25.02.1964
Neðri deild: 61. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Út af ræðu hv. síðasta ræðumanns vil ég segja nokkur orð.

Það kemur fram í nál. meiri hl. n., að hún hafi ekki tekið afstöðu til þeirra brtt., sem fyrir lágu, og þ. á m. var einmitt brtt. hv. 5. þm. Austf. En mér þykir rétt að fara um hana nokkrum orðum, og það var raunar af ásettu ráði, að ég frestaði að gera það áðan, en ég bjóst við því, að hv. þm. mundi koma hér og mæla fyrir henni við þessa umr. En mér finnst, að það, sem aðallega liggur í henni, eins og raunar till. hv. framsóknarmanna, sé að ganga allmiklu lengra en gert er með frv. ríkisstj. Þetta er aðeins venjulegur gangur mála, skilst mér, hér á Alþingi, að stjórnarandstaðan vill yfirleitt ganga lengra en þeir, sem ábyrgðina bera, telja sér fært að gera í fjárframlögum, og það þarf ekki að vera nokkur mælikvarði á það, hver vilji er til þess að verða þeim málum að liði, sem um er að ræða, heldur er það fyrst og fremst mælikvarði á það, að aðrir bera ábyrgðina, en hinir ekki. En það segir í þessari brtt. hv. 5. þm. Austf., að verja skuli 43 millj. kr. til framleiðniaukningar í landbúnaði. Ég vakti athygli á því áðan í minni ræðu, að auðvitað er enginn munur á þessu og þeim aukna stuðningi, sem fyrirhugaður er með frv. því, sem hér liggur fyrir, ásamt með frv. um breyt. á jarðræktarlögunum, að þau auknu framlög, sem þar er gert ráð fyrir, — auðvitað eru þau til framleiðniaukningar í landbúnaði.

En það er annað í sambandi við þessa till., sem ég vildi þó vekja athygli á, og það er þetta: Af hverju er miðað þarna við þessa upphæð, 43 millj. kr.? Þetta kom einmitt fram í ræðu hv. þm. núna áðan, því að hann sagði, að samkv. 1., sem nýlega er búið að samþykkja um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl., er þar samkv. 1. gr. einmitt ákveðið að verja 43 millj. kr. til framleiðniaukningar við framleiðslu freðfisks. En mér þykir rétt að vekja athygli á því í þessu sambandi, að þess er einmitt getið í aths., sem fylgdu því frv. frá ríkisstj., að þetta ákvæði er til þess að fullnægja því samkomulagi, sem gert var við lausn vinnudeilunnar fyrir jólin, þegar samið var um 15% kauphækkun. En frystihúsin í landinu töldu sig með engu móti geta tekið á sig þessa kauphækkun nema fá hana bætta eftir öðrum leiðum. Og það eru einmitt þessar 43 millj. kr., sem þarna er um að ræða, þær eru einmitt til þess að bæta frystihúsunum það, sem þau tóku á sig með 15% kauphækkuninni, sem samið var um fyrir jólin. En ég vil vekja athygli á því, að samkv. l. um framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl. kemur þessi kauphækkun sjálfkrafa inn í landbúnaðarvöruverðið, og væntanlega kemur hún til framkvæmda núna 1. marz. Þess vegna er að mínum dómi ekki að finna rökstuðning fyrir þessari till. með þessu ákvæði úr l. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins o.fl. En mig grunaði einmitt, af því að þarna var tekin til þessi upphæð, að þá mundi vera hugsað þarna eitthvert samband á milli. Það er annað mál að gera till. um það að verja meira fé til framleiðniaukningar í landbúnaðinum en gert er með þessu frv. ríkisstj., bæði þessu og frv. um breyt. á jarðræktarl. En mér þykir rétt og ég vil sérstaklega vekja athygli á því, að ég tel það algeran misskilning, að það sé hægt að rökstyðja slíka till. sem þessa um 43 millj. kr. framlag með 1. gr. laga um ráðstafanir til aðstoðar við sjávarútveginn o.fl. En þess vegna er afstaða n. eða a. m. k. meiri hl. n. til þessarar till. eins og fram kemur í nál., að n. mælir með frv. ríkisstj., eins og það liggur fyrir á þskj. 235, og þess vegna mælir hún ekki með samþykkt þessarar brtt.

Hv. þm. vildi gera heldur lítið úr stuðningi til hinna smáu býla samkv. þessu frv., reiknaði út, að það væru ekki nema 3000–4000 kr. á býli árlega. Það má vera, að þetta sé rétt reiknað hjá hv. þm., ég held, að hann sé yfirleitt góður í reikningi. En ég vil nú bara benda á það tvennt, annars vegar sýnir reynslan, að það eru aldrei allir, sem taka þátt í þessum framkvæmdum á hverju ári, og á hinn bóginn, að samkv. hinu frv., frv. um breyt. á jarðræktarl. sem fylgir þessu, og það skulu menn muna, að þau eru algerlega tengd, enda þótt það sé í tveimur frv., — þá kemur líka veruleg upphæð þar til viðbótar við það, sem veitt er til stækkunar á túnunum undir 25 ha. samkv. þessu frv. Ég hef ekki reynt að leggja það niður fyrir mér, hverju þetta kynni að nema á hvert býli. Hitt vil ég aðeins undirstrika, sem ég sagði hér áðan, að það hefur ekki áður verið gert jafnstórt átak til stuðnings ræktunarmálunum eins og er gert með þessum tveimur frv. ríkisstj. nú.

