10.02.1964
Neðri deild: 53. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég tel, að með þessu frv., sem hér liggur nú fyrir um aukin framlög í sambandi við ræktun, sé stefnt í rétta átt. Samkv. frv. er gert ráð fyrir því, að hið aukna ræktunarframlag geti gengið til 3500–3800 býla í landinu, því að með ákvæðum frv. er gert ráð fyrir því, að hið hækkaða ræktunarframlag geti náð til heildarræktunar, sem nemur 25 ha. á jörð. En þetta aukaframlag hefur fram til þessa verið miðað við 15 ha. ræktun. Eftir því sem gert er ráð fyrir í frv., getur hér orðið um að ræða aukið framlag til landbúnaðarins, sem nemur á milli 12 og 13 millj. kr. á ári. Það er að vísu ekki ýkja há upphæð, þegar þess er gætt, að hún getur þurft að skiptast á milli 3000 bænda eða jafnvel fleiri. Í hlut hvers mundi þá ekki koma nema í kringum 4000 kr. á ári, ef skiptingin yrði tiltölulega jöfn, og þá má öllum ljóst vera, að hér er ekki um ýkja stórt framlag að ræða til þess að fá ráðið fram úr þeim vanda, sem hér er raunverulega við að glíma. En það vandamál, sem hér er verið að fást við, er það, sem oft hefur verið um rætt, að reyna að hafa áhrif á það, að hægt sé að hverfa sem mest frá smábúskapnum í landinu, hægt sé að lyfta upp bústærðinni, þannig að sem mest af búunum í landinu nái þeirri meðalbústærð, sem nú er lögð til grundvallar í sambandi við útreikning á verðlagi á landbúnaðarvörum.

Það er enginn vafi á því, að þær hækkanir, sem samþykktar hafa verið í svipuðu formi og þessi, sem hér liggur nú fyrir till. um, á undanförnum árum, hafa áorkað nokkru. Þær hafa nokkuð lyft undir það að fækka smábúunum, vinna að því, að búin mættu stækka. En þó hygg ég, að flestir, sem um þessi mál hafa hugsað, viðurkenni, að raunverulega hefur miðað grátlega seint í þessum efnum, og enn stöndum við frammi fyrir því, að allt of margir bændur í landinu búa við bústærð, sem er algerlega ófullnægjandi og getur í raun og veru, miðað t.d. við þann verðlagsgrundvöll, sem búin eru rekin eftir, ekki gefið lífvænlegar tekjur.

Það hefur verið upplýst í þessum umr., að fyrir rétt rúmu ári stóðu málin þannig, að rúmlega 2700 jarðir í landinu höfðu þá ræktun, sem var undir 15 ha. ræktun á býli. Þetta mun vera nærri því að vera um helmingur jarðanna í landinu. Enda liggja einnig fyrir aðrar tölur, sem sýna, að sá fjöldi bænda í landinu, sem býr við svo smá bú, að engar líkur eru til, að þau bú geti fært meðaltekjur, er yfir 30% allra bænda. Vandamálið, sem hér er við að glíma, er það, hvað þarf að gera, hvað er hægt að gera til þess að nú meiri árangri í því að fækka smábúunum, til þess að stækka raunverulega meðalbúið í landinu.

