10.02.1964
Neðri deild: 53. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það er meira talið alltaf um þessa blessaða bændur. Það er verið að tala um, að þeir fái þessa óskapa styrki. Lítið þið svo bara yfir þessa styrki, Jú, athugið fjárveitingar til landbúnaðarmála. Jú, það er hrúgað á þá lagagrein húsmæðraskólum og bændaskólum. Hvernig stendur á, að það er ekki sett á fjárlagagreinar t.d. sjávarútvegs og iðnaðar? Húsmæðraskólarnir eru þar allir, bændaskólarnir, sandgræðslan, peningarnir, sem er mokað í Gunnarsholt til þess að fleygja þar í sandana og reka bú, sem ekki gefur neitt af sér, en er grobbað af. Ég hef ekki orðið var við neinn rekstrarafgang þar. Svo eru fjárveitingar til skógræktar og til nýbýla. Deila má um, hve langt á að ganga í því að reisa nýbýli, meðan jarðir eru að fara í eyði í stórum stíl. En það skal þó viðurkennt viðvíkjandi þessu nýbýlaframlagi, að það hefur mörgu býli verið bjargað frá því að fara í eyði. Hinn óbreytti bóndi hefur gegnum þessar fjárveitingar engan annan styrk fengið en jarðræktarstyrkinn, sem hefur verið svo hverfandi lítill, að hann er nær einskis virði. Ég segi þetta af því, að það er sífellt verið að sifra um, hve bændur fái mikinn styrk til búskapar. Ég er orðinn hálfleiður á því.

Lúðvík Jósefsson, hv. 5. þm. Austf., var að tala á móti því að lækka kaup til bænda og verkamanna og vildi láta okkur hafa sem allra mest kaup og stækka búin sem allra mest. Það er ekkert nýtt, að þeir séu á móti öllum lækkunum, þeir vilja alltaf gera allt fyrir alla, þessir elskulegu menn. En svo bara þegar þeir eru öllu farnir að ráða, eins og t.d. í Rússlandi, þá gera þeir ekki neitt fyrir neinn, nema ef þeir senda fólk til himnaríkis öðru hverju, eins og Stalin sálugi gerði. Þá mátti svelta fólkið, og ef einhver möglaði, var hann sendur til Síberíu eða hreinlega drepinn. Ég veit, að hv. 5. þm. Austf. verður miklu betri en Stalín, ég líki þeim ekki saman, en það er samt ekki ólíklegt, ef hann réði öllu einn í þessu landi, að hann gæti ekki gert allt. fyrir alla.

Þegar Alþb.-menn eru að tala um, að þeir vilji allt hækka, þá getur það þýtt það, að þeir vilji fjölga krónunum, en verðmætið minnki jafnmikið eða meira. Það hefur gengið þannig, að menn hafa fengið fleiri og fleiri krónur í kaup, bæði bændur og verkamenn, en verðmætið hefur ekkert aukizt.

Svo vil ég bara segja þessum góðu mönnum, sem vilja okkur bændum svona óskaplega vel og segja, að við eigum að stækka búin, að það er til lítils að stækka búin með löggjöf, eins og hún er nú. Við erum búnir að tvöfalda búin á rúmlega 10 árum, en verðlagið hefur alltaf lækkað jafnóðum. Það á að miða við það, að bændur hafi sama kaup og aðrir, sama hvað þeir framleiða, þannig að bændur eru algerlega hafðir fyrir fífl, þeir eru farnir að framleiða helmingi meira en þeir gerðu, en hafa ekkert fengið meira fyrir vinnu sína, þannig að ef bændur vilja vera klókir, þá gengju þeir bara í félag og segðu: Við framleiðum þetta, hver bóndi hefur svona 200 rollur, og fáum jafnt kaup eftir sem áður. — Í staðinn fyrir það hafa þeir stritað án þess að fá neitt fyrir það. Ég kom með till. í fyrra um, að þetta yrði lagað og bændur fengju helming af aukinni framleiðslu í sinn hlut og neytandinn helming, skiptist jafnt á milli. Það var ekki afgreitt úr nefnd, og Stéttarsamband bænda var svo vesælt að þora ekki að mæla með því, heldur suðu þeir saman frv., þar sem er imprað á þessu, en orðað svo illa og klaufalega og bjánalega, að það er ekkert gagn að því. Sannleikurinn er sá, að hvorki Framsfl. né Sjálfstfl. hefur ástæðu til að grobba af þessari afurðasölulöggjöf. Hún er með fádæmum vitlaus, og í heild er strit bænda alveg unnið fyrir gýg, nema þessum ákvæðum sé breytt og bændur fái eitthvað af aukinni framleiðslu í sinn hlut.

