02.03.1964
Neðri deild: 63. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

131. mál, jarðræktarlög

Frsm. meiri hl. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á jarðræktarlögunum var flutt af hæstv. ríkisstj. samhliða frv. um breyt. á l. um stofnlánadeild landbúnaðarins. Landbn. hefur haft þetta frv. til meðferðar, en varð ekki á eitt sátt um afgreiðslu málsins. Við í meiri hl. leggjum til, að frv. verði samþ. óbreytt, en minni hl., sem var að vísu ekki á móti frv. sem slíku, kvaðst mundu bera fram brtt. og skila séráliti.

Með frv. um breyt. á stofnlánadeildarlögunum, sem var verið að afgreiða hér áðan úr þessari hv. d., er lagt til, að aukinn verði mjög styrkur hins opinbera við ræktunina. Ég tel, að með því frv. sé stigið mjög heillavænlegt spor, því að aukin ræktun landsins er vissulega ein meginundirstaða undir því, að hér megi reka blómlegan landbúnað. Með þessu frv., sem hér er til 2. umr., er einnig lagt til, að aukinn verði styrkur við ræktunina með því að taka það nýmæli inn í jarðræktarlögin að greiða styrk vegna plógræsa með 20 aura grunngjaldi á lengdarmetra, sem verður með vísitöluálagi 6.118 rúml. 1.20 kr. Þessi plógræsi er nú farið að vinna með stórvirkum tækjum og sú reynsla þegar fengin, að með þessari ræsagerð megi flýta mjög fyrir framræslunni, og jafnvel er þess vænzt, að plógræsin geti gert framræsluna talsvert ódýrari en hún er nú, m.a. vegna þess, að þá þurfi ekki að grafa jafnmikið af opnum skurðum, til þess að hægt sé að fullþurrka landið. Þá miða einnig ákvæði 3. gr. þessa frv. að því að efla og styrkja ræktunina, þar sem lagt er til, að hækkaður verði styrkur til þeirra jarða, sem hafa minni ræktun en 25 ha., og er þetta ákvæði í samræmi við breyt. á stofnlánadeildarl., og með þessu er þá gert ráð fyrir, að allar jarðir, einnig gömul býli. sem hafa minna en 25 ha. tún, njóti sama styrks, sem verður samkv. þessum frv. 5000–5500 kr. á hvern ræktaðan ha.

Við erum víst allir sammála um, að það ber að auka ræktun lands okkar og styðja þær framkvæmdir með fjárframlögum úr ríkissjóði. En það er þó ekki nóg að rækta, það þarf einnig að tryggja, eftir því sem kostur er, að uppskeran af hinu ræktaða landi nýtist sem bezt. Reynslan hefur sýnt, að súgþurrkunin er mjög mikilvægur þáttur í því að tryggja að bændur geti haft gott og óhrakið fóður fyrir búfénað sinn. Því er það, að með þessu frv. er lagt til, að styrkur á súgþurrkunarkerfi í heyhlöðum verði hækkaður verulega, eða úr 5 kr., eins og hann er nú að grunngjaldi, í 12 kr. Og sé fasttengdur blásari við súgþurrkunarkerfið, gerir frv. ráð fyrir, að styrkurinn verði 18 kr. að grunngjaldi. Með því vísitöluálagi, sem ég nefndi áðan, 6.118, á það er hér um mikla hækkun að ræða, og þess er að vænta, að með svo hárri styrkveitingu til þessara framkvæmda geti flestir — ég vil vona allir bændur komið sér upp súgþurrkun í þurrheyshlöðum sínum og þannig að verulegu ráði tryggt sig gegn rosanum, eins og stundum er sagt, og fengið viðhlítandi arð af dýrum ræktunarframkvæmdum og miklum og kostnaðarsömum áburðarkaupum.

Hv. minni hl. landbn. ber fram allmargar brtt. við frv. á þskj. 309. Allar miða þessar brtt. minni hl. að hækkun styrkja samkv. jarðræktarlögunum. Við getum víst verið sammála um, að það væri æskilegt, ef hægt væri að hækka ýmsa styrki. Meiri hl. getur þó ekki mælt með samþykkt brtt. minni hl. að þessu sinni. Það hefur aldrei verið svo, að hægt hafi verið að fá allt í þessum efnum í einu, og það er ekki hægt fremur nú. En með þessu frv. og frv. um breyt. á stofnlánadeildarlögunum er stigið stærra spor í einu í stuðningi við ræktunarmálin en áður hefur verið stigið — mér er nær að halda allt frá því að jarðræktarlögin voru sett árið 1923.

Þegar þetta mál var til 1. umr. hér í hv. d., urðu um það talsverðar umræður og um landbúnaðarmálin í heild. Ég ætla ekki að þessu sinni að fitja upp á þeim umr. á ný, ég læt þessi örfáu orð nægja fyrir hönd okkar í meiri hl., enda þarf ekki að hafa um frv. mörg orð, það er einfalt og skýrt.