Eins og ég sagði, tel ég, að ákvæði þessa frv. stefni út af fyrir sig í rétta átt: En ég held, að hér þurfi miklu stærra og meira átak til að leysa þann vanda, sem hér er við að glíma. Það liggur sem sagt fyrir, að þau bú eru æðimörg, sem gefa bændum árstekjur, sem liggja langt undir þeim árstekjum, sem nú er almennt viðurkennt, að meðalheimili verði að hafa, ef það á að geta lifað mannsæmandi lífi. Þó að bónda, sem býr við þau kjör að hafa nú, eins og opinberar skýrslur sýna, árstekjur, sem nema frá 50–90 þús. kr., — þótt slíkum bónda sé boðið upp á örlitla hækkun á ræktunarframlaginu, held ég, að í mjög mörgum tilfellum og þeim tilfellum, þar sem mest ríður ú að ná árangri, náist tiltölulega mjög lítill árangur. Það er auðvitað alveg augljóst mál, að sá bóndi, sem í dag býr við ræktun á sinni jörð undir 10 ha., á miklu erfiðara með að auka ræktun sína og stækka sitt bú, auka sína ræktun t.d. um 5 ha. og stækka sitt bú að sama skapi, heldur en sá bóndi, sem í dag býr við ræktun, sem nemur 20 ha. Sá bóndi á miklum mun léttara með að auka sína ræktun og stækka sitt bú, sem nemur 5 ha. ræktun. Ástæðurnar liggja auðvitað í því, að sá bóndi, sem í dag býr við ræktun, sem nemur um 20 ha., og hefur tilsvarandi stórt bú, er þegar búinn að tryggja sér sómasamlegar tekjur í flestum tilfellum. En hinn býr við tekjumark, sem er langt undir því, sem þarfirnar kalla á. Hann á erfitt með að standa í miklum fjárfestingarframkvæmdum, jafnvel þótt honum sé boðið upp á lítils háttar hækkun á ræktunarframlaginu.

Við vitum, að það þarf meira til en aðeins að auka ræktunina, og er þó vitanlega ekki hér gert ráð fyrir að veita framlög, sem kosta jafnmikið og ræktunarframkvæmdirnar kosta. Framlögin mega aldrei fara hærra en sem nemur 50% af þeim kostnaði, sem þar um ræðir. En til þess að hægt sé að stækka meðalbúið, þarf miklu meira til en að koma ræktuninni upp. Til stækkunar búsins þarf vitanlega að leggja í aukinn stofnkostnað við útihúsabyggingu, við byggingar yfir stækkandi bústofn, í byggingar yfir aukið fóður o.s.frv. Slíkar framkvæmdir kosta vitanlega mikið fé, eins og nú er komið, og þau lán, sem til þessara framkvæmda eru veitt, eru ekki nema hluti af þeim kostnaði, sem leggja þarf í. Og það kostar einnig mikið fé að stækka sjálfan bústofninn, og eins og ég sagði, þeir bændur í landinu, sem búa við þau kjör, að tekjur þeirra en,! nú í dag óumdeilanlega langt undir því að vera mannsæmandi eða mögulegar til að halda uppi mannsæmandi lífskjörum bóndans og hans fólks, slíkur bóndi á vitanlega mjög erfitt með það að ráðast í slíkar framkvæmdir eins og í því eru fólgnar að lyfta upp meðalbústærðinni.

Ég hygg, að það þurfi því að horfast í augu við það, þegar þessi vandamál eru rædd, hin allt of mörgu smáu bú í landinu, hinir allt of mörgu bændur í landinu, sem búa við tekjur langt undir þeim tekjum, sem nú er almennt viðurkennt að þurfi til framfærslu meðalheimilis, — þá þurfi að horfast í augu við það, að það þarf að gera miklu stærra átak en raunverulega felst í þessu frv., þó að hér sé stefnt í rétta átt. Það er ekki langt síðan við ræddum hér á Alþingi um, að það væri mikil þörf á að leggja fram talsvert verulega fjárfúlgu í því skyni að auka framleiðni í frystihúsum landsins, bæta þar alla vinnuaðstöðu, reyna að fá þar fram meiri vinnuafköst, til þess m.a. að hægt væri að standa þar undir hærra kaupgjaldi. Og það var samþ. hér á Alþ., að á yfirstandandi ári skyldi varið 43 millj. kr. sem beinu framlagi í þessu skyni, og upphæðinni átti að skipta á milli frystihúsanna í landinu.

