25.02.1964
Neðri deild: 61. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Það er eins og fram kemur í nál, meiri hl. þá varð ekki fullt samkomulag í landbn. Minni hl., ég og Björn Pálsson, telur, að miklu víðtækari breytingar þurfi að gera á stofnlánadeildarlögunum heldur en þær, sem frv. felur í sér, og þar sem meiri hl. vildi ekki fallast á neinar breytingar á frv., klofnaði n. og gefur hvor nefndarhluti út fyrir sig sitt sérálit, og auk þess leggur minni hl. fram brtt. Nál. minni hl, er á þskj. 306 og brtt. eru á þskj. 307.

Mér þykir rétt að geta þess, að samnm. minn, Björn Pálsson, gat ekki tekið þátt í að semja nál. minni hl. né brtt., sökum þess að hann varð af ófyrirsjáanlegum orsökum að hraða ferð sinni norður í Húnaþing. Ber ég þess vegna einn ábyrgð á orðalagi þeirra tveggja þskj., er ég nefndi hér. Hins vegar veit ég ekki annað en flokksbræður mínir hér í hv. d. séu mér efnislega sammála.

Framsfl. hefur lagt fram fjölda mála varðandi landbúnaðinn og framtíð íslenzkrar bændastéttar nú á þessu þingi. Þessi frv. fjalla t.d. um almenna vaxtalækkun og að hætt verði við að binda sparifé eða hluta af því inni í Seðlabankanum, en nota þess í stað það fjármagn, sem myndast og þjóðin sparar saman, til þess að styðja uppbyggingu atvinnuveganna og þá ekki sízt í landbúnaðinum, svo að heilbrigð og eðlileg þróun geti átt sér stað í sveitum og fólk geti haft þar þau lífskjör, sem boðleg eru og sambærileg við það, sem aðrir atvinnuvegir eru látnir veita þeim, er við þá starfa.

Þá er að nefna hið ýtarlega frv. okkar framsóknarmanna um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, þ.e.a.s. til að koma í veg fyrir fólksfækkun og eyðingu byggðarlaga. En með því frv. er ráðgerð sjóðsstofnun, er fái 1½% af tekjum ríkissjóðs, og skal verja því fé til eflingar atvinnulífi og framkvæmda, þar sem hætta er á því, að byggðarlög eyðist. Með slíkum ráðstöfunum hafa Norðmenn t.d. komið í veg fyrir eyðingu byggðarlaga í Noregi og telja, að fé til þeirra ráðstafana hafi verið mjög vel varið.

Framsfl. telur sjálfsagt að styðja myndun samvinnubúskapar í landinu, því að með þeim hætti má vafalaust létta störf bænda og koma í veg fyrir, að jarðir og kannske heilar sveitir fari í eyði. Er frv. nú nýlega komið fram hér á hinu háa Alþingi af flokksins hálfu um þetta, og er þar gert ráð fyrir 10 millj. kr. framlagi á ári í 10 ár til stofnunar samvinnubúa eða til stuðnings slíkum búum, að koma þeim á fót. Nýbýlastjórn á samkv. till. okkar að hafa með höndum yfirstjórn þessara mála og úthluta því fé, sem þarna er gert ráð fyrir að verði lagt fram.

Þá hefur flokkurinn einnig lagt fram fjölda till. um hin ýmsu vandamál bændanna, svo sem um búfjártryggingar og tryggingar gegn uppskerubresti, sem eru allmikið mál, og hafa fleiri flokkar að vísu verið með till. um það hér.

Við höfum einnig lagt fram till. um aukin afurðalán og rekstrarlán til bænda, um aukin ríkisframlög til súgþurrkunar og votheysgerðar, um nýja rafvæðingaráætlun, sem gerir ráð fyrir, að öll býli í landinu fái rafmagn fyrir árslok 1968.

Þá vil ég einnig geta þess, að við höfum lagt fram tvö frv. um breytingar á stofnlánadeildarlögunum. Annað þeirra er um afnám bændaskattsins og um eflingu veðdeildar Búnaðarbankans í þeim tilgangi að auðvelda eigendaskipti á jörðum, en það er eitt af hinum mestu vandamálum landbúnaðarins nú á þessum árum, hvernig á að fara að því að hafa eigendaskipti á jörðum. Hitt frv. um breytingu á stofnlánadeildarlögunum fer í sömu átt og frv. þetta, sem hér er verið að ræða, frv. hæstv. ríkisstj. á þskj. 235, nema frv. okkar gerir ráð fyrir 65% framlagi af ræktunarkostnaðinum upp að 25 ha. markinu, en stjfrv. gerir þar ekki ráð fyrir nema 50%.

Ég hef aðeins drepið á þessi málefni, því að þessi málaflutningur okkar framsóknarmanna hér á hinu háa Alþingi markar stefnu flokksins í landbúnaðarmálum eða þá stefnu, sem flokkurinn telur að fara verði til þess að tryggja framtíð bændastéttarinnar. Þess vegna hef ég, bæði í nál. því, sem ég hef gefið út og svo einnig nú gert nokkurt yfirlit um þessi mál.

