25.02.1964
Neðri deild: 61. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls sagði ég; að ég teldi, að þetta frv. stefndi í rétta átt, en hins vegar teldi ég, að það gengi of skammt til þess, að þess væri að vænta, að það gæti leyst þann mikla vanda, sem við væri að glíma í sambandi við stöðu landbúnaðar okkar nú í dag, og þá sérstaklega varðandi vandamálið um hin allt of mörgu smábýli í landinu. Frv. miðar vissulega að því að hvetja til aukinnar ræktunar. Það er gert ráð fyrir því með frv., að ræktunarstyrkurinn frá ríkinu verði aukinn talsvert verulega. En þó er það svo, að sú aukning, sem þar er um að ræða, er í rauninni harla lítil, þegar þess er gætt, hvað margir aðilar hljóta að verða aðnjótandi þessarar hækkunar, sem þarna er um að ræða. Samkv. frv. er gert ráð fyrir því, að heildarútgjaldaaukningin geti orðið í kringum 12 millj. kr. á ári, en hins vegar munu það vera milli 3 og 4 þús. jarðir í landinu, sem geti orðið aðnjótandi þessa aukna framlags. Það er því augljóst mál, að á ári hverju getur ekki komið meira í hlut hvers og eins en 3–4 þús. kr.

Ég tel, að það sé nokkurn veginn víst, að þau býlin í landinu, sem þegar eru komin yfir mestu örðugleikana í sambandi við ræktun, þ.e.a.s. hafa náð nú meðaltalsræktun eða rúmlega það, mundu flestöll geta notfært sér það aukna framlag, sem gert er ráð fyrir með þessu frv. Þau hafa fyllilega aðstöðu til þess, og þau munu halda áfram að auka við ræktunina og verða þessa aukna framlags aðnjótandi. En það leikur hins vegar allmikill vafi á því, að þau býlin í landinu, sem nú búa við minnsta ræktun og minnstu búin eða tiltölulega minnstu búin, — það leikur mikill vafi á því, að þau geti notfært sér þessi auknu framlög, sem hér um ræðir, nema þá að litlu leyti. Þetta stafar af því, að svo er ástatt, að það munu vera um 1500–2000 bændabýli í landinu, þar sem búin eru svo lítil, að þau gefa langt undir þeim meðaltalstekjum, sem nú er talið að meðalfjölskylda í landinu verði að hafa sér til lífsviðurværis. Þar sem svona stendur á, er það meira en lítið átak að koma fram nokkurri verulegri stækkun á búunum. Það þarf meira til en aðeins að auka ræktunina á þeim býlum, þar sem svona er háttað. Það þarf vitanlega að auka bústofninn á þessum jörðum líka, og það kostar mikið fé. Það þarf vitanlega að byggja yfir aukinn bústofn og yfir aukinn heyfeng, og slíkar byggingar kosta líka mikið fé. Og það eru engar líkur til þess, að meginhlutinn af þessum bændum, sem svona er ástatt hjá, geti brotizt gegnum þennan vanda, jafnvel þó að þeim sé boðið upp á slíkt aukaframlag eins og það frv. fjallar um, sem hér er nú til umræðu. Það vandamál, sem hér er við að glíma, er það, hvernig á að fara að í því að koma fram stækkun á smábúunum, á allt of mörgum smábúum í landinu, hver er leiðin til þess.

Við vitum, að verðlagning landbúnaðarvara nú er miðuð við það, að meðalbúið í landinu eigi að gefa atvinnutekjur á ári svipaðar tekjum vinnustétta í kaupstöðum, verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna. Því er mjög haldið fram af bændum, að þessi verðlagsgrundvöllur gefi þeim ekki þessar tekjur, þeir fái ekki þessar tekjur út úr meðalbúinu. En hvað sem því líður, er alveg augljóst eða um það verður varla deilt, að það þarf a.m.k. bú af þessari meðalstærð til að geta fengið þessar meðaltalstekjur.

Nú liggur hitt fyrir, að það eru svona margar jarðir í landinu, eins og ég sagði, milli 1500 og 2000, sem hafa miklum mun minni bú en meðaltalsbúið er, og þar af leiðandi eru tekjur bænda á þessum búum langt fyrir neðan það meðaltal, sem hér er miðað við. Við 1. umr. þessa máls benti ég því á, að það, sem nú þyrfti að gera í þessum efnum, væri, að nú yrði lagt fram af hálfu ríkisins allmyndarleg fjárhæð, beinlínis í því skyni að vinna að stækkun þessara smáu búa. Og mér fannst eðlilegt, að þetta framlag yrði á svipuðum grundvelli og framlag, sem hér var ákveðið á þessu þingi nú fyrir nokkru, til þess að koma á hjá þeim aðilum, sem þar áttu hlut að máli, en það voru frystihúsin í landinu, aukinni framleiðni, auknum afrakstri við vinnuna, en þar var ákveðið að leggja frystihúsunum í landinu að þessu sinni 43 millj. kr. sem óafturkræft framlag í þessu skyni, til þess að auka framleiðnina í frystihúsunum. Á sama hátt álít ég, að eigi að fara að nú í sambandi við þetta vandamál, sem hér er um að ræða. Nú hefði átt að leggja fram t.d. 43 millj. kr. á þessu ári, sem varið yrði alveg gagngert til þess að vinna að stækkun þessara smábúa, og stefna þannig alveg ákveðið að því að útrýma smábúunum og ná því marki tiltölulega fljótlega, að ekkert bændabýli á Íslandi væri minna en það meðaltalsbú, sem verðlagningin er nú miðuð við. Þessu marki þarf að ná. Það þarf að setja sér áætlun um að ná þessu marki ekki síður en um margt annað.