Ég held, að það þurfi að gera í þessum efnum nokkuð svipað varðandi þetta vandamál í íslenzkum landbúnaði. Ég held, að það þurfi að horfast í augu við það, að ef á að fækka verulega smábúunum í landinu, ef á að stækka meðalbúið, ef á að leysa vandamál þeirra fjölmörgu bænda í landinu, sem búa n.ú við miklu lægri tekjur en t.d. meðaltekjur verkamanna í landinu eru, ef á að leysa þennan vanda, þarf að koma til miklu meiri stuðningur frá hinu opinbera en í þessu frv. felst. Mér fyndist t.d. mjög eðlilegt, að lögð yrði fram á þessu ári svipuð upphæð t.d. og var lögð til frystihúsanna gagngert í þessu skyni. Það mætti vel leggja fyrir nýbýlastjórn, sem hefur mjög með þessi mál að gera, að setja reglur um það, hvernig þessu fé skyldi úthlutað, til þess að það kæmi að sem beztu gagni. Ég held, að það leiki heldur enginn vafi á því, að afkoma ríkissjóðs sé með þeim hætti, hafi verið með þeim hætti á s.l. ári, að ríkissjóður gæti vel séð af þessari upphæð til þess að vinna slíkt þarfaverk eins og það væri að lyfta verulega upp bústærðinni og bæta þar með afkomu þeirra bænda, sem búa við lökust kjör.

Það er rétt að hafa það í huga í sambandi við afgreiðslu þessa frv., að allar líkur benda auðvitað til þess, að það fari svipað nú og áður, að fyrst og fremst gangi þær hagsbætur, sem felast í þessu frv., til þeirra bænda, sem lengra eru komnir áleiðis, að sem sagt meginhlutinn af þessu 12 millj. kr. framlagi á ári, sem gert er ráð fyrir, gangi a.m.k. fyrstu árin fyrst og fremst til þeirra bænda í landinu, sem búnir eru þó að koma sér út úr mesta vandanum, eru búnir að rækta þannig upp á jörðum sínum, að þeir eru t.d. komnir yfir 15 ha. ræktun. Ég held, að þeir bændur hafi þegar öðlazt þá aðstöðu, að þeir geti haldið áfram í mjög mörgum tilfellum að fjárfesta nokkuð, að stækka bú sín, að halda áfram byggingum, að þeir geti sem sagt notfært sér það, sem í þessu frv. felst, en að hættan sé sú, að hinir, sem búa enn við minni búskapinn, geti ekki náð þessu nema að litlu leyti. Ég veit þó, að nokkur hluti þessarar fjárhæðar mun til þeirra renna, og tel því, að það eigi að samþykkja frv. En það er alveg rétt að gera sér samt sem áður grein fyrir því, að mestar líkur benda til þess, að svona fari um framkvæmdirnar. Einmitt af þessum ástæðum álít ég, að það hefði þurft að fylgja með í þessu frv. eitthvert svipað átak og það, sem ég hef hér nefnt, þar sem til kæmi alveg sérstakt framlag, sem ekki má vera minna en 40–50 millj. kr., sem gagngert verður veitt í því skyni að auka framleiðnina í íslenzkum landbúnaði, en það verður m.a. gert með því að vinna skipulega að því, að smærri búin nái því að stækka.

Í sambandi við þetta frv. hafa hér farið fram nokkuð almennar umr. einnig um landbúnaðarmál. Ég skal ekki blanda mér mikið í þær, en vil þá víkja hér að nokkrum atriðum.

