03.03.1964
Efri deild: 55. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

130. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er komið frá Nd. og er stjórnarfrv. til breytinga á l. um stofnlánadeild landbúnaðarins. Meginatriði frv. er að veita aukastyrk á tún að 25 ha. stærð í stað 15 ha., eins og nú er gert samkv. lögum.

Það er nú komið í ljós, að margir bændur eru mjög skammt á veg komnir með ræktun, hafa allt of lítil bú, til þess að þeir geti lifað af því sómasamlegu lífi, og samkv. útreikningum hagstofunnar hefur komið í ljós, að meðaltekjur bænda eru lægstar miðað við aðrar stéttir, sem kemur einfaldlega af því, að stór hluti bændastéttarinnar hefur svo lítinn bústofn, að það getur ekki gefið nægilegar tekjur til að lifa sómasamlega af því. Það hefur komið í ljós við athugun, að a.m.k. í einum landshluta eru margir bændur, sem hafa ekki innlegg fyrir meira en 75–80 þús. kr., og þá hafa þeir bændur eitthvað nálægt 100 kindum og 2–3 kýr. Það liggur vitanlega í hlutarins eðli, að nettótekjur af slíku búi eru sáralitlar eða jafnvel engar. Þetta er vitanlega ekki nýtilkomið. Þannig hefur þetta alltaf verið, og kjör þessara manna hafa vitanlega alltaf verið mjög bágborin. Það verður aldrei mögulegt að rétta hag þessara manna með því að hækka afurðaverðið svo mikið, að þessi litlu bú geti gefið því fólki, sem við þetta býr, sæmileg lífskjör. Þess vegna er það, að það verður að hrinda af stað nýrri ræktunaröldu, sem miðar þá sérstaklega að því í bili að auka túnstærðina, þar sem hún er minnst, og vinna að því af alefli að gera þær jarðir, sem eru í ábúð, ábúðarhæfar með því að auka ræktunina. Það er leitt, að það skuli enn vera margar jarðir með aðeins 10 ha. tún og fjöldi jarða í ágætum héruðum með tún undir 15 ha., en að vísu hefur verið ýtt undir það, að túnin næðu 15 ha., með því að miða aukastyrkinn, eins og áður er á minnzt, við þá túnstærð. En það er of lítið að hafa aðeins 15 ha. af ræktuðu landi. Það er of lítill bústofn, sem slíkt bú framfleytir. Hins vegar hefur það verið athugað og fróðir menn talið, að 25 ha. tún, sé það í góðri rækt, geti framfleytt búi, sem gefur af sér sæmilegar tekjur og sæmilega afkomumöguleika miðað við það verðlag, sem nú er á búsafurðum.

Það liggja fyrir hjá Landnámi ríkisins og Búnaðarfélagi Íslands skýrslur um það, hver túnstærðin er á hverju býli. Það liggja einnig fyrir skýrslur um það, hversu mikið ræktunarland er á hverju býli, og það er ekki af því, að það sé ekki ræktunarland á þessum jörðum, sem skemmst eru á veg komnar, að túnin eru ekki stærri. Það er víðast hvar nóg af ræktanlegu landi. En ástæðan til þess, að ræktunin er svo skammt á veg komin sem raun ber vitni, er einfaldlega sú, að þessu hefur ekki verið komið í framkvæmd, og er ekkert um það að sakast. Ástæður manna eru misjafnar og vitanlega hafa margir af þeim, sem skammt eru á veg komnir, löglegar afsakanir fyrir því, að ekki hefur betur gengið en orðið er.

Með því frv., sem hér er flutt, er að því stefnt, að ræktunin geti orðið svo mikil á hverju býli, að þær verði hæfar til búskapar, og ættu þá þessi lög að vera virkur þáttur í því að hindra það, að þessir bændur flosni upp og flytjist í burtu af jörðunum. Ræktunin er undirstaðan undir því, að unnt verði að koma upp þeim bústofni, að það geti orðið sæmileg lífskjör fyrir þá, sem á jörðunum eru.

