11.02.1964
Neðri deild: 54. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að svara þeim almennu hugleiðingum, sem hæstv. ráðh. var hér með síðast í ræðu sinni, enda hafði ég ekki gefið neitt tilefni til þeirra. Honum er velkomið að ræðast einn við um þau atriði, enda virtust þau vera fullrædd í gær. En hæstv. ráðh. var að reyna að leysa þá þraut, sem ég hygg að sé óleysanleg, bæði fyrir hann og aðra í þessu tilfelli, og það er að draga í land í þessu máli án þess að leiðrétta það, sem hann lét sér um munn fara hér á fimmtudaginn. Það er ekki von, að hæstv. ráðh. takist þetta, því að það er ekki hægt.

Það getur vel verið, að sá samanburður, sem hæstv. ráðh. gerði á verðlagsgrundvallarverðinu 1958 og 1963, sé nærri lagi. Ég hef ekki athugað það mál. Það er ekki það, sem um er að ræða, heldur það, sem ég gerði hér að umtalsefni, aðeins það, hvort Hermóður Guðmundsson, sem var hér sérstaklega nefndur í umr. á fimmtudaginn, hafi farið hér með réttar tölur eða rangar, og ég leyfi mér að halda því fram, að hann hafi farið með réttar tölur og að þau rök, sem hæstv. ráðh. reyndi að færa fyrir því, að hans tölur hefðu ekki verið réttar, séu röng.

Ég las ekki allt, sem eftir Hermóði var haft um þetta efni, sleppti því m.a., sem þarna er tekið fram seinna í viðtalinu, að síðan þetta gerðist, þ.e.a.s. þetta verðlagsgrundvallarverð var ákveðið, hafi verðlag á landbúnaðarvörum verið hækkað nokkuð. Þar er auðvitað átt við haustið 1963. En það, sem hæstv. ráðh. virðist ekki hafa áttað sig á í þessu máli, er, að fyrir verðlagsárið 1962–1963 gildir verðlagsgrundvöllurinn, sem ákveðinn er haustið 1962, en verðlagsgrundvöllurinn, sem ákveðinn var á s.l. hausti, gildir fyrir verðlagsárið 1963–1964. Á þessu þarf hæstv. ráðh. að átta sig, þegar við ræðum þetta mál, og sérstaklega þegar hann vill bera aðra menn þeim sökum, að þeir fari með rangar tölur.

En nú segir hæstv. ráðh. í þessu sambandi, að það hljóti að hafa verið gert til þess að láta dæmið líta verr út að bera haustið 1962 saman við haustið 1958, það hljóti að hafa vakað fyrir Hermóði Guðmundssyni að láta dæmið líta verr út með því móti, þannig að það er verið að læða þarna inn nýrri grunsemd um óæskilegan málflutning af hendi þessa manns. En það er ákaflega eðlilegt, að Hermóður gerði einmitt þennan samanburð, því að hann var að bera saman stofnkostnað og rekstrarkostnað á árinu 1958 annars vegar og hins vegar á árinu 1963 eða mestum hluta þess árs, ég ætla 1962–1963. Hann er að ræða um þær framkvæmdir, sem unnar eru á því ári og þann rekstrarkostnað, sem á því ári fellur til, og þá er eðlilegt, og alveg sérstaklega með tilliti til framleiðslunnar, sem hann hefur einkum í huga, þar sem bændur fá afurðirnar greiddar eftir á, að hann nefni verð á þeim afurðum, sem áttu að ganga til þess að greiða þessar framkvæmdir og þennan rekstrarkostnað. Það er það rétta. Ef hæstv. ráðh. hefur hugsað sér, að annað væri réttara, er það misskilningur hjá honum.

Ég skal hins vegar ekki fara nánar út í þetta mál. Tilgangur minn var aðeins sá að leiðrétta þarna ummæli um mann, sem getur ekki leiðrétt þau sjálfur hér á þessum vettvangi. Það, sem hæstv. ráðh. er að segja hér, er, að hann hafi verið að tala um þetta, af því að framsóknarmenn hafi vitnað svo mikið í þessa tölu, 34% hækkun, hjá Hermóði Guðmundssyni, og ég veit ekki, hvers vegna hæstv. ráðh. segir það. Það var upplýst hér í gær, að hv. formaður Framsfl. hefði aldrei vitnað í þessa tölu, ekki af því, að hún sé ekki rétt, heldur lá ekki fyrir að vitna í hana. Ég man ekki eftir, að ég hafi gert það heldur, enda var það ekki það, sem málið snerist um, heldur snerist málið um það, að hæstv. ráðh, var að bera til baka staðreyndir, sem einn af forustumönnum bændastéttarinnar hafði farið með, og það er það, sem ég hef gert hér að umræðuefni. Annars vonast ég nú eftir því, þrátt fyrir það að ráðh. tregðist við að leiðrétta þetta, eins og hann átti að gera, að þá muni hann nú eigi að síður gera það.