málsins, að fyrir þessa sjúklinga greiða tryggingarnar 100% kostnaðar, og þetta er stór hópur af því fólki, sem vistast í elliheimilunum. Á dvalarheimilinu Ási í Hveragerði er daggjaldið 130 kr. fyrir vistmenn, í Skjaldarvík við Akureyri er það 110 kr., á Blönduósi er það 100–125 kr. eftir því, hvort margir eru í stofu eða einn, í Keflavík er það 95–100 kr., á Akranesi 80.87 kr., á Ísafirði 95120 kr. og á Sólvangi 115–122 kr. Þessar upplýsingar sýna það, að með góðum og gildum rökum er hægt að vefengja þær tölur, sem hv. 5. þm. Reykv. bar hér á borð og miðaði prósentureikning sinn við. En stærsta fölsunin í málflutningi hans er auðvitað sú að ganga algerlega fram hjá því, að stór hópur af því fólki, sem dvelst á elliheimilunum, fær dvalarkostnaðinn að fullu borinn uppi að tryggingunum í einu eða öðru formi. Það eru ekki endilega ellitryggingarnar; það geta einnig verið sjúkratryggingarnar eða ríkisframfærslan, sem greiða dvalarkostnað þeirra að fullu. Og í framhaldi af þessu vil ég aðeins minna á, að samkv. þeirri miklu breytingu, sem gerð var á almannatryggingalögunum s.l. vor, heimilast tryggingunum frá næstu áramótum að greiða ekki einungis dvalarkostnað þeirra, sem eru ellisjúkir, að fullu, heldur einnig allra vistmanna. En náttúrlega má segja, að það séu ýmsir, sem eigi ekki þess kost að dvelja á elliheimilum, og það væri æskilegt að geta gert betur fyrir þá, og það er áreiðanlegt, að næsta átakið, sem gert verður í tryggingamálunum, verður það að bæta þeirra hlut. En það, sem gert hefur verið á síðustu árum og er nú verið að gera í þessum efnum, er meira átak en gert hefur verið nokkru sinni áður.