Hér hefur nokkuð verið rætt um verðlagningarmál og tekjur bænda, talsvert rætt um lánakjör, vexti af lánum og lánstíma, og sitthvað fleira hefur hér borið á góma. Í sambandi við það vildi ég segja, að það hefur verið alveg skýr afstaða okkar Alþb.-manna, að við teljum, að kjör íslenzkra bænda almennt séð séu þannig, að þau þurfi að batna, ekki síður en hin almennu kjör verkamanna í landinu. Það var af þessum ástæðum, sem við mörkuðum þá afstöðu í ársbyrjun 1959, þegar Alþfl. og Sjálfstfl. lögðu hér fram frv. á Alþ. um að lækka beinlínis kaup íslenzkra bænda með lögum frá því, sem um hafði verið samið, jafnhliða því sem kaup verkamanna og annarra launþega var líka lækkað með lögum frá því, sem um hafði verið samið, — þegar þetta var lagt til hér í ársbyrjun 1959, stóðum við gegn því. Því miður bar Framsfl., sem mjög talar um áhuga sinn á hagsmunum bænda, ekki gæfu til að standa á móti þessari beinu kauplækkun, sem þá var ákveðin hér á Alþingi. Framsfl. sat hér hjá við atkvgr. um það, þegar þannig var verið að færa niður umsamið kaup bænda. Við Alþb.-menn höfum á undanförnum árum mjög barizt fyrir því, að launakjör verkamanna yrðu ekki rýrð, eins og þó hefur greinilega verið stefnt að með þeirri efnahagsmálastefnu, sem hér hefur ríkt. Þessi barátta, sem oft hefur komið fram á þann hátt, að barizt hefur verið fyrir nokkurri kauphækkun til handa verkamönnum í landinu vegna vaxandi dýrtíðar, hefur jafnframt verið barátta fyrir því að hækka kaup bænda í landinu, en það hefur verið samkv. lögum bundið saman við launakjör verkamanna.

Það var árið 1955, sem ríkisstj. Framsfl. og Sjálfstfl. lagði það til hér á Alþ. að hækka vexti á stofnlánum landbúnaðarins. Þá voru vextir á stofnlánum landbúnaðarins hækkaðir úr 2% og 2½% upp í 3½% og 4%. Við sósíalistar, sem vorum hér á Alþingi þá, börðumst gegn þessari vaxtahækkun og töldum hana óréttláta og ranga. Síðan kom ríkisstj. Sjálfstfl. og Alþfl. og lagði til að hækka vextina enn þá meira og stytta lánstímann, þá var auðvitað óspart í það vitnað, að þegar Framsfl. hefði verið í stjórn, hefði hann verið með því að hækka vextina á þessum sömu lánum. Afstaða okkar sósíalista og Alþb.-manna var hin sama allan tímann, við vorum á móti því, að vextirnir væru hækkaðir 1955, og við vorum einnig á móti því, að þeir væru hækkaðir 1960. Og við vorum á móti því, að lánakjörin til landbúnaðarins væru gerð verri, eins og þau voru þá gerð, með styttingu lánstímans. Okkar afstaða hefur verið sú að vera á móti því, eins og kjörum íslenzkra bænda nú er háttað, að á þá væri lagður sérstakur skattur. Við greiddum hér alltaf atkv. á móti því, þegar verið var að leggja á eða framlengja skattinn til bændahallarinnar, sem þeir framsóknarmenn og sjálfstæðismenn stóðu saman um. Við vorum líka á móti hliðstæðri skattaálagningu á bændur, þegar núv. ríkisstj. beitti sér fyrir henni í sambandi við uppbyggingu stofnlánasjóðanna. Og það er fyrst og fremst vegna þess, að við töldum, að kjör og aðstæður íslenzkra bænda væru þannig, að þeirra kjör þyldu ekki sérstaka skattlagningu. Við Alþb.-menn stóðum með því að auka ræktunarframlagið árið 1957 og greiddum einnig atkv. með því, þegar gengið var lengra í sömu átt hér síðar. Og við erum fyllilega sammála því frv., sem hér liggur fyrir um það að auka nokkuð þessi framlög. En við bendum bara á það, að til þess að ná nokkrum verulegum árangri í því að gera smábúin í landinu stærri, afkastameiri, og í því að hægt sé að skapa bændum landsins verulega bætt kjör frá því, sem nú er, þeim þeirra, sem búa við lökust kjör, til þess þarf miklu meira og stærra átak en það, sem felst í því frv., sem hér liggur fyrir. Hér þarf til að koma alveg greinilega allmyndarlegt fjárframlag frá hálfu hins opinbera, sem gagngert sé miðað við það að gera þeim fátækustu kleift að stækka sín bú.