Í framhaldi af því, sem ég sagði um málið hér við 1. umr., flutti ég brtt., sem er á þskj. 258, en sú brtt. fjallar einmitt um þetta atriði. Brtt. er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir 64. gr. l. komi ný gr., sem verði 65. gr., svo hljóðandi: Ríkissjóður leggur fram 43 millj. kr. á árinu 1964, er verja skal til framleiðniaukningar í landbúnaði. Fjárhæð þessari skal sérstaklega varið til stækkunar á þeim búum í landinu, sem eru undir stærð meðalbúsins. Nýbýlastjórn skal setja reglur um ráðstöfun fjárins, en ráðherra staðfestir reglurnar.“

Ég geng að sjálfsögðu út frá, að þær reglur yrðu settar í þessum efnum, að þessari fjárhæð yrði einvörðungu varið til þeirra býla í landinu, sem þannig er ástatt um, að nýbýlastjórnin telur, að þar geti orðið um framtíðarbúskap að ræða, því að vitanlega getur svo staðið á um einstaka jarðir í landinu — og gerir, að það er ekki við því að búast, að þær verði í byggð, a.m.k. í náinni framtíð, og þá er vitanlega ekkert við því að segja, þó að slíkar jarðir verði ekki byggðar og þær hverfi úr byggð. Aðrar geta þar komið í staðinn, þar sem möguleikarnir eru meiri. Og það vitanlega nær engri átt að vera að eyða fé í gagnsleysu á þann hátt að veita styrki til þeirra aðila, sem svo er ástatt um. Það er enginn vafi á því, að það eru möguleikar á að gera þetta, sem í þessari till. felst. Afkoma, ríkissjóðs hefur verið með þeim hætti nú á seinustu tveimur árum, bæði árið 1962 og 1963, og það eru allar líkur til þess, að afkoma ríkissjóðs verði einnig með þeim hætti á yfirstandandi ári, að ríkið getur vel séð af þessari upphæð. Það er enginn vafi, að þetta er hægt. Spurningin er aðeins sú: Á að stíga þetta skref nú eða á að bíða enn?

Hv. 2. þm. Sunnl., Ágúst Þorvaldsson, sem hér talaði næstur á undan mér, sagði, að hann teldi, að nú þyrfti að gera verulega róttækar ráðstafanir í málefnum landbúnaðarins til þess að koma í veg fyrir verulega flutninga á fólki úr sveitum landsins. Ég held, að þetta sé rétt, að það þurfi á róttækum ráðstöfunum að halda. En ég held, að það, sem mest liggur við í þessum efnum, ef á að stöðva fólksflóttann úr sveitunum, sé einmitt að gera þær ráðstafanir, sem lagt er til að gerðar verði með þeirri till., sem ég flyt, þ.e. einmitt að gera róttækar ráðstafanir til að stækka hin of smáu bú í landinu og gera þeim, sem við þau búa, lífvænlega búskaparaðstöðu. Auðvitað verða það bændurnir á þeim búum, sem gefast fyrst upp, þeir, sem í dag búa við árstekjur, sem nema 50–60 þús. kr. Það er ofur skiljanlegt, að það verði þeir, sem gefast fyrst upp og flýja sveitirnar. Og það sjá allir, að þeir, sem við slíka aðstöðu búa, hafa ekki getu til að leggja fram það fé, sem til þess þarf að stækka búin. Þeir hafa enga möguleika til að fá lán fyrir hinum nýja stofnkostnaði öllum, og tekjur þeirra leyfa ekki, að þeir geti af þeim klipið til þess að leggja fram á móti lánunum og brjótast í gegnum þennan vanda af eigin rammleik. Það er því alveg áreiðanlega ekki um aðrar leiðir að ræða en þær, sem bent er á í minni till. Það verður að koma til beint ríkisframlag, og verði það ekki samþykkt nú, verður það samþykkt á næsta ári, og ef ekki á næsta ári, þá á árinu þar á eftir. Það er enginn vafi á því, að undan þessum vanda verður ekki vikizt. Þetta er eitt af því, sem skiptir einmitt mestu máli í sambandi við landbúnaðinn. Það er einmitt þetta, að koma því fram, að meðalbúið í landinu verði stækkað og sérstaklega að verði ekki neitt bú í landinu minna en það meðalbú er, sem verðlagsgrundvöllurinn er í dag miðaður við.

Mér þótti nokkuð á skorta hér í sambandi við framsögu, bæði frá hálfu meiri hl. landbn. og eins af hálfu minni hl. landbn., að þeir viku ekki einu einasta orði að þessari till., sem ég hafði hér flutt og n. hlýtur að hafa haft til athugunar jafnhliða málinu. Þeir minntust ekki einu orði á afstöðu meiri og minni hl. n. til þessarar till. Nú hlýt ég að spyrja þessa aðila um það: Hver er afstaða þeirra til þessarar till.? Þannig getur landbn. ekki skilað frá sér þessu máli, að hún lýsi því ekki yfir, hver er hennar afstaða til slíkrar till. sem þessarar. Ég vil vænta þess, að það megi skilja þessa þögn frá hálfu landbn.-manna um þessa till. mína á þá lund, að þeir séu henni ekki mótfallnir og séu kannske enn að hugsa sig um og eigi eftir að ljá henni fylgi sitt, þótt síðar verði.