Hæstv. landbrh. er búinn að jagast hér við fyrrv. fjmrh. út af því, hvor flokkurinn hafi staðið sig betur í bændanna garð, Framsfl. eða Sjálfstfl. Báðum flokkunum hefur sézt yfir þetta aðalatriði, og Framsókn hefur af engu að hæla sér í afurðasölumálunum — sannleikurinn er sá — öðru en því að skipuleggja þetta 1934. En það er eitt, sem Framsókn getur hælt sér af umfram Sjálfstæðið, og það er það, að bændum voru útveguð hagkvæm lán, og það er ómetanlega mikils virði. Lánin í ræktunarsjóðnum hafa hjálpað bændum til að byggja og rækta landið. Þeir fengu lánin með hagstæðum kjörum, löngum afborgunum og lágum vöxtum. Það var ekki bústærðin, sem gerði þeim kleift að gera umbætur, heldur þeirra eigin vinna og þessi lánaaðstoð. En það er bara þessi lánaaðstoð, sem Sjálfstfl. kippir í burtu með sínum furðulegu ráðstöfunum 1960. Og það var alveg furðulegt að gera þær ráðstafanir í einu, fella gengið og hækka vextina. Þetta gerir engin þjóð, sem hefur fjármálavit. Enda var það annar hagfræðingurinn, sem sagði: Það á að hækka vextina, það dregur úr fjárfestingunni. En hinn hagfræðingurinn sagði: Það þarf að lækka gengið, til þess að útvegurinn beri sig. — En það er ekki til neins að gera hvort tveggja í einu. Það verkar hvað á móti öðru og var verra en gagnslaust. Það er þetta, sem Sjálfstfl. er sekur um, að stytta lánatímann, hækka vextina og hækka verðlagið um 70%. Þetta gerir það að verkum, að þeim bændum, sem eru nú að byrja búskap eða hafa gert miklar umbætur síðan 1960, er ómögulegt að rísa undir vöxtum og afborgunum.

Ég skal játa það, að þessi stjórn hefur reynt að bæta ofur lítið fyrir sínar syndir, en það er bara hverfandi lítið. Stjórnin er nú að koma með frv. um það að hækka jarðræktarstyrk, að miðað sé við 25 ha. Það er gott, svo langt sem það nær. Það er líka í þessu frv. um að hækka óendurkræft framlag til íbúðarhúsabygginga um 10 þús. Það er líka gott, það sem það nær. En þetta hefur ekkert að segja á móti hinu. Og svo get ég sagt ykkur það, að þeir, sem eru að byggja upp nú, eru svo skuldum hlaðnir, að þeim er ómögulegt að rísa undir þeim, á meðan við, sem erum búnir að gera hlutina og skuldum lítið sem ekki neitt og eigum jafnvel peninga, meðan við leikum okkur, guggna hinir.

Í heild er það þannig með bændastéttina íslenzku. Það var talið í blöðunum, að hún hefði átt að hafa um 100 þús. kr. meðaltekjur, á meðan verkamaðurinn átti að hafa 101 þús. Kona og börn verkamanna höfðu 12 þús. í viðbót, sjómennirnir höfðu 128, iðnaðarmenn 125 og konur þeirra eitthvað 10 þús. Nú vitum við það með iðnaðarmenn, að þeir hafa dregið undan, það er óhætt að segja það hér í þinginu, það er ekki hægt að sekta menn fyrir það. Við vitum það líka, að tekjur sjómanna voru óeðlilega háar 1962. Bændur áttu að hafa um 100 þús. kr. samkv., þessu, en fjölskylda verkamanna um 110, en bændur höfðu þetta ekki. Ég er búinn að kynna mér það. Ég furðaði mig á þessari frétt, þegar ég heyrði hana, en veit nú, að það átti eftir að draga frá alla vexti og það átti eftir að draga frá viðhald fasteigna og það átti eftir að draga frá tryggingagjöld, þannig að raunverulega hefur bóndinn ekki haft nema rúmlega 70 þús., og það kemur heim við 10 ára útreikning, sem ég reiknaði í fyrra viðvíkjandi frv., sem ég flutti um, að bændur færu að fá hluta af aukinni framleiðslu í sinn hlut. Það kemur heim við það, að bændur hafa allan tímann, bæði hjá Framsókn og Sjálfstæðinu, haft um 30% lægra kaup en aðrar stéttir, sem sagt 30% lægra kaup en þeir áttu að hafa lögum samkv. Það væri því alveg óhætt, að bændur færu að njóta aukinnar framleiðni, vegna þess að þeir færu ekki upp fyrir aðra fyrir það, enda hafa íslenzkir bændur framleitt hlægilega ódýrar landbúnaðarafurðir.