Það er annað, sem ég vil líka vekja athygli á og skiptir hér miklu máli, að sú grundvallarhugsun, sem fylgt er í þessum málum, sem var fylgt með jarðræktarlögunum í upphafi og hefur yfirleitt verið fylgt síðan, þó að dálítið hafi verið breytt um stefnu, þá er grundvallarhugsunin sú, að láta bændurna sjálfa hafa frumkvæðið. Ég tel þetta ákaflega þýðingarmikið atriði. Það er aðeins, að ríkisvaldið segir: Ef þið framkvæmið þetta, ef þið gerið þessar umbætur í búskap ykkar, þá skulum við koma til móts við ykkur á þennan hátt. — En ef ætti að fara aðra leið, þannig að það væri beinlínis af hálfu ríkisvaldsins farið að framkvæma umbætur hjá bændunum — inn á þá leið vildi ég fara í síðustu lög. Ég vildi ekki fara inn á þá leið, fyrr en ég sæi, að allar aðrar væru lokaðar. Ég hef trú á því, að okkur takist að rétta landbúnaðinn við, rétta við þessi smáu býli gegnum þessa frjálsu leið, ef svo mætti segja, með því að leitast við að láta bændurna sjálfa hafa frumkvæðið. Og ég verð að játa, að það er mikill vafi, hvort það er hægt eða rétt að koma til liðs við þá bændur, sem ekki geta eða vilja taka á móti þeim stuðningi, sem veittur er á þennan hátt. Það kann að vera í einstaka tilfelli, að nauðsynlegt sé að ganga lengra, en þau tilfelli eru að minni hyggju ekki mörg. Við skulum ekki gera lítið úr því, að það verður mjög mikil breyting á aðstöðunni til, framkvæmda á litlu býlunum, sem hafa undir 25 ha. túnstærð, eftir að þessi frv. hafa verið samþykkt.

Ég vildi láta þetta koma fram. Það var engan veginn af því, að við ætluðum að humma fram af okkur í landbn. að láta. uppi álit um þessa brtt. Lúðvíks Jósefssonar, en ég taldi réttara, að hann hefði mælt fyrir henni á undan.

Ég held, að það sé ekkert sérstakt, sem ég hef ástæðu til að svara úr ræðu hv. þm. Ágústs Þorvaldssonar. Hann segir, að Framsfl. hafi markað sína stefnu með þeim frv., sem hann hefur lagt fram hér á Alþingi til stuðnings landbúnaðinum. Ég ætla ekki að fara að deila við hann um þetta, en á hinu vil ég vekja athygli, að það lætur þó orðið talsverð breyting á þessari stefnu Framsfl. frá því, að þeir voru sjálfir í ríkisstj. Ég ætla aðeins í því sambandi að minna hér á eina samþykkt, sem gerð var á aðalfundi Stéttarsambands bænda í Bifröst í Borgarfirði sumarið 1958, en þá var hin sæla vinstri stjórn við völd, Framsfl. fór með landbúnaðarmálin, svo sem menn muna, en þessi samþykkt var á þessa leið:

„Aðalfundur Stéttarsambands bænda 1958 telur ekki rétt né æskilegt, að stöðvuð sé sú fjárfesting, er bændur af knýjandi nauðsyn hafa með höndum, og skorar því á ríkisvaldið að tryggja ræktunarsjóði fé til áframhaldandi lánastarfsemi, eftir því sem heilbrigt getur talizt og verða mætti m.a. til að koma í veg fyrir, að byggilegar sveitir fari í eyði.“

Jafnvel þá virðist viðhorfið hafa verið líkt og þeir tala nú um, að það væri hætta á, að jafnvel heilar sveitir færu í eyði. Þessi till, er samþ. vegna þess, að þá var öllum orðið ljóst, að lánasjóðir landbúnaðarins voru orðnir gersamlega vanmegnugir að valda því hlutverki, sem þeir áttu að valda, og það var nokkuð rifjað upp í umr. hér við 1. umr. þessa máls, að lánasjóðir landbúnaðarins voru raunverulega gjaldþrota, þegar núv. ríkisstj. tók við völdum.

Mér finnst, að þessi samþykkt beri það með sér, að þeir, sem að henni stóðu, hafi ekki haft hugmynd um það, að svo mikill stórhugur væri þá ríkjandi í stefnu Framsfl. eins og hv. þm. Ágúst Þorvaldsson vildi vera láta. En það kann að vera, að það sé af því, sem ég var að vekja hér athygli á áðan, að það er nokkuð annað að vera í ríkisstj. og bera ábyrgð á hlutunum eða geta borið fram frv. og till. án þess að þurfa að bera ábyrgð á þeim.