Í sambandi við hinar almennu umr., sem hér hafa farið fram um landbúnaðarmál, verður vitanlega ekki heldur gengið fram hjá því, að það er orðin knýjandi nauðsyn á að marka hér nýja stefnu í sambandi við þróunina í íslenzkum landbúnaði. Það er út af fyrir sig mjög þarft verk að fækka smábúunum og auka á þann hátt framleiðnina í íslenzkum landbúnaði. En það er líka alveg augljóst mál, að það þarf að huga vandlega að því, á hvaða hátt íslenzkur landbúnaður á að þróast. Á áfram að byggja á einyrkjafyrirkomulaginu, því sem byggt er á núna, eða á að reyna að sveigja þróunina inn á nýjar brautir, sem sýnilega eru meira í samræmi við tækniþróun nútímans? Í sambandi við hugleiðingar um það höfum við Alþb.-menn lagt hér fram frv. á Alþingi um að veita aukin lán og lán til lengri tíma til félagsbúskapar, til þess að reyna að ýta undir þá þróun í íslenzkum landbúnaði, að meiri félagsrekstur mætti koma þar til greina heldur en nú er. Ég held, að það sé heldur enginn vafi á því, að það er orðin aðkallandi nauðsyn að reyna að hafa nokkur áhrif gegnum lagasetningu einmitt í þessa átt. Ég veit, að það er auðvitað létt verk að segja, að það skuli lagt til meira og meira fé til þess að auka afköst í íslenzkum landbúnaði, og ég býst við því, að hæstv. landbrh. afsaki sig með því, að hann hafi náð þeim árangri, sem felst í því frv., sem hér liggur fyrir, hann hafi fengið því framgengt, að nú skuli auka framlög til landbúnaðarins, sem nemur 12 millj. kr. á ári, en hann hafi hins vegar ekki treyst sér til þess að ganga lengra að sinni. En þegar hæstv. landbrh. íhugar það, hvað gert hefur verið nú, t.d. á þessu þingi, við aðra atvinnuvegi landsins, og þegar hann hefur það einnig í huga, hver aðstaða ríkissjóðs er í raun og veru til þess að láta nokkuð af hendi rakna í þessum efnum, held ég, að það sé í rauninni ekki farið fram á neitt of mikið, þó að slíkt framlag kæmi til, eins og það sem ég hef bent á hér í þessum umr., vegna þess að það er engu minni þörf á því að auka framleiðni í íslenzkum landbúnaði heldur en t.d. bara í sambandi við vinnuaðstöðu í frystihúsum landsins.

Ég veit vel, að það má miklu áorka með breyttum vinnubrögðum í frystihúsunum, sem mundi hafa mikla þjóðhagslega þýðingu. En ég held, að þrátt fyrir vissa erfiðleika, sem frystihúsareksturinn í landinu á við að búa, standi þó frystihúsarekstur landsmanna miklu nær því að geta leyst þennan vanda sjálfur að langmestu leyti heldur en sá hluti landbúnaðarins stendur, sem nú á við kröppust kjör að búa. Ég held nefnilega, að vandinn þar sé þess eðlis, að það dugi ekki að bjóða þeim bændum, sem þar búa við lökustu kjörin, upp á einhverja smávægilega hækkun á vissum framlögum, sem lítið draga í sjálfu sér til þess að leysa aðalvandann, þar þurfi að koma til miklu, miklu stærra átak.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta mál að sinni, en vil vænta þess, að hæstv. landbrh. alveg sérstaklega vilji nú taka til athugunar, hvort hann teldi ekki vera möguleika á því, að mætt verði að einhverju leyti a.m.k. þessum sjónarmiðum okkar Alþb.manna, sem við höfum sett hér fram, hvort ekki væru tök á því í sambandi við afgreiðslu þessa máls að leggja fram allmyndarlega fjárhæð til þess að auka framleiðnina í íslenzkum landbúnaði, t.d. á eitthvað svipaðan hátt og gert var við frystihúsin á þessu þingi.