Ég ætlaði nú að svara hæstv. menntmrh. einhvern tíma, en ég veit ekki, hvort málið verður nokkurn tíma tekið á dagskrá aftur. Ég er búinn að kynna mér það um alla Evrópu, að það eru Danir einir, sem selja ódýrari landbúnaðarvörur. Það er alveg sama, hvað þessir herrar væla og berja lóminn fyrir hönd bænda, það er nákvæmlega sama, þótt þeir tvöfaldi hjá þeim búin, meðan löggjöfin er eins og hún er, að bændur njóta þess á engan hátt, þótt búin stækki, þá er ekkert gagn að því að stækka búin. Hitt er annað mál, að ef það eru sérstaklega lítil bú á Austurlandi, þá verða þeir fyrir borð bornir í samanburði við aðra landshluta, það er allt annar hlutur. En sem heild getur bændastéttin ekki grætt á því að stækka búin, meðan löggjöfin er eins og hún er. Þeir hafa sama kaup og þeir hafa haft, um 30% lægra en aðrir. Annars er rétt að unna mönnum sannmælis og viðurkenna, að í ár var leiðrétt verðlagið til bænda, það varð stórhækkun á því í haust, það er alveg rétt hjá landbrh., og ég veit, að landbrh, hefur alltaf viljað íslenzkum bændum vel og reynt að berjast fyrir þeirra hag, eins og hann hefur getað, en hann hefur átt örðuga aðstöðu.

Ég álít, að verðlag til bænda hefði stórlagazt í haust og sennilega aldrei orðið betra, ef við hefðum ekki orðið fyrir tvenns konar áföllum, þ.e. hækkandi verðlagi á öllu, það flýgur upp, og í öðru lagi, að tíðarfar var í mörgum landshlutum mjög óhagstætt s.l. haust, þannig að það át upp nokkuð af verðhækkuninni. Það er engin ástæða að vera að vanþakka það, sem vel er gert, en það er líka rétt að segja það, sem illa er gert. Sem sagt, grundvöllurinn undir því, að það hafi einhverja þýðingu fyrir bóndann að stríða og strita og stækka búin, er, að löggjöfinni sé breytt, að bóndinn njóti þess að einhverju leyti, ef hann eykur sína framleiðni og framleiðslu, og neytandinn að einhverju leyti. Þetta er grundvöllurinn. Og það þýðir þess vegna enginn barlómur, það er alveg sama, hvað þessir hv. þm. berja hér lóminn fyrir bændur, meðan það er ekki tryggt, að bóndinn njóti á einhvern hátt ávaxta af sinu striti, þá er ekki til neins að vera að hvetja hann til þess að stækka búið.

Ég get að sjálfsögðu verið með stjfrv., það sem það nær, en það læknar ekki þann vanda, sem nú steðjar að, og það er þetta misræmi, sem búið er að skapa hjá bændum og raunar hjá fleirum, hjá þeim, sem hafa verið að koma sér upp íbúðarhúsum, hjá útgerðarmönnunum, sem eru nú að kaupa báta, þó að þar komi fleira til greina, sem breytir aðstöðunni dálítið. Þetta misræmi hefur komið fram í fleiru, sem eðlilegt er, þegar vextir voru hækkaðir, verðlag hækkað og lánstími styttur. Þá er ósköp eðlilegt, að menn búi við misjöfn kjör. Vandinn verður ekki leystur, nema kjörum þeirra bænda, sem hafa ráðizt í framkvæmdir síðan 1960, verði breytt, vextirnir verði lækkaðir, lánstími lengdur og þeim á einhvern hátt annan hjálpað. Það þarf ekkert að hjálpa þeim, sem voru búnir að búa um sig. Þeim hefur verið hjálpað með gengislækkun. Við erum að borga okkar skuldir með margfalt verðminni krónum en þegar við fengum þær Þetta skilur ríkisstj. að vissu marki, á það bendir þetta frv. Allt leitar jafnvægis að lokum, og ef lánskjörum þessara bænda verður ekki breytt, þá borga þeir ekki sínar skuldir og bankinn verður að taka jarðirnar. Það mun fara að koma í ljós nú, að bændur geta ekki staðið í skilum, eins og þeir hafa gert í Búnaðarbankanum. Ég hef heyrt Magnús Jónsson, sem nú er bankastjóri, segja það, að bændur séu allra manna skilsamastir. Þeir hafa verið það. En það rekur vitanlega að því, að þeir geta ekki verið það, því að þegar skuldir eru komnar upp í 500–600 þús. á býli, er gersamlega útilokað fyrir bóndann að standa undir vöxtum og afborgunum af þessum upphæðum, þær eru orðnar það miklar. Það fer einfaldlega þannig, eins og með dýru bátana, sem verið er að kaupa nú og menn verða að borga 6½% af, þeir geta ekki borgað vextina, og þeir verða annaðhvort seldir eða það verður að breyta lánskjörum eða í þriðja lagi, að fiskveiðasjóður tapar. Það fer þannig með bændur, sem eru stórskuldugir nú, að þeir geta ekki borgað, og bankinn fer þá að taka jarðirnar, og svo fara þær annaðhvort í eyði eða verða leigðar fyrir einhverja smámuni. Það sækir allt í eðlilegan farveg.

