06.02.1964
Neðri deild: 52. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er um að ræða, er stjfrv., og er lagt til, að sérstakur styrkur, viðbótarstyrkur, verði veittur til ræktunar á jörðum allt upp í 25 hektara. Eins og kunnugt er, var þetta mark lengi aðeins 5 ha. 1957 var markið hækkað upp í 10 ha. Á s.l. þingi var markið enn hækkað upp í 15 ha. Þegar það frv. var til umr. hér í hv. Alþingi, var ljóst, að það var ekkert lokamark að miða við 15 ha., því að 15 ha. tún væri of lítið til að framfleyta því búi, sem til þess þarf að geta lifað sæmilega og veitt sér þann vélakost og önnur þægindi, sem nauðsynleg eru talin í nútímabúskap og nútímaþjóðfélagi. En það þótti eigi að síður gott á s.l. þingi að fikra sig áfram í þessa átt, og nú ári síðar hefur orðið samkomulag um það í ríkisstj. að setja markið upp í 25 ha., sem að vísu getur ekki talizt vera lokatakmark, það er það vitanlega ekki, en 25 ha. ræktun á hverju býli gefur möguleika til að hafa svo stórt bú, að það gefi af sér viðunandi tekjur.

Það hefur verið um það rætt og það ekki að ástæðulausu, að á undanförnum árum og áratugum hafi bændur flutt úr sveitunum og jarðirnar farið í eyði. Það er mín skoðun, og ég hygg, að það megi segja, að það sé skoðun ríkisstj., að það sé ekki hollt fyrir þjóðfélagið, að jarðir haldi áfram að fara í eyði, það sé ekki eðlilegt, að því fólki, sem í sveitunum er, fækki, það sé miklu heldur eðlilegt og blátt áfram nauðsynlegt, að að því verði stefnt, að fólki, sem að sveitastörfum vinnur, fjölgi. Það er ástæða til að ætla, að um næstu aldamót verði landsbúar um 350 þús. manns, eða e.t.v. allt að helmingi fleiri en þeir eru í dag. Í dag framleiðum við talsvert meira af landbúnaðarvörum en notaðar eru í landinu. En hversu mikið sem tækninni fleygir áfram og þótt ræktunin aukist, þarf ekki að gera ráð fyrir því, að sá fólksfjöldi, sem nú er í sveitunum, geti fullnægt innanlandsþörfinni með landbúnaðarvörur, þegar þjóðinni hefur fjölgað um tugi þúsunda, sem hún gerir á allra næstu árum, og allra sízt þegar henni hefur fjölgað um allt að helming. Það er þess vegna nauðsynlegt að stemma á að ósi og koma í veg fyrir, að þeir, sem eru með of litla ræktun og of lítil bú, flosni upp, en þannig hefur það verið á, síðustu áratugum, og allt frá því að 20. öldin byrjaði hefur verið fólksflutningur úr sveitunum og til sjávarins, og má segja, að það út af fyrir sig hafi verið eðlilegt í vissum mæli. En það er eðlilegt, að þetta hætti nú og að smátt og smátt snúist straumurinn við, eftir því sem tímar líða.

Við höfum heyrt talað um smábúin, og það er kunnugt, að smábúin eru algengust í vissum landshlutum og ræktunin þar er skemmst á veg komin. Frv. það, sem hér er um að ræða, miðar að því að gera þær jarðir, sem nú eru í ábúð, ábúðarhæfar, byggilegar, með því að auka ræktunarlandið. Og þá er talið nauðsynlegt af þeim, sem bezt þekkja inn á þessi mál, að ræktað land sé helzt ekki minna en 25 ha. Á 25 ha. vel ræktuðu landi, jörð, sem hefur einnig sæmilegan bithaga, má framfleyta a.m.k. 30–35 kúa þunga, t.d. hafa 20 kýr og 150–200 fjár. Og það má segja, að slíkt bú gefi af sér sæmilegar tekjur miðað við það, sem um er að ræða.