Þá mun ég fara nokkrum orðum um þær brtt., sem minni hl. flytur á þskj. 307. Þar er fyrst lagt til, að 2. og 3. mgr. 7. gr. l. falli niður. Þessi brtt. er borin fram til þess að koma í veg fyrir, að sá, sem framkvæmir t.d. framræslu, missi lánsmöguleika, þó að framlagið hækki, en með till. minni hl. er gert ráð fyrir framlagshækkun.

Þá gerum við ráð fyrir nýjum kafla, sem komi á eftir II. kafla l. og verði III. kafli, undir fyrirsögninni: Um bústofnslán. Þessi nýi kafli verður með 8 nýjum greinum, og kveða þær á um sérstök bústofnslán til frumbýlinga og að lánað verði einnig öðrum bændum til bústofnsauka, svo að þeir geti stækkað bú sín, og þá einnig til vélakaupa. Stofnfé til bústofnslána er þetta samkv. okkar till.: 40 millj. kr. óafturkræft framlag ríkissjóðs, er greiðast skal deildinni á næstu 8 árum með 5 millj. kr. framlagi á ári. Og enn fremur 60 millj. kr. lán, er stjórn deildarinnar heimilast að taka, og ábyrgist fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs greiðslu lánsins. Þá vil ég nefna skilyrðin, sem í till. eru fyrir lánum af þessu tagi. Það er í fyrsta lagi, að umsækjandi reki landbúnað sem aðalatvinnuveg. Í öðru lagi, að hann hafi ekki það mikinn bústofn, að áliti bankastjórnarinnar, sem á að veita lánin og sjá um lánveitingarnar, að hann geti framfleytt fjölskyldu sinni. Í þriðja lagi, að umsækjandi sé að dómi bankastjórnarinnar vel hæfur til að reka landbúnað, enda mælir þá hreppsnefnd með lánveitingunni. Í fjórða lagi, að umsækjandi setji þá tryggingu fyrir láninu, er bankastjórnin tekur gilda. Og í fimmta lagi, að umsækjandi geti að dómi bankastjórnar staðið undir árlegum greiðslum af lánum sínum, er hann hefur fengið samkv. þessum lögum.

Um tryggingarnar gerum við þær till., að tryggingar fyrir þessum lánum verði í fyrsta lagi gegn veði í fasteign eða í öðru lagi gegn veði í vélum og verkfærum og þá enn fremur gegn veði í tilteknum flokki eða flokkum búfjár og gegn hreppsábyrgð, enn fremur gegn sjálfsskuldaábyrgð tveggja eða fleiri aðila, en bankastjórnin meti hverju sinni, hvaða tryggingu skuli taka gilda, og að upphæð lánanna fari eftir mati bankastjórnarinnar á hverjum tíma. Um vextina er það að segja, að við leggjum til, að þeir verði ekki hærri en 5% og lánstíminn fari eftir ákvörðun bankastjórnarinnar, hann sé ekki fastákveðin, en hann skuli þó ekki vera lengri en 10 ár, og það sé áskilið, að ef efnahagur lántakandans breytist svo, að honum verði auðvelt e.t.v. að greiða lán sitt á skemmri tíma en um var samið upphaflega, þá geti bankastjórnin gert honum að greiða hærri afborganir af láninu en annars var tilskilið. Enn fremur sé áskilið, að ef lántakendur breyti um atvinnuveg, þá sé bankastjórninni heimilt að ákveða, að lánið sé þegar gjaldfallið. Enn fremur eru ákvæði um það í þessum till. okkar, að það megi ákveða, að lán skuli vera afborgunarlaust fyrstu þrjú árin. Umsóknir um þessi lán til bústofnskaupanna, eða bústofnslán, eiga að sendast bankastjórninni.

Þá gerum við í öðru lagi brtt., það er 2. brtt. á þskj., um það, við 6. gr., að í stað 50% í 3. mgr. komi 65% , og var ég áður búinn að geta um þá breytingu.

3. brtt. er við 8. gr., að hún orðist þannig: „64. gr. l. orðist svo: Til þeirra framkvæmda, er um getur í 60. gr., og til framkvæmda, er framlagsrétt fá samkv. 63. gr., greiðir ríkissjóður árlega á árunum 1964–1972, að báðum árum meðtöldum, þá fjárupphæð, er þarf til að greiða tilskilinn hluta ríkisins samkv. ákvæðum þessara laga.“

4. brtt. er um það, að á eftir 8. gr. frv. komi ný grein, svo hljóðandi:

„Ríkissjóður greiðir stofnlánadeild landbúnaðarins sérstakt framlag, 25 millj. kr., árlega næstu 5 ár. Fé þetta skal lánað bændum og búnaðarfélögum til framleiðniaukningar í landbúnaði, og skulu lánin vera til 30 ára með 2% vöxtum. Lánin skulu veitt, að fengnum till. nýbýlastjórnar, til vélvæðingar og tæknibúnaðar á sveitabýlum, svo sem til endurbóta á fóðurgeymslum og peningshúsum, súgþurrkunar, færibanda, mjaltavéla, dráttarvéla og jeppabíla. Enn fremur til steypuhrærivéla, jarðtætara og annarra jarðyrkjuverkfæra, sem búnaðarfélög kaupa.“