Svo er hér mjög merkileg brtt. frá hv. 3. þm. Austf. Það, sem er sérkennilegast við þessa brtt., er, að það er farið 3–4 aldir aftur í tímann. Það var þannig, áður en bankarnir urðu til hér á landi, þá þurftu menn að ávaxta fé sitt, og þá höfðu biskupsstólarnir það þannig, að þeir áttu kúgildi hér og þar og jarðir, svo leigðu þeir bændum þetta. Bændur gátu ekki átt sínar kindur, vegna þess að þeir urðu að taka þessi kúgildi. Svo urðu þeir að borga leiguna í smjöri. Þetta skapaði tekjur fyrir biskupsstólana. Það má vel vera, að það geti verið gott fyrir bændur að fá lifandi pening til leigu, en dálítið vafstur er nú við þetta. Það eru hreppsnefndirnar, sem eiga að stofna þessa bústofnsleigusjóði, taka, að mér skilst, lán,— sennilega í Búnaðarbankanum. En okkur hefur alltaf þótt leiðinlegt, sveitamönnunum, að fara til hreppsnefndanna, því að það var talað um, að þeir væru orðnir hálfgerðir sveitarlimir, sem væru að leita til hreppsnefnda með ábyrgð og aðra fyrirgreiðslu, þannig að bændur hafa alltaf hlífzt við þessu og þykir þetta leiðinlegt og suðmýkjandi. En þegar hreppsnefndirnar eru búnar að kaupa þessar skepnur og lána bændum þær, hvort það eru heldur kvígur eða haustlömb, þá á að borga eitt lamb eftir 30, það eru lágir vextir, mjög lágir vextir. Ég heyrði hv. 3. þm. Austf. einu sinni tala um það í útvarpsumræðum, að það væri yfirsjón, hvað vextir hefðu verið lágir hér á landi. En hvað sem því líður, held ég, að það sé á vissan hátt hagstætt fyrir bændur, sem eiga að borga eina gimbur eftir 30 og eina kvígu eftir 30. Raunar yrði það dálítið óþægilegt, ef maður tæki t.d. 5–6 kvígur á leigu eða jafnvel þrjár, þá er ekki hægt að borga nema brot úr kvígu, og þá yrði annaðhvort að fara með halann, bóginn eða einhvern hluta af kvígunni í leiguna. Það er óþægilegt, það nefnilega vantar skiptimyntina, eins og við höfum í bönkunum, það er dálítið óþægilegt. En náttúrlega er það allt í lagi, ef það væru 30 kvígur, því að þá er hægt að greiða með einni kvígu.

