28.11.1963
Neðri deild: 21. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

80. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vestf. virðist ekki hafa skilið það, að með því að upplýsa um daggjöldin á fleiri stöðum en á elliheimilinu Grund, þá sýndi ég fram á, — og það var það eina, sem ég sagði um niðurstöðu hv. 5. þm. Reykv. í þessu sambandi, — að niðurstaða hans væri vefengjanleg. Hún er vefengjanleg vegna þess einfaldlega, að vistmennirnir, sem njóta ellilífeyris, búa ekki allir á elliheimilinu Grund. Þeir eru á fleiri stöðum, þar sem daggjöldin eru lægri. Ég hef ekki haft aðstöðu til á þeim tíma, sem við höfum setið hér á fundi, að kanna upplýsingar hv. 5. þm. Reykv. um þessi daggjöld frá árinu 1958. Það getur vel verið, að það gefist tækifæri til þess síðar, og þá skal ég gera það. En stærsta blekkingin í málflutningi hv. 5. þm. Reykv., — mér þykir leiðinlegt, að hann skuli vera farinn af fundi og geti ekki hlustað á þetta, — hún er sú, að hann gekk algerlega fram hjá þeirri staðreynd, að tryggingakerfið borgar 100% dvalarkostnað fyrir stóran hóp vistmannanna á elliheimilunum.