Ég hef þá að nokkru lýst þessum brtt. og tel mig ekki þurfa að fara um þær fleiri orðum að þessu sinni. Ég hygg, að flestir geti orðið nokkurn veginn sammála um það, að til þess að hefta fólksstrauminn, sem núna liggur úr sveitunum, þarf að gera eitthvað róttækt, eitthvað verulega róttækt. Og þessar till. okkar, sem hér eru nú bornar fram og ég var að lýsa, um bústofnslánin og um lánin til framleiðniaukningar, verða vafalaust taldar róttækar, ég efast ekki um það, og ekki sízt af þeim, sem vilja láta bændum fækka. Við framsóknarmenn viljum hefta fólksstrauminn úr sveitunum og teljum, að bændum eigi ekki og megi ekki fækka úr því, sem nú er orðið. Ef við nytjum ekki landið okkar sjálfir, má gera ráð fyrir, að þær þjóðir, sem búa við landþrengsli, vilji fá að flytja hingað fólk, sem hjá þeim er ofaukið, og þá eigum við Íslendingar ekki lengur land okkar einir fyrir okkur og okkar niðja, sem ættu þó að eiga að mínum dómi frumburðarréttinn til landsins.

Ég minnist þess í sambandi við þetta, að í sumar sem leið átti ég tal við bifreiðarstjóra einn á hópferðabifreið og hann sagði mér þá sögu, að hann var á s.l. sumri að aka hollenzkum og belgískum ferðamönnum hér um Suðurland. Þegar hann var að aka þeim um Holtin og Rangárvellina í Rangárvallasýslu, sem er hið fegursta hérað og gróðurvænlegasta, sem við eigum hér á Íslandi, sennilega, þá voru þessir útlendingar, þegar þeir sáu þetta mikla og fallega hérað, að tala um það, að hingað þyrftu þeir að koma sem skjótast 5 milljónum Hollendinga, hér væri landrými og athafnasvæði fyrir þetta fólk, sem nú væri ofaukið í þeirra landi.

Ég hef dálítið hugsað um þetta. Ég held, að við Íslendingar verðum vel að gæta að því að halda landi okkar sem mest byggðu og láta sveitir ekki fara í eyði. Það kynni að vera, að það væri sjálfstæðisbarátta að hamla gegn eyðingu sveitanna, það væri sjálfstæðisbarátta, sem síðar borgaði sig fyrir þjóðina að hafa barizt fyrir, þó að hún e.t.v. kosti verulega fjármuni nú um skeið, sú barátta.

Ég sá í nál. meiri hl. landbn., að þar var talað um það, að frv. um jarðræktarlögin gengi lengra en frv. það, sem búnaðarþing samdi í fyrra eða hittiðfyrra — eða hvenær það nú var. Ég álít, að þetta sé ekki rétt, því að mér skilst, að þegar meiri hl. heldur þessu fram, eigi hann við bæði frv., bæði frv. um stofnlánadeildina og jarðræktarlagafrv. En hitt er það rétta, að búnaðarþing hafði aðeins til endurskoðunar jarðræktarlagafrv., en ekki lögin um stofnlánadeildina.

Ég ætla nú ekki að fjölyrða öllu meira um þetta, en vil þó segja það, að um málefni bændanna og landbúnaðinn væri auðvitað hægt að tala langt mál, en mér finnst það ekki rétt af mér að nota langan tíma til þess, þar sem umr. urðu miklar og langar hér um málið við 1. umr. Ég ætla því að takmarka mjög mál mitt. En ég vil aðeins segja það að lokum nú við þessa umr., að ef hér á að þróast frjáls og óháð bændastétt, sem vissulega er lífsnauðsyn fyrir þjóðina, eins og ég hef áður rakið, þá verður ríkisvaldið að styðja á öflugan hátt frumbýlinga og þá bændur, sem aftur úr hafa dregizt með framkvæmdir á jörðum sínum. Frv. hæstv. ríkisstj. er að vísu spor í þá átt og stefnir að mínu viti alveg í rétta átt, en ég álít þó, að bezta hjálpin og sú, sem yrði þjóðinni að sem allra mestu gagni, yrði sú, að ríkisvaldið minnkaði verulega með einhverjum ráðum fjárfestingar- og fjármagnskostnað frumbýlinganna. Það er áreiðanlega það, sem öllum yrði farsælast, bæði bændastéttinni og öðrum þegnum þjóðfélagsins. Ég hygg, að það hafi verið talið, að ábúendaskipti þurfi að fara hér árlega fram á um 300 jörðum, það sé hin eðlilega þróun, og það þýðir, að það þarf nú eins og sakir standa að hjálpa ungu fólki til þess að hefja búskap á þessum 300 býlum árlega. Brtt. okkar í minni hl. eru fyrst og fremst miðaðar við þetta, að það verði gert, til þess að halda landbúnaðinum í horfinu og tryggja það, að í bændastéttinni fækki ekki.