Það hefur verið talað um, að bændur séu jafnvel lægst launaða stéttin í þessu þjóðfélagi, og það má segja, að það sé að meðaltali, sem er vegna þess, að smábændurnir eru margir. Í skýrslu frá hagstofunni, sem ég hef séð og að nokkru hefur verið birt í blöðum, hefur verið tekið meðaltal af um 3000 bændum. Það eru, að mig minnir, í þessari skýrslu um 1200 bændur með tekjur 100–150 þús., það eru nokkrir með 150–200 þús. og það eru 1200–1300 af þessum 3000, sem eru með tekjur frá 50–99 þús., og örfáir eru með tekjur undir 50 þús. Það liggur í hlutarins eðli, að þeir, sem eru með smæstu búin, hafa ekki um annað að velja en annaðhvort að hætta búskap eða auka ræktunina og stækka búin. Það verður aldrei hægt að láta bændur með smæstu búin hafa svo hátt verð fyrir afurðirnar, að þeir geti af því búi lifað. Menn geta alltaf deilt um, hversu afurðaverðið eigi að vera hátt, en ég hygg þó, að einn mælikvarði hljóti að teljast réttur, þegar um það er að ræða að finna réttlátt afurðaverð. Það hlýtur að eiga að miða við framleiðslukostnað á eðlilega stóru búi, sem er kallað meðalbú, sem miðast við það, að bóndinn hafi þar eðlilega mikið starf við framleiðsluna. Og ég hygg, að ef menn athuga þessi mál ofan í kjölinn, hvar sem þeir eru staddir, hvort sem þeir telja sig málsvara verkamanna eða annarra stétta, þá vilji enginn sanngjarn maður gera kröfu til þess, að búvaran verði seld undir kostnaðarverði, sé miðað við það, að sá, sem að framleiðslunni vinnur, vinni eðlilegan tíma og leggi hæfilega mikið að sér eða sambærilega við það, sem aðrar stéttir gera. Og lög um verðlagningu landbúnaðarvara eru vitanlega byggð á þessari hugsun, þótt oft og tíðum hafi ekki tekizt að ná tilgangi laganna, m.a. vegna þess, að ekki hefur alltaf orðið samkomulag um kostnaðarliði í verðgrundvellinum, og eins það, að það hefur oft heyrzt frá fulltrúum neytenda, að meðalbúið væri tæplega nægilega stórt, til þess að eðlilegt verðlag gæti komið samkv. lögunum. Ef bóndi með litla búið sækir ekki atvinnu utan heimilis, má sennilega oft með sanngirni segja, að þessi bóndi hafi tæplega fullkomið starf heima á sínu býli, og þá eru ýmsir, sem segja: Það er ekki sanngjarnt, að þessi bóndi með þessari vinnu fái fullt kaup í gegnum verðlagninguna.

Með þessu frv. er að því stefnt að fækka smábúunum, að því stefnt að útrýma smábúunum og gera öllum, sem landbúnað stunda, lífvænlegt, þar sem þeir eru komnir, með því að taka í þjónustu sína tæknina, auka ræktunina og stækka búin. Og eitt er það, sem hefur gert smábóndanum mjög erfitt fyrir nú síðustu árin, og það er að standa undir þeim kostnaði, sem vélabúskapur hefur í för með sér. En það hefur hins vegar þótt sjálfsagt og eðlilegt, að allir bændur, hvort sem þeir hafa stór bú eða minni, hafi vélar við framleiðsluna, enda þykir engum lengur fært að stunda heyskap eða vinna önnur verk með handaflinu, og er vissulega ekki nema gott um það að segja. En hins vegar er augljóst, að smábúin geta ekki borið þann kostnað, sem vélakostinum fylgir. Vélarnar nýtast ekki og svara ekki vöxtum og fyrningu, nema þær séu notaðar nægilega mikið og verði til þess að auka afköstin og framleiðslu búanna.

Með þessu frv. verður aukið það framlag, sem landnámið hefur til umráða. Landnámið hefur til umráða samkv. gildandi lögum milli 14 og 15 millj. kr., en gert er ráð fyrir, að með þessu frv. verði það fjármagn aukið um tæpar 13 millj. kr. Það er gert ráð fyrir með þessu frv., að þeir, sem hafa minna en 25 ha. tún, fái jarðræktarstyrk, sem svarar 50% af ræktunarkostnaðinum. En sá styrkur verður vitanlega meiri, ef tekið er tillit til framræslu, sem venjulega er gerð, áður en ræktað er. Þá fær framræslan einnig aukalegan styrk, þannig að ræktunarstyrkurinn verður í reyndinni fram yfir þetta. Það er gert ráð fyrir, að það séu 3500–3800 býli, sem njóti góðs af þessum lögum, og sjáum við þá, hversu stór hluti af býlum í landinu er með ræktun undir þessu marki, þar sem talið er, að öll býli í landinu séu eitthvað á milli 5000 og 6000 alls, sennilega nærri 5500. Eftir því ættu að vera innan við 2000 býli, sennilega 1600–1800 býli, sem hafa ræktun yfir 25 ha.