Það hefur verið að því spurt og jafnvel á fjölmennum fundum, hvað væri meint með því að auka ræktunina svo mikið sem hér er lagt til og hvað eigi að gera við alla þá framleiðslu, sem muni verða í landinu af landbúnaðarvörum, eftir að allar jarðir hafa fengið 25 ha. tún og þær jarðir, sem hafa stærri tún, einnig bætt kannske verulega við sig. Ég vil segja, að það er engin ástæða til að hafa áhyggjur af offramleiðslunni, vegna þess að fólkinu í landinu fjölgar stöðugt og þörf fyrir landbúnaðarvörur innanlands fer stöðugt vaxandi. Einnig ber að vinna að því að fá betri og öruggari markaði fyrir okkar ágætu landbúnaðarafurðir en enn hefur tekizt að fá, og munu allir vera sammála um, að það beri að leggja megináherzlu á það, — einnig, að það beri að nýta og vinna úr landbúnaðarvörunum hér innanlands meira en enn hefur verið gert og gera þær þannig verðmætari og gera landbúnaðarframleiðsluna þannig stærri þátt í þjóðartekjunum en enn hefur orðið. Slíkir möguleikar eru fyrir hendi, og þá möguleika verður þjóðin vitanlega að nýta. Þjóðin er svo lánsöm að eiga mikið af ræktanlegu landi. Við höfum ekki enn ræktað nema 85 þús. ha., eða 850 ferkm. Við eigum 25 þús. ferkm til af ágætu ræktunarlandi, og auk þess höfum við 20 þús. ferkm af landi, sem má koma í samfelldum gróðri og jafnvel gera að túni, þannig að það nálgast að vera helmingurinn af landinu, sem mætti gera að samfelldu gróðurlandi. Þetta er út af fyrir sig gott að vita, og þess vegna er það, að það er ástæðulaust að horfa með kvíða til framtíðarinnar. Við höfum það, sem margar þjóðir hafa ekki. Margar þjóðir eru þannig settar, að þær búa við landþrengsli og verða að flytja út árlega alla þá fjölgun, sem er í landinu.

Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir, að árleg útgjöld vaxi um tæpar 13 millj. kr., og er það um 80% hækkun miðað við það fjármagn, sem Landnám ríkisins hefur nú yfir að ráða. Það er gert ráð fyrir, að 3500–3800 jarðir njóti góðs af þessum lögum eða hafi ræktun undir 25 ha., og er það vitanlega langmestur hluti jarða í landinu, en það er talið, að það muni vera um 5500 jarðir, sem eru í byggð. Þá er og talið, að það séu 2723 jarðir með túnstærð undir 15 ha.

Frv. þetta gerir einnig ráð fyrir nokkrum stuðningi við byggingar, þannig að byggingarstyrkurinn hækki úr 50 þús. í 60 þús., en eins og kunnugt er, var með lögum frá 1957 gert ráð fyrir að veita aukastyrk á túnstærð allt að 10 ha. og 25 þús. kr. byggingarstyrk, sem þá var að vísu miðaður við nýbýli. 1960 var þessi styrkur hækkaður upp í 40 þús. kr. og þá einnig heimilað að veita hann á eldri jarðir, sem eftir var að byggja upp á. 1963 er ræktunartakmarkið sett á 15 ha. og styrkurinn hækkaður úr 40 þús. í 50 þús. Og með þessu frv. er lagt til, að styrkurinn hækki upp í 60 þús.

Þegar rætt var um frv. þetta í hv. Nd., var ekki aðeins rætt um það, heldur um landbúnaðarmál almennt, miklar umr. Ég tel ekki ástæðu til við þessa 1. umr. málsins hér að hefja umr. á breiðari grundvelli, heldur halda mig aðeins við frv. Ég vil geta þess, að í hv. Nd. voru bornar fram veigamiklar brtt. við frv. og lagt til, að það væri gengið nokkru lengra í styrkveitingum, en þær brtt. voru felldar. Hins vegar var samþ. brtt. frá hv. þm. Jónasi Péturssyni um heimild til að lána út á bústofn. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þá till. Ég tel hana ekki sérstaklega veigamikla, en kannske kemur hún að einhverju gagni. A.m.k. hafði þessi hv. þm. trú á því, að á Austurlandi mundi sú heimild, sem þessi till. veitir, verða notuð, enda dæmi til þess, að á Austurlandi hafi verið framkvæmt eitthvað líkt því, sem í þessari till. felst. En sú till. var samþ. í hv. Nd., og er frv. að öðru leyti eins og það var upphaflega flutt.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið að svo komnu, en legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.