Viðvíkjandi lömbunum er sérstaklega hagstætt fyrir bændur að láta 1 haustlamb í leigu af 30, því að vanalega er nú hægt að finna eitt lamb af 30, sem er lítils virði, þannig að vextirnir yrðu litlir, og þá gætu þeir kjagað með þetta á bílum, því að það er orðið svo mikið um vélar, til útibússtjórans, sennilega yrði það Halldór okkar fyrir austan og svo hér í Búnaðarbankann til Magnúsar, þeir sem væru í Gullbringu- og Kjósarsýslu, svo að þetta væri baul og jarm þar í kring á haustdögunum. En fyrir bændur yrði þetta ágætt, ég sé ekki neitt við það að athuga. Náttúrlega gæti þetta sóðað eitthvað út, sérstaklega kvígurnar í kringum bankahúsið, en það er hægt að verka alla hluti, það væri hægt að ákveða að hafa þetta bara vissa daga og sprauta svo vatni yfir. Yfirleitt eru fínar stofnanir, þessir bankar, eins og við vitum, því að banka vantar ekki í okkar landi eða bankaútibú. Það er nóg af því, en minna um peningana, þannig að þetta er ekki svo vitlaust fyrir bændur, þó að farið sé dálítið aftur í tímann. Hitt er vitanlega aðalatriðið, að bændur fái einhvers staðar lán, svo að þeir geti stækkað búin. Undirstaðan undir öllu er, að löggjöfinni sé breytt þannig, að þeir vinni eitthvað við að stækka búið. En ég vona, að þetta fari að miða allt í rétta átt, löggjöfin breytist, áður en langt um liður, og búin stækki.

Annars skal ég segja ykkur það, hvað er miklu meira virði en allir sjóðir og allar haustgimbrar og allar kvígur, kelfdar eða ókelfdar, og það er kjarkur og manndómur hjá bændum. Ef þeim er talin trú um, að það sé það versta, sem þeir geri, að búa, það sé eiginlega ekki hægt, þá er útilokað, að þeir búi vel. Við vitum, að ómögulegt er að vinna stríð, ef hermennirnir trúa því, að þeir bíði ósigur, og við vitum, að ef við erum á ferðinni í mugguveðri og trúum því, að við villumst, þá villumst við áreiðanlega, en ef við erum öruggir um að rata, þá er mikil von til, að við komumst á leiðarenda. Ég held því, að það, sem við þurfum fyrst og fremst að sannfæra bændur um, þrátt fyrir það að tekjur séu takmarkaðar af búum okkar, þá sé þetta heilbrigðasta og skemmtilegasta starfið. Við þurfum að trúa á framtíðina, trúa á þennan atvinnuveg. Sannleikurinn er sá, að það er hægt að efnast á búskap. Það er ekkert annað en heyja vel á sumrin og setja svo gimbrarnar á, vera ekki að kaupa of mikið og nota beitina vel, nenna að vinna. Ég hef aldrei verið í vandræðum með að hafa gimbrar, hef aldrei þurft að fá lán fyrir gimbrum að hausti. Svo geta menn neitað sér um ýmislegt. Til þess að stækka bú þarf maður bara að trúa því, að það sé hægt, haga sér skynsamlega, en ekki vera með væl og vantrú, hafa sjálfstraust. Það er áreiðanlegt, að þetta er hægt á Austurlandi eins og annars staðar.

Það, sem þm. ættu fyrst og fremst að gera, er að fara milli kjósenda sinna og telja í þá kjark og stórhug, en ekki segja þeim að fá kvígur að láni hjá hreppsnefndinni og haustgimbrar. Þeir geta sett á sínar gimbrar. Ég lifði engu sældarlífi mín fyrstu ár, ég borðaði rúgbrauð og tólg og velling og var stundum svangur. En mér datt aldrei í hug að fara til hreppsnefndar og fá gimbrar að láni. Ég komst alltaf af fyrir því. Og ég held, að það bezta, sem þessir blessaðir þm. gerðu, væri að sýna bændum fram á, að það sé leikur einn að lifa á búskap. Það er ekkert aðalatriði að hafa búið mjög stórt. Þessir herrar, eins og Gunnar Bjarnason og aðrir, sem alltaf eru að tala um stórbú, — því búa þeir ekki sjálfir stórbúi? Á Hvanneyri og Hólum eru einhver stærstu bú hér á landi, en ég man ekki, 1962 held ég að það hafi verið, þá var eitthvað ½ millj. kr. halli á hvoru búi og þó er allt lagt til: vélar, jörð, bústofn. Hvað gefa þessi stóru bú þá af sér? Við eigum að hafa búin hæfilega stór, það borgar sig, að það sé full vinna fyrir fjölskylduna. Það er ekki hægt að treysta á aðkeypt vinnuafl, og það er fíflska að hafa búin sérstaklega stór, meðan bændurnir í heild fé ekkert meira fyrir það, þó að þeir framleiði mikið. Undirstaðan er heilbrigð og breytt löggjöf og hæfilega stór bú. En verst af öllu þó og verra en vitlaus löggjöf og allar vitleysur allra ríkisstj. er það, ef hægt er að telja bændum trú um, að allt sé ómögulegt, og gera þá kjarklausa og manndómslausa.