Þá er gert ráð fyrir með þessu frv. að hækka nokkuð byggingarstyrk til íbúðarhúsa, þ.e. úr 50 þús. í 60 þús. 1957 var tekið í lög að veita styrk á íbúðarhús, 25 þús. kr., en það var þá bundið aðeins við nýbýli. 1960 var þessi styrkur hækkaður upp í 40 þús., og þá var ekki lengur bundið við nýbýli, heldur einnig aðrar jarðir, sem hætta var á að gætu farið í eyði, vegna þess að þær hefðu orðið aftur úr. 1963 var styrkurinn hækkaður upp í 50 þús. kr. til nýbýla og til þeirra bænda, sem eftir eiga að byggja og hafa meðaltekjur eða minna. Og nú loks er gert ráð fyrir að hækka styrkinn upp í 60 þús. með sama ákvæði og sett var inn í lögin í fyrra. Það er gert ráð fyrir, að það séu byggð um 40 nýbýli árlega, og það hefur verið nálægt því undanfarin ár, og það verði endurbyggð um 100 íbúðarhús á eldri jörðum, sem njóta þessa styrks. Það er því gert ráð fyrir, að hækkun á byggingarstyrknum nemi 400 þús. til nýbýla og 1 millj. til annarra býla. Og eins og ég sagði áðan, er gert ráð fyrir, að aukin útgjöld vegna þessa frv. nemi 12 millj. 850 þús. Þetta er vitanlega áætlun, þetta gæti orðið meira á hverju ári, því að það er ekki vitað nema þessi lög hafi þau áhrif að ýta undir ræktunina meira en verið hefur áður, þannig að 25 ha. markið náist fyrr en jafnvel þessi lög gera ráð fyrir, og er þá vitanlega ekki nema gott um það að segja.

Ég sagði áðan, að það væru 3500–3800 jarðir, sem mundu njóta góðs af þessum lögum. En það eru 438 jarðir með túnstærð frá 2.6–5 hektara og eru þannig settar, að þær hafa alls ekki 25 ha. af ræktanlegu landi og geta þess vegna aldrei fengið 25 ha. tún. En sem betur fer er þetta minni hlutinn, talið, að það séu 438 jarðir með slík smátún, en sennilega ekki nema helmingurinn af þessum býlum, sem ekki getur vegna landleysis fengið sæmilega túnstærð, frá 20 jafnvel upp í 25 ha.

Það er enginn vafi á því, að okkur ber nauðsyn til að ýta undir ræktunina, jafnvel þótt við stefndum ekki hærra en að framleiða matvæli fyrir innanlandsmarkaðinn. Þjóðinni fjölgar, eins og áður hefur verið á minnzt, og ef framleiðslan hætti að vaxa, væru ekki nema örfá ár, þangað til við hefðum ekki nægilegar mjólkurafurðir. Þótt við nú flytjum dálítið út af mjólkurdufti og jafnvel smjöri, yrðu ekki nema kannske 3–4–5 ár, þangað til það væri kominn skortur á þessum vörum, ef við höldum ekki áfram að rækta og auka framleiðsluna. Og það yrðu ekki heldur nema tiltölulega fá ár, þangað til okkur færi að vanta kjöt. Þetta munu allir sjá, sem setja sig inn í þessi mál, og skilja það, að ræktun er mjög þýðingarmikil fyrir landið, ekki aðeins túnræktunin, heldur þarf einnig og jafnvel ekki síður að stuðla að því, að bithaginn verði ekki skemmdur. Og það hefur orðið mikið tjón fyrir bændur nú 2 síðustu árin, að það virðist svo sem það sé orðið of margt sauðfé í högunum. Það hefur verið byrjað á því, þótt það sé ekki í stórum stíl, að auka beitarþol afrétta og heimahaga með því að dreifa áburði úr flugvélum. Það eru ekki nema 3–4 ár síðan þetta byrjaði og í fyrstu í smáu, en það hefur farið vaxandi. Fyrst var byrjað með eina flugvél, en á s.l. ári var keypt önnur flugvél, og eru þær nú tvær, sem geta unnið að dreifingu áburðar, og þannig verður að því stefnt, að dreifing áburðar úr lofti yfir bithaga, heimahaga og afréttir geti aukizt. Og þá kemur einnig til greina að dreifa fræi úr lofti yfir bithaga, og er þá enginn vafi á því, að með þessum hætti má auka beitarþolið til mikilla muna frá því, sem verið hefur.

