28.11.1963
Neðri deild: 21. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 2. landsk. þm., Birgis Finnssonar. Hann sagði, að hv. 5. þm. Reykv. (ÞÞ) hefði verið hér með blekkingar áðan, þegar hann var að nefna daggjöld á elliheimilinu Grund og bar þau saman við ellilaunin núna og síðan hvort tveggja við árið 1958. Svo kemur hv. þm. sjálfur með tölurnar frá elliheimilinu Grund, 130 kr. á dag fyrir almenna dvalarmenn og 150 fyrir sjúklinga, og þá koma út nákvæmlega sömu tölurnar og hv. þm. Þórarinn Þórarinsson var með. Þetta eru um 47500 kr. fyrir almenna vistmenn, en 54750 fyrir sjúklinga. Hver er þá blekkingin? En það, sem hv. 5. þm. Reykv. var að sýna, var, hversu mikill hluti af dvalarkostnaðinum ellilaunin væru nú og hvað þau hefðu verið mikill hluti 1958, það var ekkert annað en samanburður.

Hv. þm. Birgir Finnsson nefnir nokkur dvalarheimili, eins og Skjaldarvík, Keflavík, Blönduós og einhver fleiri. Ég ætla ekki að rengja þær tölur, þetta getur verið eitthvað misjafnt. En af hverju nefndi hann engar tölur frá þessum heimilum 1958? Af hverju gerði hann enga tilraun til að bera þessi tvö ár saman, 1963 og 1958, eins og hv. 5. þm. Reykv. gerði? Það var innihaldið í .ræðu hv. 5. þm. Reykv., og hann sýndi fram á, að kjörin hefðu versnað. Ef hv. 2. landsk. þm. vill afsanna það, sem hv. 5. þm. Reykv. sagði, verður hann að koma með tölurnar frá öllum þessum dvalarheimilum 1958 og bera þær saman við tölurnar, sem hann nefndi áðan, annars er ekkert innihald í ræðu hans.