Það er ekki langt síðan Sturla Friðriksson skrifaði merka grein um þetta og taldi, að með því að auka beitarþolið í afréttum og heimahögum og nota ræktað land til sauðfjárbúskapar, ekki síður en til nautgriparæktar, geti Íslendingar haft margar milljónir sauðfjár í landinu í staðinn fyrir rúmlega 800 þús., eins og er nú. Og það er vissulega ánægjulegt til þess að vita, að við höfum þessa möguleika, og það eru fleiri og fleiri að átta sig á því, hversu geysilega þýðingarmikið þetta getur verið fyrir þjóðina. Það er stutt síðan menn töldu, að með því að rækta landið væri nauðsynlegt og sjálfsagt að hafa eingöngu nautgripa- og mjólkurframleiðslu á þessu ræktaða landi. En það er einnig og ekki síður arðvænlegt að nota ræktaða landið til sauðfjárræktar. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, við höfum reynsluna fyrir því, og það er enginn vafi á því, að ef Íslendingar gætu aukið sauðfjárræktina og við færum að hafa hér milljónir fjár í landinu í staðinn fyrir hundruð þúsunda og gætum gert ullina og gærurnar að þeirri ágætisvöru, sem hún raunverulega er, með því að vinna þetta í landinu, þá gæti útflutningur landbúnaðarvara orðið þýðingarmikill liður í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Það er enginn vafi á því, að skilningur á þessum málum hefur stórum aukizt nú upp á síðkastið, og það er enginn vafi á því, að því almennari sem sá skilningur er og verður, því auðveldara verður að hrinda framfaramálum landbúnaðarins fram og lyfta grettistökum á þessu sviði.

Landbúnaðurinn mun verða mikill þáttur og vaxandi í þjóðarbúskapnum. Landbúnaðarvörurnar munu verða í framtíðinni stór og vaxandi liður í útflutningsframleiðslunni og gjaldeyristekjum þjóðarinnar, og því fólki, sem vinnur og vill vinna við landbúnaðinn, mun fara fjölgandi. Það er talið, að nú vinni við landbúnað aðeins um 15% af þjóðinni. Það má vel vera, að þetta hlutfall eigi eftir að skekkjast eitthvað enn, vegna þess að fólkinu fjölgar, og að meiri hlutinn af fjölguninni þrátt fyrir stefnubreytingu muni lenda í þéttbýlinu. En það væri alveg fráleitt að hugsa sér það að öll fjölgunin lenti í kaupstöðunum, því að ef öll fjölgunin lenti í kaupstöðunum, yrði um næstu aldamót e.t.v. ekki nema 7–8% af þjóðinni, sem ynni að landbúnaði, og það væri útilokað, að sá litli hópur, það litla hlutfall af þjóðinni, gæti brauðfætt hana eða fullnægt eftirspurninni eftir landbúnaðarvörum.

Við erum skammt á veg komnir í ræktun, Íslendingar, sem eðlilegt er, því að það er ekki langt síðan ræktunarbúskapur hófst á Íslandi. Það er ekki langt síðan hér voru lítil og kargaþýfð tún kringum bæina, sem voru girt með hlöðnum görðum, ýmist úr grjóti eða torfi eftir því, hvort grjótið var handhægt eða torfið, og engjabúskapur var það, sem þjóðin bjó við. Það var slegið með orfum og rakað með hrífum, og framleiðslan var lítil af eðlilegum ástæðum, miðað við þann mannafla, sem að henni vann. En það verður þó að segja, að síðustu áratugina hefur þjóðin ræktað, og nú er ræktað árlega nærri 4000 ha., og má ætla, að við síðustu áramót hafi túnin verið um 85 þús. ha., eða 850 ferkm. Hins vegar er talið, að það sé vel ræktanlegt til túns 25 þús. ferkm og það sé vel mögulegt að gera að samfelldum gróðri og jafnvel túni 45 þús. ferkm. En þá er komið í 500–600 m hæð, og þá fer vitanlega að verða erfiðara til gróðurs og ræktunar. En miðað við það, að við höfum 25 þús. ferkm af vel ræktanlegu landi, en höfum í dag aðeins 850 ferkm., þá sjáum við, hvað við eigum mikinn forða til ræktunar og hversu þjóðin er rík á þessu sviði miðað við t.d. aðrar þjóðir, sem hafa ræktað hvern fermetra í sínu landi og nýtt til fullnustu alla þá möguleika, sem landið hefur yfir að ráða, og verða af þeim ástæðum að flytja úr landi sem svarar árlegri fjölgun, eins og ýmsar Evrópuþjóðir gera.

Ég sé nú ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál. Hv. alþm. þekkja þetta frv. og þekkja þetta, sem hér hefur verið lýst, og ég vona, að það sé enginn ágreiningur um að gera þetta frv. að lögum, og ég reyndar veit það, að við erum sammála um, að þetta er stórt framfaraspor. Og jafnvel þótt ýmsir hefðu tilhneigingu til að segja: Styrkurinn á að vera meiri en hér er lagt til, — þá er ég sannfærður um, að við erum sammála um, að hér er stigið stórt spor í framfaraátt og stærra en áður hefur verið gert á þessu sviði.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn. að lokinni þessari umr.